Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað eru ristilpokar?

Þórdís Kristinsdóttir

Ristilpokar (e. diverticulosis) eru litlir vasar, oft um 5-10 mm, sem myndast innan á ristilvegg. Oftast eru þessir pokar einkennalausir og margir sem eru með slíka poka vita ekki af því. Ristilpokar uppgötvast helst fyrir tilviljun nema ef í þá kemur sýking eða það fer að blæða úr þeim, en í alvarlegustu tilfellum geta þessir fylgikvillarnir verið banvænir. Ristilpokar eru sjaldgæfir hjá fólki innan við fertugt. Tíðnin eykst með aldri þannig að um 30% fólks á aldrinum 45 ára er með ristilpoka og um 80% fólks eftir áttrætt. Um 90% ristilpoka myndast í bugaristli (e. colon sigmoideum) sem liggur í sveigju og er sá hluti ristils sem næstur er endaþarmi, en þrýstingur þar er oft meiri en á öðrum stöðum ristils.

Talið er að ristilpokar myndist þegar hár þrýstingur á afmörkuðu svæði í ristli veldur því að veggurinn þar verður veikbyggðari sem leiðir til þess að innra lag ristilveggjar bungar út í gegnum ytra vöðvalagið. Ástæða fyrir auknum þrýstingi getur til dæmis verið hægðatregða eða ristilkrampar, en algengt er að pokar myndist þar sem æðar ganga inn í ristilvegginn því þar er hann veikari fyrir.

Ristilpokar eru algengari í vestrænum ríkjum en annars staðar í heiminum og er talið að helst megi rekja það til mataræðis. Áhættuþættir fyrir myndun ristilpoka eru trefjalítil og fiturík fæða, hreyfingarleysi, reykingar, hægðatregða og langvarandi notkun bólgueyðandi lyfja (NSAID-lyf).

Oftast eru ristilpokar einkennalausir en einstaklingar finna stundum fyrir hægðatregðu, vindgangi, uppþembu og krampa. Erfitt getur þó verið að greina hvort þessi einkenni megi rekja til ristilpoka eingöngu eða hvort aðrir meltingarkvillar eigi þar hlut að máli. Meðferð einkennalausra ristilpoka og helsta forvörn er aukin hreyfing og trefjaríkt matarræði. Hægt er að gera valaðgerð sem felur í sér að hluti ristilsins er fjarlægður en það eru mikið inngrip sem ekki eru gerð nema af brýnni nauðsyn, til dæmis ef ristilpokar valda miklum þrengingum, tíðum verkjaköstum eða ef aukin hætta er á fylgikvillum.

Ristilpokar geta valdið miklum verkjum og fylgikvillar sjúkdómsins geta jafnvel reynst banvænir í alvarlegustu tilfellum. Í um 10-25% tilvika stíflast ristilpoki, til dæmis vegna slíms eða hægða, sem veldur staðbundinni bólgu og kallast það ristilpokabólga (e. diverticulitis). Einkenni sem þá koma fram eru miklir verkir neðarlega í vinstri hluta kviðar, hægðabreytingar og -óregla, hiti og stundum einkenni frá þvagfærum. Í þessum tilvikum getur þurft að leggja fólk inn á spítala og meðferð felst í sýklalyfjagjöf og eftirliti. Um fjórðungur einstaklinga svarar ekki sýklalyfjameðferð og getur það verið vegna þess að gröftur safnast í pokanum og myndar graftarkýli sem getur þurft að tappa af í aðgerð. Í einstaka tilfellum getur orðið rof á graftakýli og verður þá loft- og hægðaleki sem veldur dreifðri lífhimnubólgu (e. peritonitis) en það er lífshættulegt ástand sem krefst skurðaðgerðar. Einnig getur ristilpokabólga valdið þrengingum í ristli og hægðatregðu, auk þess sem tenging (e. fistula) getur myndast við önnur hollífæri, oftast þvagblöðru eða leggöng, og kallar það á skurðaðgerð.

Mynd:

Höfundur

nemi í læknisfræði við HÍ

Útgáfudagur

16.10.2013

Spyrjandi

Gunnhildur Ólafsdóttir, Brynhildur Magnúsdóttir

Tilvísun

Þórdís Kristinsdóttir. „Hvað eru ristilpokar?“ Vísindavefurinn, 16. október 2013, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=11566.

Þórdís Kristinsdóttir. (2013, 16. október). Hvað eru ristilpokar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=11566

Þórdís Kristinsdóttir. „Hvað eru ristilpokar?“ Vísindavefurinn. 16. okt. 2013. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=11566>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað eru ristilpokar?
Ristilpokar (e. diverticulosis) eru litlir vasar, oft um 5-10 mm, sem myndast innan á ristilvegg. Oftast eru þessir pokar einkennalausir og margir sem eru með slíka poka vita ekki af því. Ristilpokar uppgötvast helst fyrir tilviljun nema ef í þá kemur sýking eða það fer að blæða úr þeim, en í alvarlegustu tilfellum geta þessir fylgikvillarnir verið banvænir. Ristilpokar eru sjaldgæfir hjá fólki innan við fertugt. Tíðnin eykst með aldri þannig að um 30% fólks á aldrinum 45 ára er með ristilpoka og um 80% fólks eftir áttrætt. Um 90% ristilpoka myndast í bugaristli (e. colon sigmoideum) sem liggur í sveigju og er sá hluti ristils sem næstur er endaþarmi, en þrýstingur þar er oft meiri en á öðrum stöðum ristils.

Talið er að ristilpokar myndist þegar hár þrýstingur á afmörkuðu svæði í ristli veldur því að veggurinn þar verður veikbyggðari sem leiðir til þess að innra lag ristilveggjar bungar út í gegnum ytra vöðvalagið. Ástæða fyrir auknum þrýstingi getur til dæmis verið hægðatregða eða ristilkrampar, en algengt er að pokar myndist þar sem æðar ganga inn í ristilvegginn því þar er hann veikari fyrir.

Ristilpokar eru algengari í vestrænum ríkjum en annars staðar í heiminum og er talið að helst megi rekja það til mataræðis. Áhættuþættir fyrir myndun ristilpoka eru trefjalítil og fiturík fæða, hreyfingarleysi, reykingar, hægðatregða og langvarandi notkun bólgueyðandi lyfja (NSAID-lyf).

Oftast eru ristilpokar einkennalausir en einstaklingar finna stundum fyrir hægðatregðu, vindgangi, uppþembu og krampa. Erfitt getur þó verið að greina hvort þessi einkenni megi rekja til ristilpoka eingöngu eða hvort aðrir meltingarkvillar eigi þar hlut að máli. Meðferð einkennalausra ristilpoka og helsta forvörn er aukin hreyfing og trefjaríkt matarræði. Hægt er að gera valaðgerð sem felur í sér að hluti ristilsins er fjarlægður en það eru mikið inngrip sem ekki eru gerð nema af brýnni nauðsyn, til dæmis ef ristilpokar valda miklum þrengingum, tíðum verkjaköstum eða ef aukin hætta er á fylgikvillum.

Ristilpokar geta valdið miklum verkjum og fylgikvillar sjúkdómsins geta jafnvel reynst banvænir í alvarlegustu tilfellum. Í um 10-25% tilvika stíflast ristilpoki, til dæmis vegna slíms eða hægða, sem veldur staðbundinni bólgu og kallast það ristilpokabólga (e. diverticulitis). Einkenni sem þá koma fram eru miklir verkir neðarlega í vinstri hluta kviðar, hægðabreytingar og -óregla, hiti og stundum einkenni frá þvagfærum. Í þessum tilvikum getur þurft að leggja fólk inn á spítala og meðferð felst í sýklalyfjagjöf og eftirliti. Um fjórðungur einstaklinga svarar ekki sýklalyfjameðferð og getur það verið vegna þess að gröftur safnast í pokanum og myndar graftarkýli sem getur þurft að tappa af í aðgerð. Í einstaka tilfellum getur orðið rof á graftakýli og verður þá loft- og hægðaleki sem veldur dreifðri lífhimnubólgu (e. peritonitis) en það er lífshættulegt ástand sem krefst skurðaðgerðar. Einnig getur ristilpokabólga valdið þrengingum í ristli og hægðatregðu, auk þess sem tenging (e. fistula) getur myndast við önnur hollífæri, oftast þvagblöðru eða leggöng, og kallar það á skurðaðgerð.

Mynd:

...