- Hvað er fuglaflensa?
- Hverjar eru líkurnar á að fuglaflensa berist til Íslands?
- Hverjar eru líkurnar á að fuglaflensuveiran stökkbreytist þannig að hún smitist manna á milli?
- Hver eru einkenni fuglaflensu?
- Hvernig smitast menn af fuglaflensu?
- Er til lækning við fuglaflensu?
- Er hætta á að fuglaflensan verði að heimsfarsótt?
- Er óhætt að fara í frí til landa þar sem fuglaflensa hefur greinst í mönnum?
Fuglaflensa hefur bæði greinst í alifuglum og villtum fuglum en smit í mönnum er eingöngu komið frá þeim fyrrnefndu.
Um miðjan mars 2006 hefur fuglaflensa af H5N1 stofni greinst í fuglum í 44 löndum, í Asíu, Evrópu og Afríku en hennar hefur ekki orðið vart í Ameríku. Uppfærðar upplýsingar um landssvæði þar sem fuglainflúensa hefur greinst má finna á heimasíðu Alþjóðadýraheilbrigðismálastofnunarinnar (OIE). Enn sem komið er (í mars 2006) er Ísland ekki á meðal þeirra landa þar sem smit hefur greinst. Landbúnaðarstofnun hefur skilgreint þrjú áhættustig vegna fuglaflensu og viðbrögð í samræmi við þau. Nú eru viðbrögð miðuð við áhættustig I en forsendur þess eru þær að lítil hætta sé á að fuglaflensa (H5N1) berist til landsins og flensan hafi ekki greinst á Bretlandseyjum eða í öðrum nágrannaríkjum. Á áhættustigi II er talin mikil hætta á að fuglaflensa berist til landsins, og eru forsendurnar þær að flensan hafi greinst á Bretlandseyjum eða í öðrum nágrannaríkjum sem og í villtum fuglum hér á landi. Áhættustig III tekur við þegar (og ef) fuglaflensa hefur greinst í alifuglum hér á landi. Á heimasíðu embættis yfirdýralæknis má lesa nánar um viðbrögð sem fylgja hverju áhættustigi. Fuglainflúensuveiran getur stöku sinnum borist í menn. Þegar þetta er skrifað hafa samtals 176 einstaklingar greinst með fuglainflúensu af H5N1 stofni, af þeim hafa 97 látist samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Algengasta smitleiðin er talin vera bein snerting við sjúka fugla eða frá hlutum menguðum með fuglaskít. Þau fáu tilfelli þar sem sýking hefur borist í menn hafa yfirleitt átt sér stað meðal þeirra sem halda lítil hænsnabú nærri heimilum sínum í sveitum Asíu. Afar ólíklegt er talið að almennir borgarar verði fyrir smiti. Smiti frá villtum fuglum yfir í menn hefur ekki verið lýst og líkur á því eru hverfandi. Eins er ekkert sem bendir til þess að fuglaflensa smitist manna á milli né heldur frá gæludýrum yfir í menn.
Fuglaflensuveiran drepst við hitameðhöndlun og ekki hefur verið sýnt fram á að smit berist með matvælum. Það er hins vegar ekki mælt með neyslu ósoðinna fuglaafurða. Matvælin geta, eins og þekkt er, borið með sér aðrar sýkingar eins og kampýlóbakter og salmonellu, sem einnig drepst við hitameðhöndlun. Það er því góð regla að hitameðhöndla (sjóða, steikja eða baka í ofni) allar fuglaafurðir áður en þeirra er neytt. Ekki er ástæða til að forðast landssvæði þar sem fuglainflúensa hefur greinst. Hins vegar er ferðamönnum á þessum svæðum bent á að fylgja eftirfarandi ráðleggingum:
- Forðast skal fuglamarkaði og kjúklingabú.
- Forðast skal snertingu við fiðurfé.
- Forðast skal snertingu við yfirborð eða fleti sem geta verið mengaðir með saur fugla.
- Forðast ber að snerta dauða fugla.
- Óráðlegt er að borða lítið soðið eða hrátt fuglakjöt og egg
- Mælt er með miklu hreinlæti enda er mikilvægi góðs handþvottar aldrei ofmetið.
- Ekki skal flytja með sér heim lifandi fiðurfé.
- Embætti yfirdýralæknis
- Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO)
- Alþjóðadýraheilbrigðismálastofnunin (OIE).
- Centers for Disease Control and Prevention
- Getur fuglaflensuveiran borist úr fugli í gæludýr og þaðan í menn?
- Hver er munurinn á bakteríu og veiru?
- Geta veirusýkingar fylgt mat?
- Hvað var spánska veikin?
- Economist.com - 20. október 2005
- Economist.com - 14. apríl 2005