Dao 道
Grundvallarhugtak daoisma er dao 道(eldri umritun tao) sem hefur ýmsar merkingar, svo sem leið, vegur, að ryðja leið, mál, orðræða og stefna. Aðrir kínverskir heimspekiskólar, til dæmis konfúsíanismi, notuðu dao öðru fremur í merkingunni yfirlýst leið eða stefna tiltekins heimspekiskóla. Í daoisma fær dao hins vegar nýja og raunar heimsfræðilega merkingu. Þar merkir það þá leið sem veröldin fylgir, leið hlutanna í rás sinni, taktinn í alheiminum eða það mynstur sem markar allar hinar stöðugu breytingar sem eiga sér stað. Þannig er nærtækast að skilja dao sem „heimsferli“ líkt og Ragnar gerir í þýðingu sinni Ferlið og dygðin. Varast ber að hlutgera dao; það er ekki neitt sem slíkt, heldur táknar sjálft breytingaferli alls sem hrærist í stöðugri verðandi. Það er ekki afl eða kraftur, hvað þá guðleg vera, heldur það ferli sem markar rás alls sem er. Eins og segir í Ferlinu og dygðinni (kafla 40) felst hreyfing dao í „andhverfu“, það er að segja þegar tiltekið ferli hefur náð vissum öfgum tekur það að snúast til baka í andstæðu sína. Þessi andhverfa er táknuð með yin og yang 陰陽, hugtakapari andstæðna sem gera meðal annars kleift að staðsetja hlutinn í ferlinu með því að marka ramma eða útmörk þess. Sem dæmi má nefna myrkur (yin) og birtu (yang). Um bæði gildir að um leið og þau ná hámarki sínu taka þau að víkja fyrir hinu. Myrkrið er aldrei svartara en rétt fyrir sólarupprás. Mynstur náttúruferlanna eins og hér er tekið dæmi um er grundvallarviðmið daoisma, enda er markmið hans að finna jafnvægi og samhljóm með náttúrunni og reglubundnu flæði þess.
Yin og yang er hugtakapar andstæðna sem gera meðal annars kleift að staðsetja hlutinn í ferlinu með því að marka ramma eða útmörk þess.
Kostir hins smáa og mjúka
Eins og segir að ofan var nálgun daoista nokkuð frábrugðin öðrum skólum. Á tíma blóðugra átaka, stríða og hetjudýrkunar mæltu daoistar fyrir róttækri umturnun gilda í þágu lífsins. Í stað þess að hampa hinu stóra, sterka, harða og karlmannlega (yang) töldu þeir upp kosti hins smáa, veika, mjúka og kvenlega (yin).- Sveigjanleiki og máttleysi sigrast á stífni og hörku. (36)
- Lifandi eru menn mjúkir og veikburða en stífir og stæltir við dauða. (76)
- Í heiminum er ekkert jafn mjúkt og veikburða og vatn. Ekkert er samt sigurstranglegra gegn hörku og styrk, enda fær því ekkert haggað. Hið veikburða sigrar hið sterka; mýktin sigrar hörkuna. (78)
- Kvenleikinn ber einatt sigur af karlmennsku. Í rósemd lýtur hann lágt. (61)
- Tóm og tilvistarleysi öxulgatsins gerir hjólinu kleift að snúast og tilvistarleysi rýmisins í húsi gerir það að nothæfi híbýli (11).
Dao sem trúarhreyfing
Trúarlegar hliðar daoisma virðast fyrst hafa mótast meðal hópa fólks sem flúðu átökin í fornöld og tileinkaði sér annars konar og uppbyggilegri lífshætti í faðmi náttúrunnar. Það er þó ekki fyrr en á 2. öld e.Kr. sem fyrsta daoíska trúarhreyfingin, „leið himnameistaranna“ (tianshi dao 天師道) verður til. Skilin á milli trúarlegs og heimspekilegs daoisma eru ekki skýr en til einföldunar mætti segja að heimspekilegur daoismi (oftast kenndur við daojia 道家) snúist um ritrýni fornritanna og vangaveltur um hugmyndir þeirra meðan trúarlegur daoismi (oftast kenndur við daojiao 道教) leggur sérstaka áherslu á ástundun ýmissa leiða til að bæta og lengja lífið. Þar er einkum um tvær leiðir að ræða, svokallaða „innri alkemíu“ (neidan 内丹) og „ytri alkemíu“ (waidan 外丹). Hin fyrri felst í ýmsum líkamlegum og andlegum æfingum á borð við qigong og taijiquan en hin síðari í inntöku efna og elixíra en markmiðið er í báðum tilvikum hið sama: að koma á jafnvægi og innra samræmi sem stuðlar að lengra og betra lífi. Talið er að ástundun „ytri alkemíu“ hafi í gegnum aldirnar falist í víðtækri tilraunastarfsemi sem leiddi til uppgötvana á ýmsum náttúrulyfjum og jafnvel byssupúðri. Trúarlegur daoismi blandast með ýmsum margbrotnum hætti saman við kínverska alþýðutrú og jafnvel búddisma. Trúarlegur daoismi átti mjög undir högg að sækja á tíma maoismans í Kína en sækir nú mjög í sig veðrið. Tvær meginstefnur eru starfandi í Kína í dag, klausturreglan Quanzhen („alger fullkomnun“) og Zhengyi („leið hinnar réttu einingar“) reglan sem er afkomandi himnameistaranna, en jafnframt er daoismi útbreiddur í Tævan, Hong Kong og að einhverju leyti í Suðaustur-Asíu, auk þess sem hann hefur blandast saman við aðra strauma í Japan og Kóreu í gegnum tíðina. Frekara lesefni:- Geir Sigurðsson. „Á meðal hinna tíu þúsund hluta. Tang Junyi og sérkenni kínverskrar heimsfræði.“ Hugur. Tímarit um heimspeki (15/2003), s. 52-65.
- Geir Sigurðsson. „Jafngildir heimar. Um náttúrusýn í daoisma.“ Ritið 10. árgangur (3/2010), s. 117-129.
- Geir Sigurðsson. „Skapandi sjálfsgleymi: Um daoisma og tómhyggju.“ Hugur. Tímarit um heimspeki (25/2013), s. 39-55.
- Laozi. Ferlið og dygðin. Þýð. Ragnar Baldursson. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2010.
- Komjathy, Louis. The Daoist Tradition. An Introduction. London: Bloomsbury, 2013.
- Moeller, Hans-Georg. Daoism Explained. From the Dream of the Butterfly to the Fishnet Allegory. Chicago og La Salle: Open Court, 2004.
- Kohn, Livia (ritstj.). Daoist Handbook. Leiden, Boston og Köln: Brill, 2000.
- Zhuangzi. The Essential Writings. Þýð. Brook Ziporyn. Indianapolis og Cambridge: Hackett, 2009.
- DaoTao.png - Wikimedia Commons. (Sótt 14.05.2014)
- Ying yang sign.jpg - Wikimedia Commons.(Sótt 14.05.2014).