Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er vísindaheimspeki?

Huginn Freyr Þorsteinsson

Hér gefst ekki rými til að líta yfir sögu vísindaheimspekinnar en hún teygir sig alveg aftur til frumherja forngrískrar heimspeki (6. öld f.Kr.). Hins vegar verður vísindaheimspeki ekki að sjálfstæðri fræðigrein fyrr en í upphafi 20. aldarinnar. Einn mikilvægasti áfangi á þeirri löngu vegferð var vísindabylting 16. og 17. aldar með áherslu á reynslu sem undirstöðu þekkingar.

Vísindaheimspeki sameinar mörg hefðbundin svið heimspekinnar, til að mynda þekkingarfræði, rökfræði, frumspeki og siðfræði, til að varpa ljósi á eðli vísinda. Til að átta sig á í hverju þetta felst er best að kynna sígildar spurningar er vísindaheimspekin fæst við og hvernig þeim hefur verið svarað.

Mikilvæg grundvallarspurning er: „Hvað eru vísindi?“ Getum við til dæmis greint vísindi frá öðrum sviðum mannlífsins eins og trúarbrögðum eða stjörnuspeki? Um þessar tvær spurningar fjallaði einhver áhrifamesti vísindaheimspekingur 20. aldar, Karl Popper (1902-1994). Popper áleit svo að hægt væri að greina vísindi frá svokölluðum gervivísindum eða hjáfræðum (svo sem stjörnuspeki og trúarbrögðum) þar sem að kenningar vísinda væru afsannanlegar eða hrekjanlegar ef þær væru rangar en kenningar gervivísinda ekki. Afsannanleiki þeirra felst í því að þær eru prófanlegar með tilraunum en svo á ekki við um kenningar gervivísinda. Þetta leiddi Popper á þær slóðir að eðlisfræði væru réttnefnd vísindi á meðan Marxismi og Freudismi væru það ekki þar sem tilgátur þeirra væru algjörlega óprófanlegar. Þær ættu því heima með stjörnuspeki og trúarbrögðum.

Annar 20. aldar vísindaheimspekingur, Thomas S. Kuhn (1922-1996), var ekki síður áhrifamikill. Hann taldi Popper gera of mikið úr þætti tilrauna og afsannaleika í kollvörpun vísindakenninga; fremur væru það félagslegir þættir sem hefðu afgerandi áhrif á líf eða dauða vísindakenninga. Álit Kuhns var að vísindasamfélagið lyti ekki rökrænum lögmálum heldur væri afsprengi tilviljana, innrætingar, mannlegra mistaka og breyskleika. Skynsemishyggja Poppers væri búin að skilgreina þessa augljósu þætti burt með heimsmynd sinni. Kuhn lagði mikla áherslu á sögulega nálgun við að skilja vísindi og setti fram áhrifamikla kennningu um framvindu vísinda. Hann leit svo á að vísindi nálguðust ekki sannleikann í neinum algildum skilningi heldur að vísindakenningar væru misgóðar leiðir til að leysa ákveðnar ráðgátur.

Við getum dýpkað umræðu okkar enn frekar með að líta á þrjár mismunandi hugmyndir innan vísindaheimspeki um eðli vísinda. Samkvæmt hluthyggju um vísindi nálgast vísindi algildan sannleika. Þessi skoðun grundvallast á: a) frumspekilegri fullyrðingu; til eru fyrirbæri sem eiga sér sjálfstæða tilvist í veröldinni, það er óháð mannlegri hugsun b) þekkingafræðilegri fullyrðingu; við getum nálgast þessi fyrirbæri og skýrt þau með kenningum eða lögmálum c) merkingafræðilegri fullyrðingu; þær kenningar hafa sanngildi, það er þær eru sannar eða ósannar. Samkvæmt hluthyggjunni eru því þau fyrirbæri sem vísindin lýsa – svið, gen, rafeindir og atóm – raunveruleg og kenningar okkar um þau líklegast sannar.

Öndverðar skoðanir má finna í verkfærishyggju en í henni er litið á vísindi sem öflugt „verkfæri“; vísindi eru hagnýtt tæki til að spá fyrir um atburði og hegðun fyrirbæra en rangt er að tala um vísindakenningarnar sem sannar eða ósannar. Aðalatriðið er að kenningar séu áreiðanlegur leiðarvísir um heiminn og á þeim forsendum greinum við milli góðra og vondra kenninga.

Áhangendur félagslegrar smíðastefnu eru sammála afneitun verkfærishyggjunar á sannleikanum en nálgast málið frá talsvert öðrum sjónarhóli. Þeir leggja áherslu á að mörk milli hugarheims okkar og veraldarinnar séu óljós. Vísindaleg þekking er afurð félagsþátta og er tómt mál að tala um hlutlæga og sanna þekkingu. Vísindamenn safna ekki staðreyndum í sarpinn og draga síðan „réttar“ ályktanir af þeim þegar nægilegum fjölda hefur verið safnað. Mælikvarðarnir, rökgerðin og staðreyndirnar eru mannanna verk fremur en veraldarinnar. Athugið að samkvæmt verkfæris- og hluthyggju leiða vísindi alltaf til framfara á meðan félagslega smíðastefnan afneitar þeirri hugmynd. Þetta er athyglisvert í ljósi þeirrar framfarahyggju sem löngum hefur einkennt vestræna vísindahugsun.

Vísindaheimspeki fjallar ekki eingöngu á almennan hátt um eðli vísinda heldur einnig á sértækan hátt um ákveðin vísindi. Þannig er til heimspeki líffræðinnar, heimspeki félagsfræðinnar, eðlisfræðinnar, sálfræðinnar og svo framvegis, sem fjalla um grundvöll og forsendur þessara tilteknu greina. Þá er einkum beint sjónum að því með hvaða hætti tiltekin grein fellur að almennri skilgreiningu á vísindum.

Að lokum er vert að nefna þau fjölmörgu siðferðilegu álitamál sem fylgja vísindaiðkun. Er einræktun manna réttlætanleg? Á vísindamaður að nýta þekkingu sína til að þróa vopn? Er réttlætanlegt að halda til streitu einkaleyfum á lyfjum ef það þýðir að þau eru ekki öllum aðgengileg?

Þetta er langt frá því að vera tæmandi listi yfir viðfangsefni vísindaheimspekinnar en vonandi upplýsandi fyrir lesendur. Fyrir þá sem vilja kynna sér málið betur eru ritin sem nefnd eru í heimildaskránni góð inngangsrit.

Heimildir og myndir

  • Bird, Alexander. 2000. Philosophy of Science. UCL Press. London.
  • Erlendur Jónsson. 1990. Vísindaheimspeki. Reykjavík.
  • Ladyman, James. 2003. Understanding Philosophy of Science. Routledge. London.
  • Okasha, Samir. 2002. Philosophy of Science: A Very Short Introduction. Oxford University Press. Oxford.
  • Mynd af Popper er af Karl Popper and Negative Utilitarianism.
  • Mynd af Kuhn er af Thomas Kuhn Biography.

Höfundur

Huginn Freyr Þorsteinsson

doktor í vísindaheimspeki

Útgáfudagur

7.2.2006

Spyrjandi

Halldóra Þórsdóttir

Tilvísun

Huginn Freyr Þorsteinsson. „Hvað er vísindaheimspeki?“ Vísindavefurinn, 7. febrúar 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5625.

Huginn Freyr Þorsteinsson. (2006, 7. febrúar). Hvað er vísindaheimspeki? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5625

Huginn Freyr Þorsteinsson. „Hvað er vísindaheimspeki?“ Vísindavefurinn. 7. feb. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5625>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er vísindaheimspeki?
Hér gefst ekki rými til að líta yfir sögu vísindaheimspekinnar en hún teygir sig alveg aftur til frumherja forngrískrar heimspeki (6. öld f.Kr.). Hins vegar verður vísindaheimspeki ekki að sjálfstæðri fræðigrein fyrr en í upphafi 20. aldarinnar. Einn mikilvægasti áfangi á þeirri löngu vegferð var vísindabylting 16. og 17. aldar með áherslu á reynslu sem undirstöðu þekkingar.

Vísindaheimspeki sameinar mörg hefðbundin svið heimspekinnar, til að mynda þekkingarfræði, rökfræði, frumspeki og siðfræði, til að varpa ljósi á eðli vísinda. Til að átta sig á í hverju þetta felst er best að kynna sígildar spurningar er vísindaheimspekin fæst við og hvernig þeim hefur verið svarað.

Mikilvæg grundvallarspurning er: „Hvað eru vísindi?“ Getum við til dæmis greint vísindi frá öðrum sviðum mannlífsins eins og trúarbrögðum eða stjörnuspeki? Um þessar tvær spurningar fjallaði einhver áhrifamesti vísindaheimspekingur 20. aldar, Karl Popper (1902-1994). Popper áleit svo að hægt væri að greina vísindi frá svokölluðum gervivísindum eða hjáfræðum (svo sem stjörnuspeki og trúarbrögðum) þar sem að kenningar vísinda væru afsannanlegar eða hrekjanlegar ef þær væru rangar en kenningar gervivísinda ekki. Afsannanleiki þeirra felst í því að þær eru prófanlegar með tilraunum en svo á ekki við um kenningar gervivísinda. Þetta leiddi Popper á þær slóðir að eðlisfræði væru réttnefnd vísindi á meðan Marxismi og Freudismi væru það ekki þar sem tilgátur þeirra væru algjörlega óprófanlegar. Þær ættu því heima með stjörnuspeki og trúarbrögðum.

Annar 20. aldar vísindaheimspekingur, Thomas S. Kuhn (1922-1996), var ekki síður áhrifamikill. Hann taldi Popper gera of mikið úr þætti tilrauna og afsannaleika í kollvörpun vísindakenninga; fremur væru það félagslegir þættir sem hefðu afgerandi áhrif á líf eða dauða vísindakenninga. Álit Kuhns var að vísindasamfélagið lyti ekki rökrænum lögmálum heldur væri afsprengi tilviljana, innrætingar, mannlegra mistaka og breyskleika. Skynsemishyggja Poppers væri búin að skilgreina þessa augljósu þætti burt með heimsmynd sinni. Kuhn lagði mikla áherslu á sögulega nálgun við að skilja vísindi og setti fram áhrifamikla kennningu um framvindu vísinda. Hann leit svo á að vísindi nálguðust ekki sannleikann í neinum algildum skilningi heldur að vísindakenningar væru misgóðar leiðir til að leysa ákveðnar ráðgátur.

Við getum dýpkað umræðu okkar enn frekar með að líta á þrjár mismunandi hugmyndir innan vísindaheimspeki um eðli vísinda. Samkvæmt hluthyggju um vísindi nálgast vísindi algildan sannleika. Þessi skoðun grundvallast á: a) frumspekilegri fullyrðingu; til eru fyrirbæri sem eiga sér sjálfstæða tilvist í veröldinni, það er óháð mannlegri hugsun b) þekkingafræðilegri fullyrðingu; við getum nálgast þessi fyrirbæri og skýrt þau með kenningum eða lögmálum c) merkingafræðilegri fullyrðingu; þær kenningar hafa sanngildi, það er þær eru sannar eða ósannar. Samkvæmt hluthyggjunni eru því þau fyrirbæri sem vísindin lýsa – svið, gen, rafeindir og atóm – raunveruleg og kenningar okkar um þau líklegast sannar.

Öndverðar skoðanir má finna í verkfærishyggju en í henni er litið á vísindi sem öflugt „verkfæri“; vísindi eru hagnýtt tæki til að spá fyrir um atburði og hegðun fyrirbæra en rangt er að tala um vísindakenningarnar sem sannar eða ósannar. Aðalatriðið er að kenningar séu áreiðanlegur leiðarvísir um heiminn og á þeim forsendum greinum við milli góðra og vondra kenninga.

Áhangendur félagslegrar smíðastefnu eru sammála afneitun verkfærishyggjunar á sannleikanum en nálgast málið frá talsvert öðrum sjónarhóli. Þeir leggja áherslu á að mörk milli hugarheims okkar og veraldarinnar séu óljós. Vísindaleg þekking er afurð félagsþátta og er tómt mál að tala um hlutlæga og sanna þekkingu. Vísindamenn safna ekki staðreyndum í sarpinn og draga síðan „réttar“ ályktanir af þeim þegar nægilegum fjölda hefur verið safnað. Mælikvarðarnir, rökgerðin og staðreyndirnar eru mannanna verk fremur en veraldarinnar. Athugið að samkvæmt verkfæris- og hluthyggju leiða vísindi alltaf til framfara á meðan félagslega smíðastefnan afneitar þeirri hugmynd. Þetta er athyglisvert í ljósi þeirrar framfarahyggju sem löngum hefur einkennt vestræna vísindahugsun.

Vísindaheimspeki fjallar ekki eingöngu á almennan hátt um eðli vísinda heldur einnig á sértækan hátt um ákveðin vísindi. Þannig er til heimspeki líffræðinnar, heimspeki félagsfræðinnar, eðlisfræðinnar, sálfræðinnar og svo framvegis, sem fjalla um grundvöll og forsendur þessara tilteknu greina. Þá er einkum beint sjónum að því með hvaða hætti tiltekin grein fellur að almennri skilgreiningu á vísindum.

Að lokum er vert að nefna þau fjölmörgu siðferðilegu álitamál sem fylgja vísindaiðkun. Er einræktun manna réttlætanleg? Á vísindamaður að nýta þekkingu sína til að þróa vopn? Er réttlætanlegt að halda til streitu einkaleyfum á lyfjum ef það þýðir að þau eru ekki öllum aðgengileg?

Þetta er langt frá því að vera tæmandi listi yfir viðfangsefni vísindaheimspekinnar en vonandi upplýsandi fyrir lesendur. Fyrir þá sem vilja kynna sér málið betur eru ritin sem nefnd eru í heimildaskránni góð inngangsrit.

Heimildir og myndir

  • Bird, Alexander. 2000. Philosophy of Science. UCL Press. London.
  • Erlendur Jónsson. 1990. Vísindaheimspeki. Reykjavík.
  • Ladyman, James. 2003. Understanding Philosophy of Science. Routledge. London.
  • Okasha, Samir. 2002. Philosophy of Science: A Very Short Introduction. Oxford University Press. Oxford.
  • Mynd af Popper er af Karl Popper and Negative Utilitarianism.
  • Mynd af Kuhn er af Thomas Kuhn Biography.
...