Hvað þarf til að ár sé kallað 13 tungla ár?Gangur tunglsins skiptist þannig að það er vaxandi eftir að það kviknar, síðan fullt, þá þverrandi uns það hverfur í nokkra daga og er þá kallað nýtt. Síðan kviknar það og umferðin hefst að nýju. Hver umferð tekur 29,53 daga og kallast tunglmánuður (e. lunar month). Jólatunglið er tunglið sem er í sama tunglmánuði og þrettándinn. Þorratunglið er tunglið sem kviknar á þorra eða með öðrum orðum í öðrum tunglmánuði á undan páskatungli. Páskatunglið var stundum áður fyrr líka nefnt Gyðingatungl.
Hátíð jóla hygg þú að; hljóðar svo gamall texti: Ársins gróða þýðir það, ef þá er tungl í vexti.
En ef máni er þá skerður, önnur fylgir gáta, árið nýja oftast verður í harðari máta.Tunglmánuðurinn er sem fyrr segir 29,53 dagar og 12 slíkir eru rúmlega 354 dagar. Afgangurinn er 11 dagar. Ef fyrsta tungl ársins fellur á fyrstu 11 daga þess verður þrettánda tungl þaðan í frá fyrir lok ársins. Slík ár eru kölluð 13 tungla ár. Þau koma fyrir um það bil 37 sinnum á hverjum 100 árum. Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Af hverju eru bara tólf mánuðir í árinu? eftir Þorstein Vilhjálmsson.
- Er fullt tungl á sama tíma um allan heim? eftir Ögmund Jónsson og Þorstein Vilhjálmsson.
- Hver er munurinn á tunglmyrkva og nýju tungli? eftir ÞV.
- Hvernig er staða sólar, jarðar og tungls á nýju tungli? eftir ÖJ.
- Í hvora áttina vex tunglið, frá hægri til vinstri eða vinstri til hægri? eftir Ögmund Jónsson og Þorstein Vilhjálmsson.
- Var Betlehemstjarnan raunverulega til? eftir Sævar Helga Bragason.