Óðinn kunni þá íþrótt, svo að mestur máttur fylgdi, ok framdi sjálfur, er seiður heitir, en af því mátti hann vita örlög manna og óorðna hluti, svo og að gera mönnum bana eða óhamingju eða vanheilindi, svo og að taka frá mönnum vit eða afl og gefa öðrum. En þessi fjölkynngi, er framið er, fylgir svo mikil ergi, að eigi þótti karlmönnum skammlaust við að fara, og var gyðjunum kennd sú íþrótt. (Ynglinga saga, bls. 19)Auk þess sem hér er lýst átti Óðinn að geta blindað óvini sína og deyft vopn þeirra, og valdið berserksgangi eigin stríðsmanna. Samkvæmt Snorra voru berserkir hans galnir, en lýsingarorðið galinn er komið af sagnorðinu gala, það er að syngja (flytja) eins konar töfrasöng. Á þann hátt stendur það í nánu samhengi við galdur. Þá gat Óðinn slökkt elda með orðum sínum einum saman og snúið vindum, jafnframt því sem hann tók hamskiptum, það er hann var fær um að taka sér líki/ham annars fólks eða dýra.
Óðinn var fjölkunnugur og gat brugðið sér í allra kvikinda líki.
... þeir sem þetta gátu, hjetu alment hamhleypur, og vóru nefndir eigi einhamir, að hamast er sama sem að hleypa ham, leggja niður sinn eiginn lík-ham (líkam) og taka á sig annan. (Finnur Jónsson, bls. 21)Hamskipti af þessu tagi, auk ógæfusendinga og spádómshæfileika – að sjá fyrir óorðna hluti – eru meðal algengustu eiginleika seiðfólks. Samkvæmt lýsingum af seið sátu iðkendur hans, oft svonefndar völur (völvur), á þar til gerðum seiðhjalli, eða upphækkuðum palli. Sums staðar er gert ráð fyrir að völurnar og/eða raddlið þeirra, hafi farið með eða galað galdra- eða töfraþulur, samanber hinar frægu Varðlok(k)ur, sem getið er um í Eiríks sögu rauða, þar sem söngfólkið slær hring í kringum völuna. Hvort tveggja hringurinn og söngurinn hefur þá átt að hjálpa völunni að komast í einhvers konar leiðsluástand. Sumir vilja gera greinarmun á völum og seiðkonum, og telja að völurnar einbeiti sér nær eingöngu að einni hlið seiðsins, spádómunum. Þótt seiðurinn felist fyrst og fremst í andlegri iðkun, eru dæmi um að seiðfólk notfæri sér áhöld eða hjálpargripi. Meðal slíkra gripa eru seiðstafir, í Eiríks sögu rauða segir að slíkir stafir séu lagðir steinum og málmi, og einnig seiðtrommur og dýrafeldir. Þá er seiður alloft tengdur blóti, það er dýrkun heiðinna goða, eða fórnarathöfnum tengdum henni. Stundum virðist seiður beinast gegn ákveðnum mönnum, þar sem talað er um að efla seið gegn einhverjum, eða síða að mönnum ógæfu. Seiður minnir að mörgu leyti á sjamanisma eins og hann var stundaðar meðal Sama til forna, en þó er óvarlegt að setja samansemmerki á milli þessara tveggja fornu afbrigða fjölkynngi.
Seiðfólk klæddist stundum dýrafeldum og barði bumbur.
- Dillmann, François-Xavier. „Seiður og Shamanismi í Íslendingasögum.“ Skáldskaparmál 2, 1992.
- Finnur Jónsson. „Um galdra, seið, seiðmenn og völur.“ Þrjár ritgjörðir, sendar og tileinkaðar herra Páli Melsteð ... Finnur Jónsson, Valtýr Guðmundsson og Bogi Th. Melsteð. Kaupmannahöfn, 1892.
- Ólína Þorvarðardóttir. Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan. Reykjavík, 2000.
- Strömbäck, Dag. Sejd. Levin & Munksgaard, København, 1935.
- Ynglinga saga. Heimskringla I. Íslenzk fornrit XXVI. Hið íslenzka fornritafélag. Reykjavík, 1941.
- Fyrri myndin er af Jan P. Krasny: SFGallery.
- Seinni myndin er af The paradise2012 shamanism page.