Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fyrst þarf að greina örstutt þau hugtök sem felast í spurningunni. Samtöl, sem einnig ganga undir nafninu djúpviðtöl, er aðferð sem beitt er í félags- og heilbrigðisvísindum þar sem viðfangsefnið er fólk. Hér skilgreini ég félagsvísindi vítt; þau innibera fjölmargar greinar svo sem félagsfræði, stjórnmálafræði, mannfræði, sálfræði, uppeldisfræði, viðskiptafræði og lögfræði. Djúpviðtöl eru yfirleitt af ætt svokallaðra eigindlegra rannsóknaraðferða (e. qualitative research methods) sem er annar tveggja meginflokka við öflun gagna í félags- og heilbrigðisvísindum. Hinn flokkurinn kallast megindlegar rannsóknaraðferðir (e. quantitative research methods). Lesa má nánar um báða flokka í svari Jóns Gunnars Bernburg við spurningunni Hvernig útskýrir maður aðferðafræði félagsvísinda?
Djúpviðtöl er nokkuð algeng rannsóknaraðferð í sumum greinum félags- og heilbrigðisvísinda.
Mig langar að umorða spurninguna um hvort umrædd aðferð sé vísindi og svara því fremur hvort hún sé vísindaleg aðferð. Þær greinar þar sem djúpviðtölum er beitt má á hinn bóginn kalla vísindi.
Mismunandi aðferðir hafa mismunandi kosti og takmarkanir. Svo er einnig með djúpviðtöl. Nafn aðferðarinnar gefur þó aldrei sjálfkrafa stimpil vísindalegrar aðferðar heldur hvernig henni er beitt; hvort vandað sé til verka þannig að vinnubrögð standist kröfur vísindasamfélagsins. Ein af meginstoðum vísinda eru strangar aðferðir við öflun upplýsinga.
Spurningunni „Eru djúpviðtöl vísindaleg aðferð?“ svara ég hiklaust játandi. Þessi aðferð er nánast alls staðar kynnt og kennd sem fullgild aðferð við öflun gagna í félagsvísindum – bæði í háskólakennslu og fræðibókum. Aðalkostur slíkra viðtala er að oft er hægt að afla meiri upplýsinga frá hverjum þátttakanda í viðkomandi rannsókn en með öðrum aðferðum. Því miður er aðferðin líka dýr svo sjaldgæft er að mikill fjöldi svarenda náist. Í slíkum tilvikum er ekki hægt að alhæfa út frá niðurstöðunum um stærri hóp fólks (svokallað þýði). Í einstaka tilvikum eru viðtöl tekin við mörg hundruð manns í úrtaki sem valið er með slembiaðferð. Vegna fjöldans í úrtakinu og aðferðarinnar við að velja það er hægt að alhæfa með nokkurri vissu af niðurstöðum viðtalanna yfir á stærri heild.
Það kann að vera að það vaki fyrir spyrjanda að þegar djúpviðtölum er beitt í eigindlegum rannsóknaraðferðum sé ekki hægt að alhæfa um þýði og í þeim skilningi séu djúpviðtöl ekki vísindaleg aðferð. Því er til að svara að flestar rannsóknaraðferðir félagsvísinda fela ekki í sér beina alhæfingu yfir á þýði með til þess gerðum óvissuútreikningum. Þar í flokki eru djúpviðtöl, en þau eru samt sem áður mikilsverður hlekkur í keðju fjölmargra viðurkenndra rannsóknaraðferða við að afla áreiðanlegra gagna í félags- og heilbrigðisvísindum.
Mynd:Interview with Andrea Christensen. Governor Jon Huntsman, Jr.