Margar tilgátur hafa þó verið settar fram og prófaðar en ekki staðfestar. Því hefur til dæmis verið haldið fram að karlkyns sæðisfrumur séu fljótari en kvenkyns frumurnar og séu því líklegri til að ná fyrst markmiði sínu, egginu. Á móti kemur þá að kvenkyns sæðisfrumur lifa lengur, þær hafa því lengri tíma til að finna eggið og frjóvga það. Nokkrar rannsóknir hafa bent til þess að fleiri egg séu frjóvguð með frumum sem innihalda kvenkynslitninga en karlkynslitninga. Hins vegar séu fósturlát á fyrsta þriðjungi meðgöngu algengari hjá kvenkyns en karlkyns fóstrum. Um þetta eru þó einnig skiptar skoðanir. Rannsakað hefur verið ítarlega hvort ákveðnar konur séu líklegri til að fæða drengi en stúlkur í endurteknum meðgöngum. Þó að sú saga sé lífseig virðist hún ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum. Þá hefur ekki fundist fylgni við félagslegar eða fjárhagslegar kringumstæður foreldra né við aldur móður. Svo virðist einnig sem nokkrar en óverulegar sveiflur milli ára séu á kynjahlutfallinu. Þessar sveiflur eru þó varla marktækar. Enn fremur hefur ekki fundist munur á kynjahlutfalli eftir árstíðum. Það virðist því með öðrum orðum vera einföld grundvallarstaðreynd að fleiri strákar en stelpur fæðist. Líffræðilegar eða lífeðlisfræðilegar orsakir þess eru enn óljósar og hugsanlegt, að ýmsir þættir spili inn í. Margir aðilar hafa í gegnum aldirnar reynt að spá fyrir um kyn ófædds barns með lélegum árangri. Ýmsum brögðum hefur verið beitt. Snjallastur var ef til vill Frakkinn sem spáði gegn greiðslu fyrir um kyn ófædds barns með einfaldri handayfirlagningu. Í um helmingi tilfella hafði hann rétt fyrir sér! Þegar foreldrar gerðu athugasemd við ranga niðurstöðu var þeim boðin endurgreiðsla. Eins og fram hefur komið eru strákar algengari en stelpur. Í þjóðfélaginu er strákum hins vegar hættara við slysum og áföllum á unga aldri. Konur eru jafnframt langlífari en karlar. Því er það í mörgum þjóðfélögum svo, þó að nýfæddir strákar séu fleiri en stelpurnar, að konur eru jafnmargar og karlarnir eða jafnvel fleiri. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvernig hefur fæðingartíðni breyst gegnum árin? eftir Stefán Hrafn Jónsson
- Hvað eru strákar mörg prósent af heiminum og hvað eru stelpur mörg prósent? eftir EDS
- Hvort eru fleiri fullorðnir eða börn í Afríku? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Hvað eru mörg börn í heiminum? eftir EDS
- Hvað eru til margir menn og konur í heiminum? eftir JGÞ og EDS
- Wikipedia.com. Sótt 10.12.2010.