Er líklegt að framleitt verði vélmenni sem mun hafa greind til að taka ákvarðanir út frá mati á manngerðu og náttúrulegu umhverfi?Stutta svarið er að slík vélmenni eru þegar til. Langa svarið er svo auðvitað aðeins lengra. Þegar spurt er hvort eitthvert fyrirbæri, í þessu tilviki vél, geti verið gætt einhverjum flóknum eiginleika eins og greind verður maður fyrst að spyrja sig hvað átt sé við með hugtökunum. Hugmyndir almennings um hvað greind og „hugsun“ þýða eru mjög misjafnar. Til einföldunar skulum við gefa okkur að með vél sé einfaldlega átt við nútíma borðtölvu, og að vélmenni sé mekanískur líkami sem stjórnað er af forriti sem keyrir á slíkri vél. Fræðimenn á sviði gervigreindar líta yfirleitt á greind sem mengi þeirrar hegðunar sem skilur menn og dýr frá öðrum fyrirbærum í náttúrunni. Þetta eru hæfileikar eins og áætlanagerð, notkun tungu- og táknmáls, þekking á hlutum í umhverfinu, nám og sköpun nýrra hluta og hugmynda. Hugsun er einfaldlega samheiti yfir þau nauðsynlegu og flóknu ferli sem liggja að baki slíkum athöfnum. Samkvæmt þessum forsendum eru þegar til greindar vélar, en greind þeirra er þó enn talsvert ólík greind manna og flestra dýra. Þær greindu vélar sem nú eru við störf búa aðeins yfir litlu magni þeirra hæfileika sem náttúrulegar greindar skepnur búa yfir. Vélarnar eru líka lítt sýnilegar dags daglega. Þær hjálpa til við ýmis verkefni (sem aðeins manneskjur gátu séð um áður), til dæmis við að stilla skerpu á sjálfvirkum myndavélum og flokka landbúnaðarvörur, ásamt verkefnum sem engin manneskja gat framkvæmt með góðu móti, til dæmis að spá fyrir um hegðun fiskistofna og að reikna út líkurnar á greiðslukortasvindli hvar sem er í heiminum um leið og greiðslan á sér stað. Náttúrulegt umhverfi er yfirleitt flóknara en manngert umhverfi og því eru flestar þeirra greindu véla sem nú eru í umferð gerðar til að vinna í mjög einföldu, manngerðu umhverfi. Þetta mun hins vegar að öllum líkindum breytast talsvert mikið á komandi árum og áratugum. Af öllum þekktum fyrirbærum í alheiminum er mannshugurinn án efa meðal þeirra flóknustu. Þótt forngrísk heimspeki hafi leitt af sér fjölda vísindasviða með góðum árangri, svo sem efnafræði, stjörnufræði og eðlisfræði, varð ekki til sams konar vísindagrein um hugarstarf fyrr en nýlega. Hið nýja svið vitvísinda (e. artificial intelligence, cognitive science), sem helgar sig rannsóknum á hugarstarfsemi og greindri hegðun, byggir á traustum vísindalegum grunni tölvunarfræðinnar en nýtir jafnframt aðferðafræði og árangur í sálarfræði, heimspeki, heilarannsóknum og taugalífeðlisfræði, svo eitthvað sé nefnt. Framfarir í rannsóknum á hugsun hafa orðið meiri síðustu 20 árin en öll árin þar áður samanlagt. Þær gefa okkur sífellt betri mynd af því hvernig hugurinn virkar. Hraði framfara á sviði vitvísinda gerir okkur kleift að spá því að þótt enn sé margt á huldu um hugsun og greind þá muni mörgum spurningum verða svarað á næstu 30-50 árum. Á næstu áratugum má því reikna með að við fáum að sjá greindar vélar á borð við vélgæludýr, þrifnaðarvélmenni fyrir heimilið og skemmtivélmenni – vélar sem eiga mun fleira sameiginlegt með okkur mönnunum en þær gervigreindu vélar sem eru í notkun nú. Ekki er ólíklegt að margar þeirra verði svipaðar því sem við höfum séð í kvikmyndum og lesið um í vísindaskáldsögum, en aðrar munu koma okkur gjörsamlega á óvart.
Leonardo er vitvera sköpuð af vísindamönnum í MIT-háskólanum í Bandaríkjunum. Hér sést hvernig Leonardo fylgist með öðrum til að geta síðar hermt eftir þeim.
- Hvenær koma vélmenni sem geta hjálpað fólki? eftir Hrafn Þorra Þórisson
- Er hægt að smíða vélmenni heima hjá sér? eftir JGÞ
- Hvar á Íslandi er hægt að búa til róbóta? eftir Hrafn Þorra Þórisson
- Hvað er gervigreind? eftir Ara Kristinn Jónsson
- Cadia: Gervigreindarsetur HR.
- ISIR: Félag Íslands um gervigreind og vitvísindi.
- Hvað er gervigreind? eftir Ara K. Jónsson.
- Hvað er yrki eða botti? eftir Hrafn Þorra Þórisson.
- Til hvers eru gervitauganet notuð og hvernig eru þau ólík raunverulegum tauganetum? eftir Kristinn R. Þórisson.
- Mynd af tannhjólsheila er af Artificial Intelligence Research Laboratory: Department of Computer Science. Iowa State University.
- Mynd af Leonardo er af Robotic Life: Projects. MIT Media Lab.