Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þegar talað er um brennudóma yfir galdrafólki á Íslandi er ekki beint hægt að nota orðið "nornabrennur" eða hugtakið "norn" yfirleitt. Sannleikurinn er sá að langflestir þeirra sem lentu á báli hérlendis fyrir galdra voru karlmenn sem sakaðir voru um fjölkynngi og þjóðlegt kukl á borð við meðferð rúna og galdrastafa. Erlendis voru konur hinsvegar yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem brenndir voru á báli vegna galdra, og af því hefur skapast sú hefð að tala um "nornabrennur".
Nærri lætur að 25 Íslendingar hafi verið brenndir á báli frá 14. og fram að 18. öld, en sjálf brennuöldin sem svo er nefnd einskorðast þó við 17. öldina, öld galdradóma. Af þessum 25 Íslendingum má ætla að 23 hafi beinlínis verið brenndir fyrir galdra en í hópnum eru einungis fjórar konur. Um þessa brennudóma má lesa í doktorsritgerð minni, Brennuöldinni, sem kom út fyrir fimm árum (Ólína Þorvarðardóttir 2000). Þar er gerð grein fyrir tilefni dómanna og fleiru sem tengist framkvæmd galdramála á Íslandi. Þar sem sérstaklega er spurt um það "hverjar voru brenndar" ætla ég þó að segja aðeins nánar frá afdrifum þeirra fjögurra kvenna sem brenndar voru á báli á Íslandi.
Galdranornir. Rista úr bók Peters Binsfelds biskups frá árinu 1591.
Nunnan í Kirkjubæjarklaustri 1343
Fyrsta konan var nunna í Kirkjubæjarklaustri sem brennd var fyrir trúvillu og lauslæti á 14. öld. Í heimildum er hún ýmist nefnd Katrín eða Kristín, en henni var gefið að sök að "hafa gefist púkanum með bréfi... og misfarið með guðs líkama" auk þess sem hún "lagðist með mörgum leikmönnum"(Storm 1888, bls. 402). Þetta er eina brennan á Íslandi sem vitað er til að kirkjan hafi dæmt og látið framfylgja; sakborningar brennualdarinnar voru sakfelldir af veraldlegum dómstólum, ýmist í héraði eða á alþingi.
Tilberamóðirin 1580
Vísbendingar eru um að kona hafi verið brennd fyrir að halda tilbera árið 1580 (sjá nánar fjallað um fyrirbærið tilbera hér fyrir neðan). Þetta kemur fram í Íslandslýsingu Resens frá 1688, en dóminn yfir konunni hef ég ekki fundið. Þessi kona kann að hafa verið fyrsta "nornin" sem fórnað var á galdrabáli á Íslandi.
Barnsmorðinginn 1608
Þriðja konan sem brennd var hét Guðrún Þorsteinsdóttir, en hún vann það ódæðisverk að brenna tveggja ára gamalt barn til bana með því að steypa því ofan í sjóðandi grautarpott. Þetta gerðist norður í Aðaldal í Þingeyjarsýslu árið 1606 og var Guðrún brennd eftir dómi tveim árum síðar. Þessi brenna er ekki galdrabrenna því ekkert bendir til að konan hafi verið grunuð um galdur, Hinsvegar er hún í annálum kölluð "sönn refsinorn" vegna þeirrar illsku sem í glæpnum fólst (Annálar V, bls. 512-513).
Vinnukona prófastsins 1678
Fjórða konan hét Þuríður Ólafsdóttir, og var vinnukona hjá séra Páli Björnssyni í Selárdal í Arnarfirði. Þangað hafði hún komið norðan úr Skagafirði, ásamt syni sínum Jóni, 12 eða 13 ára gömlum. Hún var sökuð um að valda Helgu, konu prófastsins, veikindum með göldrum og fjölkynngi og fyrir þá sök voru hún og sonur hennar bæði brennd til bana sumarið 1678.
Galdraofsóknirnar
Mest kvað að galdrabrennum í suðurhluta Evrópu á 16. og 17. öld. Ofsóknir þessar teygðu einnig anga sína til Norðurlanda þar sem dæmi eru um að nornir hafi verið brenndar margar saman í hópum. Séra Guðmundur Einarsson á Staðarstað segir frá því í Hugrás að hann hafi sjálfur séð þrettán galdrakonur brenndar á einu báli í Kaupmannahöfn árið 1589. Frásögn séra Guðmundar kemur heim og saman við danskar heimildir frá fyrri hluta 16. aldar.
Galdraofsóknirnar teygðu anga sína hingað til lands undir lok 16. aldar og stóðu fram á 18. öld. Eins og fyrr segir eru óljósar heimildir til um að kona hafi verið brennd fyrir galdur árið 1580 en fyrsta opinbera galdrabrennan varð árið 1625 þegar maður var brenndur á báli fyrir að vekja upp draug og senda hann til þess að hrella sveitunga sína í Svarfaðardal. Síðasta brennan átti sér stað í Borgarfirði árið 1685.
Tilberinn
Tilberinn var kvikindi sem þjóðtrúin segir að konur hafi magnað upp með göldrum og vanhelgun helgidóma. Hann var sívalningslaga, magnaður upp af mannsrifi sem vafið hafði verið ullarflóka. Þetta báru konurnar innanklæða milli brjósta sér og dreyptu á kvikindið messuvíni þar til það var fullmagnað. Þá settu þær tilberann á sepa eða vörtu efst í lærkrikanum þar sem hann saug sig fastan og nærðist á blóði galdrakonunnar. Sagt var að tilberinn væri sendur til þess að sjúga mjólk úr ám og kúm. Þá endastakkst hann um hagana og slengdi sér upp á bak mjólkurfénaðar, teygði sig niður með báðum síðum og saug sig fastan á spenana, þaðan sem hann teygaði mjólkina þar til hann var orðinn svo sprengfullur að hann líktist belg í lögun. Þá valt hann aftur til galdrakonunnar og sagði "fullur beli mamma" en hún lét hann æla feng sínum í mjólkurtrog.
Heimildir og myndir
Annálar 1400-1800, I-VII. Reykjavík 1922-98.
Jón Árnason 1954-61: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I-IV. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík.
Lbs 494, 8vo.
Ólína Þorvarðardóttir, 2000: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan, Reykjavík.
Resen, Peder Hansen 1991: Íslandslýsing. Jakob Benediktsson þýddi og samdi inngang og skýringar (Safn Sögufélagsins 3). Reykjavík, bls. 281.
Storm, Gustav 1888: Islandske annaler indtil 1578 (Det norske historiske Kildeskriftfonds skrifter – 21) Christiania.
Ólína Þorvarðardóttir. „Hvað voru margar nornabrennur á Íslandi, hvenær hættu þær og hverjar voru brenndar?“ Vísindavefurinn, 24. apríl 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5836.
Ólína Þorvarðardóttir. (2006, 24. apríl). Hvað voru margar nornabrennur á Íslandi, hvenær hættu þær og hverjar voru brenndar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5836
Ólína Þorvarðardóttir. „Hvað voru margar nornabrennur á Íslandi, hvenær hættu þær og hverjar voru brenndar?“ Vísindavefurinn. 24. apr. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5836>.