Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þessum spurningum er ekki hægt að svara með einföldu „já“ eða „nei“. Krabbamein eru talsvert algeng og því greinast þau í öllum fjölskyldum. Búast má við þeim mun fleiri tilvikum innan fjölskyldu eftir því sem hún er stærri og meðalaldur innan hennar hærri, en líkurnar á krabbameinum aukast mjög með hækkandi aldri.
Til eru fjölskyldur þar sem meira er um krabbamein en við mætti búast miðað við fjölda og aldur. Erfitt er þó að sýna fram á marktæka aukningu, nema teknar séu saman margar fjölskyldur og þær bornar saman við væntigildi.
Þannig rannsóknir hafa verið gerðar í mörgum löndum, þar á meðal á Íslandi. Þær hafa meðal annars leitt í ljós að tíðni tiltekinna krabbameina, mest þó brjósta- og ristilkrabbameins, er marktækt aukin í sumum ættum. Í kjölfarið hafa fundist meðfæddir gallar (stökkbreytingar) í ákveðnum genum sem auka mjög líkurnar á krabbameinum í brjóstum og ristli, og fáeinum öðrum líffærum, í þeim fjölskyldum sem bera slíkar stökkbreytingar í erfðaefninu. Þessar stökkbreytingar er venjulega hægt að greina með því að taka blóðsýni.
Hins vegar ber að geta þess að flestir sem fá þessi tilteknu krabbamein koma ekki úr þeim tiltölulega fáu ættum sem bera stökkbreytingarnar og því virðast flest þessara meina orsakast af utanaðkomandi áhrifum eða öldrun. Ennfremur hefur komið í ljós að oftast þarf ákveðið samspil umhverfis og erfða svo að krabbameinin komi fram, jafnvel hjá þeim sem bera stökkbreytingarnar.
Enn er margt óljóst varðandi það hvaða þættir í umhverfinu valda krabbameinum þótt margir þeirra séu þegar þekktir, svo sem tóbaksreykur, útfjólublá geislun og ákveðnar gerðir veira. Því er mikilvægt að halda áfram rannsóknum á áhrifum erfða og umhverfis og samspili þeirra.
Á Vísindavefnum er að finna fjölmörg svör um krabbamein, til dæmis:
Laufey Tryggvadóttir. „Er líklegt að maður fái krabbamein ef margir í fjölskyldunni hafa fengið það?“ Vísindavefurinn, 14. október 2005, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5331.
Laufey Tryggvadóttir. (2005, 14. október). Er líklegt að maður fái krabbamein ef margir í fjölskyldunni hafa fengið það? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5331
Laufey Tryggvadóttir. „Er líklegt að maður fái krabbamein ef margir í fjölskyldunni hafa fengið það?“ Vísindavefurinn. 14. okt. 2005. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5331>.