Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þegar spurt er hvar meðvitundin sé í heilanum þarf að skilgreina hvað átt sé við með hugtakinu sjálfu. Heimspekingar greina gjarnan á milli skynvitundar (e. phenomenal consciousness) og aðgangsvitundar (e. access consciousness).
Með skynvitund er átt við huglæga upplifun hvers og eins. Það hefur reynst mönnum erfitt að tengja meðvitund í þessum skilningi við starfsemi heilans. Hvernig geta finningar (e. qualia), það er upplifun fólks á fyrirbærum á borð við rauðan lit eða sársauka, átt sér einhvern stað yfirleitt? Það er óleyst gáta og jafnvel óleysanleg hvernig hægt er að tengja hughrif sem þessi við starfsemi líffræðilegs kerfis eins og heilans (sjá til dæmis Chalmers, 1996).
Aðgangsvitund vísar aftur á móti til hugarstarfs eins og stjórnun athygli, samþættingu upplýsinga úr umhverfinu og að nýta upplýsingarnar til að stjórna hegðun. Það er mun auðveldara að tengja meðvitund í þessum skilningi við heilastarfsemi.
Sumar rannsóknir bentu til dæmis til að meðvituð sjónskynjun tengdist starfsemi frumsjónbarkar (V1). Fólk með skemmdan sjónbörk getur fengið svokallaða blindusjón (e. blindsight) sem gerir það að verkum að það er ekki meðvitað um að það sjái en getur samt brugðist við sjónáreitum og hefur því sjón í einhverjum skilningi orðsins. Seinni rannsóknir hafa hins vegar fellt þessa tilgátu og telja nú flestir að engin bein tengsl séu á milli virkni í frumsjónberki og meðvitundar. Önnur tilgáta er að meðvitund um sjónræn áreiti tengist starfsemi í baklægum hluta gagnaugablaðs (e. inferior temporal lobe).
Stúkan sem er heilastöð efst í heilastofni undir heilaberkinum hefur einnig verið tengd meðvitund. Skemmd í ákveðnum heilakjörnum í stúkunni veldur meðvitundarleysi og jafnvel svefndái. Mikið af taugum liggur frá stúkunni til heilabarkar. Sumir fræðimenn telja því að líffræðilega undirstöðu meðvitundar sé að finna í taugabrautum í stúku og heilaberki og mögulega einnig heilabotnskjörnum (e. basal ganglia). Þetta er samt einungis tilgáta og aðrar slíkar hafa verið settar fram. Til að mynda telja sumir að meðvitund sé svo flókið ferli að ómögulegt sé að staðsetja það í tiltekinni heilastöð heldur verði meðvitund til fyrir tilstilli virkni margra samtengdra taugakerfa í heilaberki.
Hér sést stúka ásamt þremur heilabotnskjörnum: Rófukjarna, gráhýði og bleikjuhnetti.
Að lokum er rétt að benda á að jafnvel þótt rannsóknir hafi sýnt fram á tengsl tiltekinna heilastöðva og meðvitundar eiga þessi tengsl einungis við um það að vera með meðvitund en skýra ekki hvernig við getum verið meðvituð um eitthvað. Meðvituð hugarstarfsemi er íbyggin, það er hún vísar út fyrir sjálfa sig, hún er um eitthvað annað. Fólk hugsar ekki bara heldur hugsar það um kött, um mat, um kynlíf og svo framvegis. Það er í raun ekki erfitt að finna svæði í heilanum sem tengjast meðvitund og meðvitundarleysi en það er öllu erfiðara að finna tengslin á milli starfsemi heilans og þess að vera meðvitaður um heiminn og eigin upplifanir.
Rannsóknir á sviði meðvitundar eru á byrjunarstigi og fátt er enn vitað með vissu. Áhugi vísindamanna á meðvitundinni er samt mjög mikill svo vonandi munu rannsóknir komandi ára varpa betra ljósi á þetta torskilda fyrirbæri.
Tengt efni á Vísindavefnum
Kamilla Rún Jóhannsdóttir. „Hvar í heilanum er meðvitundin?“ Vísindavefurinn, 12. október 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5325.
Kamilla Rún Jóhannsdóttir. (2005, 12. október). Hvar í heilanum er meðvitundin? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5325
Kamilla Rún Jóhannsdóttir. „Hvar í heilanum er meðvitundin?“ Vísindavefurinn. 12. okt. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5325>.