Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er hugsanlegt að nota HIV-veiruna sem genaferju til að breyta erfðaefni sjúklinga með arfgenga sjúkdóma?

Helga Bjarnadóttir og Jón Jóhannes Jónsson

Rannsóknir hafa verið í gangi og tilraunir gerðar með að nota veirur, þar á meðal HIV-veiruna, sem 'genaferjur' -- það er láta þær smita gallaðar frumur með erfðaefni sem bætir þær. Vænta má verulegs læknisfræðilegs árangurs af þessum rannsóknum fyrr eða síðar, en langt er í land að aðferðum sem þessum verði almennt beitt.


Genalækningar er það kallað þegar reynt er að flytja starfhæf gen inn í frumur sjúklings til að lækna eða líkna. Tilraunir með genalækningar eru oftast gerðar með erfðabreyttum veirum. Veirur eru margvíslegar að byggingu og eiginleikum. Allar eiga þær þó það sameiginlegt að erfðaefni veirunnar fer inn frumuna sem sýkist. Þar myndast nýjar veirur eftir forskrift frá erfðaefni veirunnar en með hjálp sýktu frumunnar. Mismunandi er hvað frumur verða fyrir miklum skaða þegar þær sýkjast af veirum. Stundum eru engar sjáanlegar neikvæðar afleiðingar af sýkingu en í öðrum tilvikum deyja sýktar frumur.

HIV-veiran tilheyrir retróveirum en sú ætt veira hefur verið mikið rannsökuð. Þegar retróveira sýkir frumu innlimar litningur sýktu frumunnar erfðaefni veirunnar. Innlimað erfðaefni veirunnar verður eftir það varanlegur hluti af erfðaefni frumunnar. Þessi eiginleiki retróveira gerir þær mjög ákjósanlegar sem genaferjur því að jafnan er verið að leita eftir að áhrif meðferðar vari sem lengst. Innlimun erfðaefnis í litning ásamt því að sumar retró-veirur geta sýkt frumur án skaðlegra áhrifa leiddu til þess að reynt hefur verið að þróa genaferjur sem byggjast á erfðabreyttum retróveirum. Markmiðið er að retrógenaferjur geti sýkt frumur og innlimast í litning þeirra. Einnig að búið sé að fjarlægja úr retró-veirunum þau gen sem nauðsynleg eru fyrir fjölgun veiranna sem og þau gen sem valda bólgusvörun eða öðrum skaða í frumum. Tekist hefur að búa til retróveirur með þessum eiginleikum og slíkar genaferjur er algengasta tegund genaferja sem notaðar eru í tilraunum til genalækninga á mönnum.

Genaferjur byggðar á retróveirum hafa ýmsar takmarkanir. Þær helstu eru að ferjurnar geta eingöngu flutt tiltölulega lítil gen og erfiðlega hefur gengið að fá færslugenið til að starfa rétt eftir genaflutning. Venjulegar retró-veirur geta ekki heldur sýkt allar frumur með skilvirkum hætti. Sérstaklega bagalegt er að þær geta ekki sýkt frumur án þess að frumurnar séu jafnframt að fjölga sér með frumuskiptingu. Flestar frumur líkamans eru hins vegar ekki að fjölga sér, meðal annars margar tegundir frumna sem væru ákjósanlegar markfrumur genalækninga. Má þar nefna lifrarfrumur, taugafrumur og vöðvafrumur.

Ein ættkvísl af retróveirum er svokallaðar lentiveirur. Forskeytið lenti- þýðir hægur og höfðar til þess að slíkar veirur valda hæggengum sjúkdómum sem leiða með tíð og tíma til alvarlegra veikinda og oft dauða sýkts einstaklings. Fyrsta lenti-veiran sem fannst í heiminum var mæði-visnu-veiran sem veldur samnefndum sjúkdómum í sauðfé. Þá merku uppgötvun gerði dr. Björn Sigurðsson, fyrsti forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, og með þeirri uppgötvun risu íslensk vísindi hvað hæst á alþjóðavísu. HIV-veiran er einnig lenti-veira og hún veldur eyðni sem er langvarandi, lífshættulegur sjúkdómur í mönnum. HIV-sýking veldur skaða í ýmsum frumum en mest áberandi er bilun á ónæmiskerfi sem leiðir til illvígra sýkinga.

Lentiveirur, þar með talin HIV-veiran, geta sýkt og innlimast í litninga frumna sem eru ekki að skipta sér. Því væri mjög eftirsóknarvert að þróa genaferjur byggðar á lenti-veirum og mikil rannsóknavinna hefur verið í gangi á því sviði undanfarin ár, sérstaklega með HIV. Hér á Íslandi eru vísindamenn við lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeildar H.Í. í samvinnu við starfsfélaga á Keldum að smíða genaferju sem byggist á mæði-visnu-veiru.

Lentiveirur er töluvert flóknari í byggingu en aðrar retróveirur. Erfiðlega hefur gengið að útbúa skilvirkar lentigenaferjur sem hefur verið erfðabreytt svo tryggilega að þær valdi ekki skaða eða sjúkdómi við notkun. Mikilsverður árangur í tilraunum með genaflutninga í frumurækt og í tilraunadýrum hefur náðst með genaferjur byggðar á HIV. Hugsanleg hætta á alvarlegum sýkingum og aukaverkunum hefur þó hindrað tilraunir með slíkar genaferjur á mönnum enn sem komið er.

Eins konar framhald á þessum texta er að finna í svari okkar við spurningunni Er hægt að beita genalækningum við sjúkdóminn DMD?

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Höfundar

dósent við Læknadeild HÍ

Útgáfudagur

17.7.2000

Spyrjandi

Margrét Dís Óskarsdóttir, 18 ára

Tilvísun

Helga Bjarnadóttir og Jón Jóhannes Jónsson. „Er hugsanlegt að nota HIV-veiruna sem genaferju til að breyta erfðaefni sjúklinga með arfgenga sjúkdóma?“ Vísindavefurinn, 17. júlí 2000, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=656.

Helga Bjarnadóttir og Jón Jóhannes Jónsson. (2000, 17. júlí). Er hugsanlegt að nota HIV-veiruna sem genaferju til að breyta erfðaefni sjúklinga með arfgenga sjúkdóma? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=656

Helga Bjarnadóttir og Jón Jóhannes Jónsson. „Er hugsanlegt að nota HIV-veiruna sem genaferju til að breyta erfðaefni sjúklinga með arfgenga sjúkdóma?“ Vísindavefurinn. 17. júl. 2000. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=656>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er hugsanlegt að nota HIV-veiruna sem genaferju til að breyta erfðaefni sjúklinga með arfgenga sjúkdóma?
Rannsóknir hafa verið í gangi og tilraunir gerðar með að nota veirur, þar á meðal HIV-veiruna, sem 'genaferjur' -- það er láta þær smita gallaðar frumur með erfðaefni sem bætir þær. Vænta má verulegs læknisfræðilegs árangurs af þessum rannsóknum fyrr eða síðar, en langt er í land að aðferðum sem þessum verði almennt beitt.


Genalækningar er það kallað þegar reynt er að flytja starfhæf gen inn í frumur sjúklings til að lækna eða líkna. Tilraunir með genalækningar eru oftast gerðar með erfðabreyttum veirum. Veirur eru margvíslegar að byggingu og eiginleikum. Allar eiga þær þó það sameiginlegt að erfðaefni veirunnar fer inn frumuna sem sýkist. Þar myndast nýjar veirur eftir forskrift frá erfðaefni veirunnar en með hjálp sýktu frumunnar. Mismunandi er hvað frumur verða fyrir miklum skaða þegar þær sýkjast af veirum. Stundum eru engar sjáanlegar neikvæðar afleiðingar af sýkingu en í öðrum tilvikum deyja sýktar frumur.

HIV-veiran tilheyrir retróveirum en sú ætt veira hefur verið mikið rannsökuð. Þegar retróveira sýkir frumu innlimar litningur sýktu frumunnar erfðaefni veirunnar. Innlimað erfðaefni veirunnar verður eftir það varanlegur hluti af erfðaefni frumunnar. Þessi eiginleiki retróveira gerir þær mjög ákjósanlegar sem genaferjur því að jafnan er verið að leita eftir að áhrif meðferðar vari sem lengst. Innlimun erfðaefnis í litning ásamt því að sumar retró-veirur geta sýkt frumur án skaðlegra áhrifa leiddu til þess að reynt hefur verið að þróa genaferjur sem byggjast á erfðabreyttum retróveirum. Markmiðið er að retrógenaferjur geti sýkt frumur og innlimast í litning þeirra. Einnig að búið sé að fjarlægja úr retró-veirunum þau gen sem nauðsynleg eru fyrir fjölgun veiranna sem og þau gen sem valda bólgusvörun eða öðrum skaða í frumum. Tekist hefur að búa til retróveirur með þessum eiginleikum og slíkar genaferjur er algengasta tegund genaferja sem notaðar eru í tilraunum til genalækninga á mönnum.

Genaferjur byggðar á retróveirum hafa ýmsar takmarkanir. Þær helstu eru að ferjurnar geta eingöngu flutt tiltölulega lítil gen og erfiðlega hefur gengið að fá færslugenið til að starfa rétt eftir genaflutning. Venjulegar retró-veirur geta ekki heldur sýkt allar frumur með skilvirkum hætti. Sérstaklega bagalegt er að þær geta ekki sýkt frumur án þess að frumurnar séu jafnframt að fjölga sér með frumuskiptingu. Flestar frumur líkamans eru hins vegar ekki að fjölga sér, meðal annars margar tegundir frumna sem væru ákjósanlegar markfrumur genalækninga. Má þar nefna lifrarfrumur, taugafrumur og vöðvafrumur.

Ein ættkvísl af retróveirum er svokallaðar lentiveirur. Forskeytið lenti- þýðir hægur og höfðar til þess að slíkar veirur valda hæggengum sjúkdómum sem leiða með tíð og tíma til alvarlegra veikinda og oft dauða sýkts einstaklings. Fyrsta lenti-veiran sem fannst í heiminum var mæði-visnu-veiran sem veldur samnefndum sjúkdómum í sauðfé. Þá merku uppgötvun gerði dr. Björn Sigurðsson, fyrsti forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, og með þeirri uppgötvun risu íslensk vísindi hvað hæst á alþjóðavísu. HIV-veiran er einnig lenti-veira og hún veldur eyðni sem er langvarandi, lífshættulegur sjúkdómur í mönnum. HIV-sýking veldur skaða í ýmsum frumum en mest áberandi er bilun á ónæmiskerfi sem leiðir til illvígra sýkinga.

Lentiveirur, þar með talin HIV-veiran, geta sýkt og innlimast í litninga frumna sem eru ekki að skipta sér. Því væri mjög eftirsóknarvert að þróa genaferjur byggðar á lenti-veirum og mikil rannsóknavinna hefur verið í gangi á því sviði undanfarin ár, sérstaklega með HIV. Hér á Íslandi eru vísindamenn við lífefna- og sameindalíffræðistofu læknadeildar H.Í. í samvinnu við starfsfélaga á Keldum að smíða genaferju sem byggist á mæði-visnu-veiru.

Lentiveirur er töluvert flóknari í byggingu en aðrar retróveirur. Erfiðlega hefur gengið að útbúa skilvirkar lentigenaferjur sem hefur verið erfðabreytt svo tryggilega að þær valdi ekki skaða eða sjúkdómi við notkun. Mikilsverður árangur í tilraunum með genaflutninga í frumurækt og í tilraunadýrum hefur náðst með genaferjur byggðar á HIV. Hugsanleg hætta á alvarlegum sýkingum og aukaverkunum hefur þó hindrað tilraunir með slíkar genaferjur á mönnum enn sem komið er.

Eins konar framhald á þessum texta er að finna í svari okkar við spurningunni Er hægt að beita genalækningum við sjúkdóminn DMD?

Frekara lesefni á Vísindavefnum:...