Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í kjarna frumna eru þráðlaga fyrirbæri sem kallast litningar en í litningunum eru gen sem ákvarða eiginleika einstaklingsins, svo sem augnlit, háralit, hæð, kyn og svo framvegis.
Flestar lífverur eru tvílitna, það er litningarnir eru í pörum, en heildarfjöldi þeirra er breytilegur eftir lífverutegundum. Í manninum eru 46 litningar eða 23 pör eins og Guðmundur Eggertsson fjallar um í svari sínu við spurningunni Hvað er genasamsæta?
Nýr einstaklingur verður til þegar kynfrumur móður og föður, eggfruma og sáðfruma, renna saman. Kynfrumur eru ólíkar öðrum frumum að því leyti að þær eru aðeins með helming þess litningafjölda sem aðrar frumur hafa, með 23 litninga í stað 46. Báðar kynfrumgerðirnar eru með jafn mikið af erfðaupplýsingum þó þær séu að öðru leyti mjög ólíkar að útliti og stærð. Um þetta er fjallað nánar í svari Þuríðar Þorbjarnardóttur við spurningunni Hvernig verðum við til?
Við samrunan eggs og sæðist, frjóvgun, myndast ný fruma sem kallast okfruma. Hún er með samtals 46 litninga, helmingur þeirra kemur frá föður og helmingur frá móður. Þannig sést að báðir foreldrar leggja jafn mikið af erfðaupplýsingum til afkvæmis síns. Við erfum því alltaf bæði eiginleika frá föður og móður.
Það er hins vegar ekki hægt að ráða því hvaða eiginleikar það eru sem við fáum frá hvoru foreldri. Við gætum viljað hafa ljósar krullur eins og mamma í stað músagráa, slétta hársins sem við fengum frá pabba eða brúnu augun hans pabba í stað blágráu augnanna hennar mömmu, en útlit okkar og aðrir eiginleikar ráðast af því hvernig erfðaefni þeirra beggja raðaðist saman strax í upphafi þegar við urðum til. Það geta þó verið meiri líkur á að ákveðnir eiginleikar komi fram þar sem sum gen eru ríkjandi og önnur víkjandi. Um það er fjallað í svari Guðmundar Eggertssonar við spurningunni Hvað er ríkjandi gen og víkjandi gen?
Það er sem sagt ómögulegt að erfa allt frá öðru foreldrinu og ekkert frá hinu ef foreldrarnir eru tveir. Hins vegar er kynlaus æxlun vel þekkt í náttúrunni þar sem foreldrið er aðeins eitt og afkvæmið erfir óhjákvæmilega allt frá því. Nánar má lesa um æxlun í svari Jóns Más Halldórssonar við spurningunni Hver er munurinn á kynæxlun og kynlausri æxlun?
Önnur leið til þess að erfa allt en ekki bara sumt frá öðru foreldrinu, er klónun eða einræktun. Dýr hafa verið klónuð en klónun manna hefur hins vegar ekki verið reynd svo vitað sé. Á meðan fólk er ekki klónað heldur verður til með samruna kynfrumna frá báðum foreldrum munum við alltaf erfa eiginleika þeirra beggja.
Guðmundur Eggertsson fjallar um klónun í svörum sínum við spurningunum Hvað er einræktun? og Hvernig verða frumuskiptingar í klónaðri mannveru? Önnur svör um klónun, æxlun, gen og litninga má finna með því að nota leitarvélina hér til vinstri eða smella á efnisorð neðst í svarinu.
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.
EDS. „Af hverju erfir maður bara sumt frá mömmu sinni og sumt frá pabba sínum?“ Vísindavefurinn, 19. maí 2006, sótt 25. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5952.
EDS. (2006, 19. maí). Af hverju erfir maður bara sumt frá mömmu sinni og sumt frá pabba sínum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5952
EDS. „Af hverju erfir maður bara sumt frá mömmu sinni og sumt frá pabba sínum?“ Vísindavefurinn. 19. maí. 2006. Vefsíða. 25. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5952>.