Hvers vegna var fallöxin fundin upp, af hverju var hætt að nota hana og hver var fyrstur drepinn með henni?Fallöxi er aftökutæki sem samanstendur af háum ramma og þungu axarblaði, sem hengt er upp á rammann. Við aftöku er sakamaður festur í rammann þannig að háls hans liggi beint fyrir neðan blaðið. Síðan er blaðið losað svo það falli niður á háls sakamannsins og hálshöggvi hann. Fallöxin varð fræg á tímum frönsku byltingarinnar 1789-1799 og er nú eitt af helstu táknum byltingarinnar. Á þessum umbrotatíma í Frakklandi var fallöxin meginaðferðin sem notuð var við aftökur og ótalmargir teknir af lífi með henni, meðal annars konungurinn Loðvík sextándi. Aftökur fóru þá gjarnan fram á almannafæri þar sem áhorfendur gátu fylgst með. Svipuð aftökutæki höfðu þó verið notuð fyrr á öldum. Til dæmis var hin skoska Maiden-fallöxi notuð árin 1565-1710 og í Halifax á Englandi var fallöxi í notkun fram til ársins 1650 en óljóst er hvenær hún var fyrst notuð. Hún nefndist Halifax Gibbet. Heimildir gefa til kynna að einhvers konar fallaxir gætu hafa verið notaðar í Evrópu á 13. og 14. öld eða jafnvel fyrr. Því er ekki vitað hvenær fallöxin var fundin upp né hver uppfinningamaðurinn var. Franski læknirinn Joseph-Ignace Guillotin (1738-1814) talaði fyrir umbótum á framkvæmd dauðarefsinga á tímum frönsku byltingarinnar og vildi nota vél til að taka fólk af lífi. Hann var sjálfur mótfallinn dauðarefsingum en taldi að með þessu móti væru aftökurnar mannúðlegri þar sem þær yrðu fljótlegri og sársaukaminni. Fallöxin varð seinna þekkt undir nafninu guillotine, í höfuðið á Guillotin, á frönsku og ýmsum fleiri tungumálum, þar á meðal ensku. Í kjölfar frönsku byltingarinnar var tilskipað að allar aftökur í Frakklandi skyldu framkvæmdar með fallöxi og sett saman nefnd til að sjá um hönnun og útfærslu vélarinnar. Þótti jafnrétti felast í því að allir dauðadæmdir sakamenn skyldu vera líflátnir með sömu aðferð, óháð stétt og stöðu, en fyrir byltinguna höfðu aðalsmenn verið hálshöggnir með sverði eða öxi en almúgamenn hengdir. Einnig var talið að fallöxin ylli minni sársauka og þjáningum en fyrri aftökuaðferðir þar sem aðeins þurfti eitt snöggt högg til að taka mann af lífi. Fyrsta aftakan með fallöxi í Frakklandi fór fram 25. apríl 1792, en þá var stigamaðurinn Nicolas Jacques Pelletier hálshöggvinn. Fallöxin var opinber aftökuaðferð Frakklands þar til dauðarefsing var afnumin þar árið 1981. Síðasta aftakan með í Frakklandi, sem jafnframt var síðasta notkunin á fallöxi, fór fram 10. september 1977, þegar Hamida Djandoubi var tekinn af lífi. Þótt fallöxin sé oftast tengd við Frakkland var hún einnig notuð við aftökur í öðrum löndum á 19. og 20. öld, svo sem Belgíu, Svíþjóð og Þýskalandi. Í Þýskalandi var fallöxin notuð langt fram á 20. öld, meðal annars við mörg þúsund aftökur á tímum nasismans. Flest Vesturlönd hafa nú afnumið dauðarefsingar og aðeins eitt Evrópuland, Hvíta-Rússland, heimilar þær enn. Heimildir:
- Fallöxi - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið. (Skoðað 22. 6. 2016).
- Guillotine - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 22. 6. 2016).
- The Guillotine Headquarters. (Skoðað 22. 6. 2016).
- Joseph-Ignace Guillotin - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 22. 6. 2016).
- Exécution de Marie Antoinette le 16 octobre 1793 | Guillotine - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 22. 6. 2016).
- The Maiden, National Museum of Scotland | Guillotine - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 22. 6. 2016).
- Joseph-Ignace Guillotin | Guillotine - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 22. 6. 2016).
Þetta svar er eftir nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2016.