Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er Noam Chomsky og hvers vegna er hann öndvegisfyrirlesari Hugvísindasviðs?

Höskuldur Þráinsson

Uppruni og menntun

Noam Chomsky fæddist 7. desember 1928 í Fíladelfíu í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Foreldrar hans voru William og Elsie Chomsky. Faðirinn var þekktur fræðimaður í hebreskum fræðum, prófessor við Gratz College í Pennsylvaníu og innflytjandi frá Úkraínu. Móðirin ólst upp í Bandaríkjunum, átti ættir að rekja til Hvíta-Rússlands og kenndi líka hebresk fræði. Þótt móðurmál foreldranna væri jiddíska (vesturgermanskt mál með ívafi úr hebresku, slafneskum málum og fleirum, talað af gyðingum víða um lönd á sínum tíma, ekki síst í Austur-Evrópu) var hún aldrei töluð á heimilinu.

Carol og Noam Chomsky.

Chomsky fékk að ýmsu leyti hefðbundið gyðinglegt uppeldi á bandarískan mælikvarða, lærði hebresku og sótti ýmis námskeið í þeim fræðum á skólaárum sínum. Í þeim barna- og unglingahóp var meðal annars Carol Schatz (1930-2008), tveim árum yngri en Chomsky. Hún hefur sagt svo frá að á fyrstu unglingsárum þeirra hafi Chomsky nú ekki verið aðalsjarmörinn í strákahópnum, frekar lítill fyrir mann að sjá og algjör nörd. Þau kynntust þó smám saman nánar og giftu sig þegar hún var aðeins 19 ára (1949), þá bæði við nám í Pennsylvaníuháskóla. Carol var líka málfræðingur og fékkst einkum við barnamál og kennsluaðferðir tengdar máli og málfræði í skólum. Hún kenndi um langt skeið við menntavísindasvið Harvardháskóla (School of Education) og sagan segir reyndar að hún hafi drifið sig í að ljúka doktorsprófi og sækja um stöðu á sjöunda áratug síðustu aldar þegar þau hjónin óttuðust að Noam kynni að verða settur inn vegna stjórnmálaafskipta sinna. Til þess kom þó aldrei og þrátt fyrir gagnrýni sína á bandarísk stjórnmál og bandarískt eða vestrænt þjóðfélag hefur Chomsky oft vísað til þeirra forréttinda sem flestir í þessum heimshluta hafa þrátt fyrir allt og felast í því að geta látið skoðun sína í ljós án þess að þurfa að óttast um líf sitt eða frelsi.

Chomsky stundaði háskólanám við Pennsylvaníuháskóla og fékkst þar einkum við heimspeki og málvísindi. Meðal kennara hans var málvísindamaðurinn Zellig S. Harris, sem reyndar stofnaði málvísindadeildina þar, en hún er jafnan talin elsta deildin í Bandaríkjunum í almennum málvísindum (stofnuð 1947, sjá www.ling.upenn.edu). Þaðan lauk Chomsky BA-prófi með málvísindi sem aðalgrein 1949 og MA-prófi 1951, en ritgerðir hans til BA- og MA-prófs fjölluðu um hebreska hljóðkerfisfræði. Doktorsprófi í málvísindum lauk hann svo frá Pennsylvaníuháskóla 1955, en hafði þá verið styrkþegi Harvard Society of Fellows frá 1951. Í framhaldi af þessu fékk hann svo starf við Massachusetts Institute of Technology (MIT) í Cambridge og hefur starfað þar síðan, fyrst í hinni sögufrægu Building 20 (sem var hálfgerður bráðabirgðakofi reistur á stríðsárunum) og síðar í hinu nýtískulega Stata Center (sem er eitt af verkum Franks Gehry, arkítekts). Þeir sem þekkja til Chomskys geta væntanlega ímyndað sér í hvorri byggingunni hann hefur kunnað betur við sig.



Building 20 til vinstri og Stata Center til hægri.

Chomsky er nú prófessor emeritus en kemur þó enn að kennslu við MIT. Hann hefur auk þess verið gistiprófessor eða gistifræðimaður við fjölda háskóla og stofnana, er heiðursdoktor frá meira en 20 háskólum og hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna. Þá er þess oft getið að meira sé til hans vitnað en nokkurs annars núlifandi fræðimanns.

Málfræðibylting Chomskys

Segja má að málfræðibylting Chomskys hvíli á tveim meginstoðum, sem þó eiga sér sameiginlegar rætur. Sú fyrri er formleg (eða stærðfræðileg) og aðalþemað í fyrstu bók Chomskys, Syntactic Structures (1957, sjá til dæmis á Wikipedia). Þar lagði hann megináherslu á að lýsa með formlegum hætti þeirri grundvallarstaðreynd að mannlegt mál er skapandi eða sívirkt (e. creative) og ekki bara endanlegt kerfi tákna eða eininga eins og formgerðarstefnumenn lýsa því yfirleitt. Þótt fjöldi grundvallareininga mannlegs máls, til dæmis málhljóða og beygingarendinga, sé endanlegur, eru engin takmörk fyrir því hvernig tungumálið getur nýtt sér þessar einingar.

Í umræðum um þennan eiginleika málsins vísar Chomsky oft til þýska fræðimannsins Wilhelms von Humboldt (1767-1835), en hann lagði einmitt mikla áherslu á þennan eiginleika mannlegs máls og sagði að það væri "eine Erzeugung" fremur en "ein todtes Erzeugtes" eða "eine fertig daliegende Masse" (það er að málið væri virkt og skapandi fremur en einhver tilbúin afurð eða pródúkt, sjá til dæmis umræðu Chomskys um þetta í bókinni Cartesian Linguistics 1966, bls. 19-20). Þetta er kannski mest áberandi í setningagerð tungumála því auðvelt er að sýna fram á að fjöldi setninga í mannlegum málum er óendanlegur þótt þær séu gerðar úr endanlegum fjölda eininga. Eitt aðalviðfangsefni bókar Chomskys Syntactic Structures er að sýna hvernig unnt er að lýsa þessum eiginleikum mannlegs máls með formlegum reglum sem eru endurkvæmar (e. recursive). Það er þetta einkenni á málfræði Chomskys sem liggur að baki því enska heiti sem oftast er notað um hana, það er generative grammar (orðið málmyndunarfræði var tilraun til að þýða þetta á íslensku). Málfræðireglurnar skilgreina á formlegan hátt, eða ala af sér (e. generate), óendanlegan fjölda setninga og gera þannig grein fyrir því megineinkenni mannlegs máls sem hér var lýst, það er sköpunarkrafti þess.

Í áranna rás hafa Chomsky og sporgöngumenn hans prófað ýmsar formlegar aðferðir til að gera grein fyrir þessu einkenni málsins. Hann hefur alltaf litið svo á (líkt og áðurnefndur Wilhelm von Humboldt) að endurkvæmnin (e. recursiveness) sé það sem öðru fremur greinir mannlegt mál frá annars konar táknkerfum (sjá til dæmis grein Chomskys með Hauser og Fitch 2002: The Faculty of Language: What Is It, Who Has It, and How Did It Evolve?) og lagt áherslu á að málfræðin eða málfræðikenningin þurfi að gera grein fyrir þessu. Um leið hefur formlega glíman snúist um það að skilgreina mörk og samspil hinna einstöku þátta málfræðinnar, svo sem hljóðkerfisfræði, beygingafræði, setningafræði og merkingarfræði. Í þessari leit að bestu formlegu framsetningunni hafa Chomsky og aðrir nýtt sér ýmis hugtök, aðferðir og framsetningu úr stærðfræði og rökfræði. Þetta hefur leitt til þess að kjarni málsins hefur oft dulist fyrir þeim sem ekki treysta sér til að setja sig inn í síbreytilegar formlegar aðferðir til að gera grein fyrir honum þótt kjarninn sjálfur hafi í raun haldist að mestu óbreyttur í áratugi.



Noam Chomsky er einn áhrifamesti málfræðingur sem uppi hefur verið.

Hin meginstoðin undir málfræðibyltingu Chomskys er sú áherslubreyting sem hann innleiddi í málfræðinni. Samkvæmt henni er viðfangsefni málfræðinga fyrst og fremst að gera grein fyrir því hvað felst í því að kunna mál, það er lýsa sjálfri málkunnáttunni (e. competence). Þar telur hann sig meðal annars byggja á hugmyndum franska heimspekingsins René Descartes (1596-1650), samanber heiti bókarinnar Cartesian Linguistics (Chomsky 1966), en Descartes lagði meðal annars mikla áherslu á sérstöðu mannlegs máls andspænis þeim takmörkuðu og afmörkuðu táknum og táknkerfum sem ýmis dýr hafa yfir að ráða.

Með þessari áherslubreytingu sköpuðust annars konar tengsl en áður milli málfræði annars vegar og sálfræði, líffræði, læknisfræði, mannfræði, heimspeki og jafnvel fleiri greina hins vegar. Rannsóknir á því hvernig börn tileinka sér málið fá til dæmis nýtt málfræðilegt gildi þar sem þær geta varpað ljósi á eðli málkunnáttunnar og sama er að segja um rannsóknir á málstoli (afasíu). Margvíslegar rannsóknir í sálarfræði eða málsálarfræði verða líka mikilvægar fyrir málvísindamenn en ekki bara sálfræðinga því þær geta líka varpað ljósi á eðli málkunnáttunnar. Eins fá margir mannfræðingar, líffræðingar og erfðafræðingar, sem velta fyrir sér þróun mannsins og sérstöðu hans, áhuga á því að kynna sér hugmyndir Chomskys um málið sem séreinkenni mannsins.

Þessi þáttur í málfræðibyltingu Chomskys var kannski ekki mjög miðlægur í Syntactic Structures en varð meira áberandi á sjöunda áratug síðustu aldar og hann er í raun ennþá mikilvægari en sá formlegi þáttur sem áður var lýst. Í fyrstu lagði Chomsky megináherslu á aðgreininguna milli málkunnáttu (e. competence) annars vegar og málbeitingar (e. performance) hins vegar (sjá til dæmis Aspects of the Theory of Syntax 1965). Þessi áhersla á málkunnáttuna sem viðfangsefni málfræðinga hefur orðið til þess að nú er orðið málkunnáttufræði oft notað um þessa tegund málfræði.

Síðar skerpti Chomsky á þessari áherslu á málkunnáttuna sem viðfangsefni í bókinni Knowledge of Language - Its Nature, Origin and Use (1986) með því að skilgreina svokallað innra mál (e. internalized language, I-language) sem meginviðfangsefni málfræðinga, andstætt því sem mætti þá kalla ytra málið (e. externalized language, E-language). Innra málið er þá það mál sem málnotandinn hefur tileinkað sér og býr innra með honum og þetta hugtak er þannig náskylt því sem hér framar var kallað málkunnátta. Verkefni málfræðinga er þá að gera grein fyrir þessu innra máli, hvernig við getum tileinkað okkur það og hvað felst í því að kunna það. Við eigum hins vegar oft við ytra málið þegar við tölum um tungumál en þó ekki alltaf. Þegar við segjum til dæmis „Þetta er ekki til í mínu máli“ eða „Í máli sumra er orðið rigningarskúr karlkyns“ eigum við í raun við þetta innra mál sem hver og einn hefur tileinkað sér og getur verið breytilegt frá einum málnotanda til annars innan ákveðinna marka. En þegar við tölum um verndun íslenskrar tungu eða segjum „Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein“ (Snorri Hjartarson) eigum við ekki við þetta innra mál heldur einhvers konar sameign, málið séð utanfrá, ef svo má segja. Orðið tunga er nefnilega aldrei notað um þetta svokallaða innra mál.

Einn liður í því að átta sig á innra málinu og hvernig við tileinkum okkur það er samkvæmt Chomsky sá að gera sér grein fyrir því hvaða einkenni þess eru lærð (og þar með að einhverju leyti breytileg milli einstaklinga og frá einu máli til annars) og hver byggja á almennum lögmálum um eðli tungumála, það er því sem Chomsky hefur kallað algildismálfræði (e. universal grammar, UG). Eitt mikilvægasta atriðið í kenningum hans hefur nefnilega verið sú hugmynd að öll tungumál séu „eins“ í grundvallaratriðum og „þekkingin“ á því hvað gildir um öll tungumál sé meðfædd (kenningin um innate ideas eða 'meðfæddar hugmyndir'). Þessari þekkingu eða hæfileika má þá til dæmis líkja við þann hæfileika sem fuglar hafa til þess að fljúga. Ef einhverjar skepnur aðrar en maðurinn hefðu þennan hæfileika hlytu þær að nota hann. Að gera ráð fyrir að apar til dæmis geti vel tileinkað sér mál sem væri í eðli sínu hliðstætt mannlegu máli en hafi bara ekki gert það væri í raun svipað því að hugsa sér að á eyju úti í miðju Atlantshafi byggi hópur fugla sem gæti vel flogið en gerði það bara ekki af því að þeim hefði aldrei dottið það í hug, segir Chomsky.

Af hverju er Chomsky öndvegisfyrirlesari Hugvísindasviðs 2011?

Þótt færa megi rök að því, eins og nú hefur verið gert, að Chomsky sé áhrifamesti málfræðingur sem uppi hefur verið, hefði það trúlega ekki dugað til þess að svo fjölbreytt fræðasvið sem Hugvísindasvið Háskóla Íslands hefði valið hann sem öndvegisfyrirlesara á aldarafmæli Háskólans ef annað hefði ekki komið til. Chomsky er nefnilega ekki síður þekktur sem samfélagsrýnir og samfélagsgagnrýnandi, eins og kunnugt er. Hann hefur gefið út fjölda bóka um þau mál, skrifað greinar og haldið fyrirlestra um allan heim, áreiðanlega oftar en um málfræðileg efni. Í þessum skrifum og fyrirlestrum hefur honum orðið tíðrætt um samfélagslega ábyrgð menntamanna, en það efni hefur einmitt verið ofarlega á baugi í íslenskri umræðu undanfarin misseri. Að þessu leyti hefur hann algjöra sérstöðu meðal núlifandi vísindamanna. Það er í raun með sérstökum ólíkindum hvernig honum hefur tekist að vera virkur og áhrifamikill á samfélagslegum og pólitískum vettvangi víða um heim um leið og hann hefur haldið áfram að þróa kenningar sínar um eðli mannlegs máls í áratugi („milli tvö og fimm á fimmtudögum á haustin“ hefur stundum verið sagt og þá er vísað til fræðilegs námskeiðs sem Chomsky kenndi yfirleitt á þessum tíma). Einn liðurinn í því er einstakur hæfileiki hans til þess að afla sér upplýsinga, vinna úr þeim á kerfisbundinn hátt og hafa þær á hraðbergi. Þetta kannast þeir ekki síst við sem hafa heyrt hann flytja fyrirlestra og svara fyrirspurnum um pólitík og samfélagsmál, oft blaðalaust.

Fróðlegar vefsíður:

Gagnlegt yfirlitsrit um hugmyndir Chomskys:

  • The Cambridge Companion to Chomsky, ritstj. James McGilvray, útg. Cambridge University Press, 2005. Þessi bók er óvenjuleg að því leyti að í henni eru yfirlitskaflar yfir öll helstu viðfangsefni Chomskys, allt frá máli og mannshuga til stjórnmála, en ekki bara um afmarkað svið áhugamála hans eins og ýmsar bækur um hann. Hún hefur verið til í Bóksölu stúdenta.

Lesefni um Chomsky á íslensku:
  • Þá má nefna að árið 1973 gaf Hið íslenzka bókmenntafélag út þýðingu Halldórs Halldórssonar á bók Chomskys Language and Mind. Í þýðingu Halldórs heitir hún Mál og mannshugur og hann skrifar líka stuttan inngang að henni.

Myndir:


Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hver er Noam Chomsky og hverjar eru helstu kenningar hans?

Höfundur

Höskuldur Þráinsson

prófessor í íslensku við HÍ

Útgáfudagur

8.9.2011

Síðast uppfært

18.6.2018

Spyrjandi

Halla Gunnarsdóttir

Tilvísun

Höskuldur Þráinsson. „Hver er Noam Chomsky og hvers vegna er hann öndvegisfyrirlesari Hugvísindasviðs?“ Vísindavefurinn, 8. september 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=11804.

Höskuldur Þráinsson. (2011, 8. september). Hver er Noam Chomsky og hvers vegna er hann öndvegisfyrirlesari Hugvísindasviðs? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=11804

Höskuldur Þráinsson. „Hver er Noam Chomsky og hvers vegna er hann öndvegisfyrirlesari Hugvísindasviðs?“ Vísindavefurinn. 8. sep. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=11804>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er Noam Chomsky og hvers vegna er hann öndvegisfyrirlesari Hugvísindasviðs?
Uppruni og menntun

Noam Chomsky fæddist 7. desember 1928 í Fíladelfíu í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Foreldrar hans voru William og Elsie Chomsky. Faðirinn var þekktur fræðimaður í hebreskum fræðum, prófessor við Gratz College í Pennsylvaníu og innflytjandi frá Úkraínu. Móðirin ólst upp í Bandaríkjunum, átti ættir að rekja til Hvíta-Rússlands og kenndi líka hebresk fræði. Þótt móðurmál foreldranna væri jiddíska (vesturgermanskt mál með ívafi úr hebresku, slafneskum málum og fleirum, talað af gyðingum víða um lönd á sínum tíma, ekki síst í Austur-Evrópu) var hún aldrei töluð á heimilinu.

Carol og Noam Chomsky.

Chomsky fékk að ýmsu leyti hefðbundið gyðinglegt uppeldi á bandarískan mælikvarða, lærði hebresku og sótti ýmis námskeið í þeim fræðum á skólaárum sínum. Í þeim barna- og unglingahóp var meðal annars Carol Schatz (1930-2008), tveim árum yngri en Chomsky. Hún hefur sagt svo frá að á fyrstu unglingsárum þeirra hafi Chomsky nú ekki verið aðalsjarmörinn í strákahópnum, frekar lítill fyrir mann að sjá og algjör nörd. Þau kynntust þó smám saman nánar og giftu sig þegar hún var aðeins 19 ára (1949), þá bæði við nám í Pennsylvaníuháskóla. Carol var líka málfræðingur og fékkst einkum við barnamál og kennsluaðferðir tengdar máli og málfræði í skólum. Hún kenndi um langt skeið við menntavísindasvið Harvardháskóla (School of Education) og sagan segir reyndar að hún hafi drifið sig í að ljúka doktorsprófi og sækja um stöðu á sjöunda áratug síðustu aldar þegar þau hjónin óttuðust að Noam kynni að verða settur inn vegna stjórnmálaafskipta sinna. Til þess kom þó aldrei og þrátt fyrir gagnrýni sína á bandarísk stjórnmál og bandarískt eða vestrænt þjóðfélag hefur Chomsky oft vísað til þeirra forréttinda sem flestir í þessum heimshluta hafa þrátt fyrir allt og felast í því að geta látið skoðun sína í ljós án þess að þurfa að óttast um líf sitt eða frelsi.

Chomsky stundaði háskólanám við Pennsylvaníuháskóla og fékkst þar einkum við heimspeki og málvísindi. Meðal kennara hans var málvísindamaðurinn Zellig S. Harris, sem reyndar stofnaði málvísindadeildina þar, en hún er jafnan talin elsta deildin í Bandaríkjunum í almennum málvísindum (stofnuð 1947, sjá www.ling.upenn.edu). Þaðan lauk Chomsky BA-prófi með málvísindi sem aðalgrein 1949 og MA-prófi 1951, en ritgerðir hans til BA- og MA-prófs fjölluðu um hebreska hljóðkerfisfræði. Doktorsprófi í málvísindum lauk hann svo frá Pennsylvaníuháskóla 1955, en hafði þá verið styrkþegi Harvard Society of Fellows frá 1951. Í framhaldi af þessu fékk hann svo starf við Massachusetts Institute of Technology (MIT) í Cambridge og hefur starfað þar síðan, fyrst í hinni sögufrægu Building 20 (sem var hálfgerður bráðabirgðakofi reistur á stríðsárunum) og síðar í hinu nýtískulega Stata Center (sem er eitt af verkum Franks Gehry, arkítekts). Þeir sem þekkja til Chomskys geta væntanlega ímyndað sér í hvorri byggingunni hann hefur kunnað betur við sig.



Building 20 til vinstri og Stata Center til hægri.

Chomsky er nú prófessor emeritus en kemur þó enn að kennslu við MIT. Hann hefur auk þess verið gistiprófessor eða gistifræðimaður við fjölda háskóla og stofnana, er heiðursdoktor frá meira en 20 háskólum og hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna. Þá er þess oft getið að meira sé til hans vitnað en nokkurs annars núlifandi fræðimanns.

Málfræðibylting Chomskys

Segja má að málfræðibylting Chomskys hvíli á tveim meginstoðum, sem þó eiga sér sameiginlegar rætur. Sú fyrri er formleg (eða stærðfræðileg) og aðalþemað í fyrstu bók Chomskys, Syntactic Structures (1957, sjá til dæmis á Wikipedia). Þar lagði hann megináherslu á að lýsa með formlegum hætti þeirri grundvallarstaðreynd að mannlegt mál er skapandi eða sívirkt (e. creative) og ekki bara endanlegt kerfi tákna eða eininga eins og formgerðarstefnumenn lýsa því yfirleitt. Þótt fjöldi grundvallareininga mannlegs máls, til dæmis málhljóða og beygingarendinga, sé endanlegur, eru engin takmörk fyrir því hvernig tungumálið getur nýtt sér þessar einingar.

Í umræðum um þennan eiginleika málsins vísar Chomsky oft til þýska fræðimannsins Wilhelms von Humboldt (1767-1835), en hann lagði einmitt mikla áherslu á þennan eiginleika mannlegs máls og sagði að það væri "eine Erzeugung" fremur en "ein todtes Erzeugtes" eða "eine fertig daliegende Masse" (það er að málið væri virkt og skapandi fremur en einhver tilbúin afurð eða pródúkt, sjá til dæmis umræðu Chomskys um þetta í bókinni Cartesian Linguistics 1966, bls. 19-20). Þetta er kannski mest áberandi í setningagerð tungumála því auðvelt er að sýna fram á að fjöldi setninga í mannlegum málum er óendanlegur þótt þær séu gerðar úr endanlegum fjölda eininga. Eitt aðalviðfangsefni bókar Chomskys Syntactic Structures er að sýna hvernig unnt er að lýsa þessum eiginleikum mannlegs máls með formlegum reglum sem eru endurkvæmar (e. recursive). Það er þetta einkenni á málfræði Chomskys sem liggur að baki því enska heiti sem oftast er notað um hana, það er generative grammar (orðið málmyndunarfræði var tilraun til að þýða þetta á íslensku). Málfræðireglurnar skilgreina á formlegan hátt, eða ala af sér (e. generate), óendanlegan fjölda setninga og gera þannig grein fyrir því megineinkenni mannlegs máls sem hér var lýst, það er sköpunarkrafti þess.

Í áranna rás hafa Chomsky og sporgöngumenn hans prófað ýmsar formlegar aðferðir til að gera grein fyrir þessu einkenni málsins. Hann hefur alltaf litið svo á (líkt og áðurnefndur Wilhelm von Humboldt) að endurkvæmnin (e. recursiveness) sé það sem öðru fremur greinir mannlegt mál frá annars konar táknkerfum (sjá til dæmis grein Chomskys með Hauser og Fitch 2002: The Faculty of Language: What Is It, Who Has It, and How Did It Evolve?) og lagt áherslu á að málfræðin eða málfræðikenningin þurfi að gera grein fyrir þessu. Um leið hefur formlega glíman snúist um það að skilgreina mörk og samspil hinna einstöku þátta málfræðinnar, svo sem hljóðkerfisfræði, beygingafræði, setningafræði og merkingarfræði. Í þessari leit að bestu formlegu framsetningunni hafa Chomsky og aðrir nýtt sér ýmis hugtök, aðferðir og framsetningu úr stærðfræði og rökfræði. Þetta hefur leitt til þess að kjarni málsins hefur oft dulist fyrir þeim sem ekki treysta sér til að setja sig inn í síbreytilegar formlegar aðferðir til að gera grein fyrir honum þótt kjarninn sjálfur hafi í raun haldist að mestu óbreyttur í áratugi.



Noam Chomsky er einn áhrifamesti málfræðingur sem uppi hefur verið.

Hin meginstoðin undir málfræðibyltingu Chomskys er sú áherslubreyting sem hann innleiddi í málfræðinni. Samkvæmt henni er viðfangsefni málfræðinga fyrst og fremst að gera grein fyrir því hvað felst í því að kunna mál, það er lýsa sjálfri málkunnáttunni (e. competence). Þar telur hann sig meðal annars byggja á hugmyndum franska heimspekingsins René Descartes (1596-1650), samanber heiti bókarinnar Cartesian Linguistics (Chomsky 1966), en Descartes lagði meðal annars mikla áherslu á sérstöðu mannlegs máls andspænis þeim takmörkuðu og afmörkuðu táknum og táknkerfum sem ýmis dýr hafa yfir að ráða.

Með þessari áherslubreytingu sköpuðust annars konar tengsl en áður milli málfræði annars vegar og sálfræði, líffræði, læknisfræði, mannfræði, heimspeki og jafnvel fleiri greina hins vegar. Rannsóknir á því hvernig börn tileinka sér málið fá til dæmis nýtt málfræðilegt gildi þar sem þær geta varpað ljósi á eðli málkunnáttunnar og sama er að segja um rannsóknir á málstoli (afasíu). Margvíslegar rannsóknir í sálarfræði eða málsálarfræði verða líka mikilvægar fyrir málvísindamenn en ekki bara sálfræðinga því þær geta líka varpað ljósi á eðli málkunnáttunnar. Eins fá margir mannfræðingar, líffræðingar og erfðafræðingar, sem velta fyrir sér þróun mannsins og sérstöðu hans, áhuga á því að kynna sér hugmyndir Chomskys um málið sem séreinkenni mannsins.

Þessi þáttur í málfræðibyltingu Chomskys var kannski ekki mjög miðlægur í Syntactic Structures en varð meira áberandi á sjöunda áratug síðustu aldar og hann er í raun ennþá mikilvægari en sá formlegi þáttur sem áður var lýst. Í fyrstu lagði Chomsky megináherslu á aðgreininguna milli málkunnáttu (e. competence) annars vegar og málbeitingar (e. performance) hins vegar (sjá til dæmis Aspects of the Theory of Syntax 1965). Þessi áhersla á málkunnáttuna sem viðfangsefni málfræðinga hefur orðið til þess að nú er orðið málkunnáttufræði oft notað um þessa tegund málfræði.

Síðar skerpti Chomsky á þessari áherslu á málkunnáttuna sem viðfangsefni í bókinni Knowledge of Language - Its Nature, Origin and Use (1986) með því að skilgreina svokallað innra mál (e. internalized language, I-language) sem meginviðfangsefni málfræðinga, andstætt því sem mætti þá kalla ytra málið (e. externalized language, E-language). Innra málið er þá það mál sem málnotandinn hefur tileinkað sér og býr innra með honum og þetta hugtak er þannig náskylt því sem hér framar var kallað málkunnátta. Verkefni málfræðinga er þá að gera grein fyrir þessu innra máli, hvernig við getum tileinkað okkur það og hvað felst í því að kunna það. Við eigum hins vegar oft við ytra málið þegar við tölum um tungumál en þó ekki alltaf. Þegar við segjum til dæmis „Þetta er ekki til í mínu máli“ eða „Í máli sumra er orðið rigningarskúr karlkyns“ eigum við í raun við þetta innra mál sem hver og einn hefur tileinkað sér og getur verið breytilegt frá einum málnotanda til annars innan ákveðinna marka. En þegar við tölum um verndun íslenskrar tungu eða segjum „Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein“ (Snorri Hjartarson) eigum við ekki við þetta innra mál heldur einhvers konar sameign, málið séð utanfrá, ef svo má segja. Orðið tunga er nefnilega aldrei notað um þetta svokallaða innra mál.

Einn liður í því að átta sig á innra málinu og hvernig við tileinkum okkur það er samkvæmt Chomsky sá að gera sér grein fyrir því hvaða einkenni þess eru lærð (og þar með að einhverju leyti breytileg milli einstaklinga og frá einu máli til annars) og hver byggja á almennum lögmálum um eðli tungumála, það er því sem Chomsky hefur kallað algildismálfræði (e. universal grammar, UG). Eitt mikilvægasta atriðið í kenningum hans hefur nefnilega verið sú hugmynd að öll tungumál séu „eins“ í grundvallaratriðum og „þekkingin“ á því hvað gildir um öll tungumál sé meðfædd (kenningin um innate ideas eða 'meðfæddar hugmyndir'). Þessari þekkingu eða hæfileika má þá til dæmis líkja við þann hæfileika sem fuglar hafa til þess að fljúga. Ef einhverjar skepnur aðrar en maðurinn hefðu þennan hæfileika hlytu þær að nota hann. Að gera ráð fyrir að apar til dæmis geti vel tileinkað sér mál sem væri í eðli sínu hliðstætt mannlegu máli en hafi bara ekki gert það væri í raun svipað því að hugsa sér að á eyju úti í miðju Atlantshafi byggi hópur fugla sem gæti vel flogið en gerði það bara ekki af því að þeim hefði aldrei dottið það í hug, segir Chomsky.

Af hverju er Chomsky öndvegisfyrirlesari Hugvísindasviðs 2011?

Þótt færa megi rök að því, eins og nú hefur verið gert, að Chomsky sé áhrifamesti málfræðingur sem uppi hefur verið, hefði það trúlega ekki dugað til þess að svo fjölbreytt fræðasvið sem Hugvísindasvið Háskóla Íslands hefði valið hann sem öndvegisfyrirlesara á aldarafmæli Háskólans ef annað hefði ekki komið til. Chomsky er nefnilega ekki síður þekktur sem samfélagsrýnir og samfélagsgagnrýnandi, eins og kunnugt er. Hann hefur gefið út fjölda bóka um þau mál, skrifað greinar og haldið fyrirlestra um allan heim, áreiðanlega oftar en um málfræðileg efni. Í þessum skrifum og fyrirlestrum hefur honum orðið tíðrætt um samfélagslega ábyrgð menntamanna, en það efni hefur einmitt verið ofarlega á baugi í íslenskri umræðu undanfarin misseri. Að þessu leyti hefur hann algjöra sérstöðu meðal núlifandi vísindamanna. Það er í raun með sérstökum ólíkindum hvernig honum hefur tekist að vera virkur og áhrifamikill á samfélagslegum og pólitískum vettvangi víða um heim um leið og hann hefur haldið áfram að þróa kenningar sínar um eðli mannlegs máls í áratugi („milli tvö og fimm á fimmtudögum á haustin“ hefur stundum verið sagt og þá er vísað til fræðilegs námskeiðs sem Chomsky kenndi yfirleitt á þessum tíma). Einn liðurinn í því er einstakur hæfileiki hans til þess að afla sér upplýsinga, vinna úr þeim á kerfisbundinn hátt og hafa þær á hraðbergi. Þetta kannast þeir ekki síst við sem hafa heyrt hann flytja fyrirlestra og svara fyrirspurnum um pólitík og samfélagsmál, oft blaðalaust.

Fróðlegar vefsíður:

Gagnlegt yfirlitsrit um hugmyndir Chomskys:

  • The Cambridge Companion to Chomsky, ritstj. James McGilvray, útg. Cambridge University Press, 2005. Þessi bók er óvenjuleg að því leyti að í henni eru yfirlitskaflar yfir öll helstu viðfangsefni Chomskys, allt frá máli og mannshuga til stjórnmála, en ekki bara um afmarkað svið áhugamála hans eins og ýmsar bækur um hann. Hún hefur verið til í Bóksölu stúdenta.

Lesefni um Chomsky á íslensku:
  • Þá má nefna að árið 1973 gaf Hið íslenzka bókmenntafélag út þýðingu Halldórs Halldórssonar á bók Chomskys Language and Mind. Í þýðingu Halldórs heitir hún Mál og mannshugur og hann skrifar líka stuttan inngang að henni.

Myndir:


Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hver er Noam Chomsky og hverjar eru helstu kenningar hans?
...