Svæðið einkenna þykk setlög sem spanna 600 milljónir ára, frá kambríum til nútíma. Setlögunum má meðal annars skipta í svokallaða olíugeyma, til dæmis sandstein, og olíulása sem hindra olíu og gas í því að stíga til yfirborðsins og týnast, auk fellinga í setinu sem safna olíunni saman. Þrátt fyrir mismunandi aldur og jarðmyndanir eru olíusvæði nánast um landið allt. Samkvæmt nýjasta mati eru olíulindir Íraks 150-200 milljarðar (109) tunna og 3 trilljónir (1012) rúmmetra af jarðgasi. Olíuauðugar setmyndanir Íraks — framburðarsvæðis ánna Efrat og Tígris — liggja á milli forkambrísks Arabíuskjaldarins í vestri og Zagrosfjalla í austri, en þau eru hluti Alpafellingarinnar. Setmyndanir þessar settust að hluta til í Tethys-hafi sem forðum opnaðist frá austri til vesturs þegar risameginlandið Pangea byrjaði að klofna fyrir 200 milljónum ára eða svo. Hafið náði frá vesturströnd Ameríku til austurstrandar Asíu og er Miðjarðarhaf helsta leif þess. Þessi setbunki er meira en 15 km þykkur og aldur hans spannar allt frá forkambríum til nútíma. Mestur hluti olíunnar (um 76%) er í jarðlögum frá krít en 24% eru í tertíerum lögum. Örlítill hluti finnst í eldri jarðlögum (0,1%), allt til ordóvisíum. Skoðið einnig svörin:
- Hvernig myndast jarðolía?
- Af hverju brotnaði Pangea upp?
- Hversu margir lítrar af olíu eru til í heiminum?
- Hvað er talið að olíubirgðir jarðar endist lengi?