Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sérfræðingar eru ekki á eitt sáttir um svar við þessari spurningu. Flestir telja þó að olían í jörðinni endurnýist ekki og að sennilegast sé að olían endist ekki nema út þessa öld. Samtök olíuframleiðsluríkja OPEC (Organisation of Petroleum Exporting Countries) hafa áætlað að olían í aðildarlöndum þess munu endast næstu 80 árin miðað við núverandi framleiðslu. Tæplega 78% af öllum olíubirgðum jarðar tilheyra löndum innan OPEC. Allir eru þó ekki sammála þessum spám OPEC og telja líklegra að olían verði þurrausin um miðja þessa öld.
Þegar áætla á magn olíubirgða er yfirleitt stuðst við útreikninga sem byggjast á svokallaðri Hubberts Peak-kenningu. Kenningin er nefnd eftir jarðfræðingnum M. King Hubbert sem þróaði hana árið 1956 með það að markmiði að áætla olíubirgðir í Bandaríkjunum. Hann taldi líklegast að olíuframleiðslan myndi ná hámarki snemma á áttunda áratug tuttugustu aldar en minnka eftir það. Í byrjun áttunda áratugarins áttuðu menn sig á því að sú aðferð sem Hubberts notaði við útreikningin var rétt og hefur hún verið notuð allar götur síðan.
Svartsýnir olíusérfræðingar telja að hámarki olíuframleiðslunnar sé þegar náð eða það náist í það minnsta fljótlega og að olíuframleiðslan muni minnka um 2,7% á ári í kjölfarið. Bjartsýnir sérfræðingar segja hins vegar að toppnum verði ekki náð fyrr en um 2020 og að olíuframleiðslan fari ekki minnkandi fyrr en eftir þann tíma.
Þeir bjartsýnu rökstyðja skoðun sína með því að benda á að ný og öflugri tækni til þess að finna og nýta olíulindir sem enn eru ófundnar muni stuðla að aukinni olíuframleiðslu. Þeir svartsýnu telja hins vegar að búið sé að leita eftir olíu á nær öllum hugsanlegum olíusvæðum.
Útflutningur á olíu og olíunotkun eru háð fjárhag og pólitísku ástandi í hinum ýmsu löndum. Mestu olíubirgðir heims er að finna í Írak, Íran, Sádí-Arabíu, Kúveit og Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Talið er að olían muni síðast renna til þurrðar í þessum heimshluta og því verður heimurinn háður olíu frá þessum löndum þegar fram í sækir.
Sérstaklega er mikla olíu að finna í Írak. Eftir Persaflóastríðið og hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001 er sérstaklega mikil spenna á milli Íraks og Bandaríkjanna. Spenna af þessu tagi getur haft truflandi áhrif á olíuframleiðslu og viðskipti og í versta falli valdið "olíustríði". Vilji þessara landa til þess að dæla upp og vinna olíu til útflutnings getur því haft mikil áhrif á heimsmarkaðinn í framtíðinni. Af þessum ástæðum vilja margir sérfræðingar meina að það sé komin tími til þess að þróa eitthvert annað eldsneyti sem gæti komið í staðinn fyrir olíu.
Um 95% af allri olíu heimsins er svokölluð hefðbundin olía (conventional oil) eða hráolía sem finnst neðanjarðar og neðansjávar. Þá er hægt að vinna olíu úr olíusandi sem hefur fundist í Kanada en einnig hefur fundist svokölluð þung olía í Venesúela.
Þegar þessi mál eru rædd er vert að hafa vinnslukostnað olíulinda ríkt í huga. Þannig liggur það nánast í eðli máls að menn hafa alla jafnan fyrst fundið og tekið til vinnslu þær olíulindir sem eru nærtækastar, aðgengilegastar og um leið yfirleitt ódýrastar í vinnslu. Þess vegna er við því að búast að lindir sem finnast á næstu áratugum, til dæmis á hafi úti, séu að meðaltali mun dýrari í vinnslu. Einnig kann vel að vera að heildarbirgðir olíu séu nær ótakmarkaðar í einhverjum fræðilegum skilningi en vinnanlegum birgðum séu engu að síður veruleg takmörk sett.
HeimildirOilcrisis.com OPEC Science News Online International Energy Outlook 2002
Ulrika Andersson. „Hvað er talið að olíubirgðir jarðar endist lengi?“ Vísindavefurinn, 25. júní 2002, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2529.
Ulrika Andersson. (2002, 25. júní). Hvað er talið að olíubirgðir jarðar endist lengi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2529
Ulrika Andersson. „Hvað er talið að olíubirgðir jarðar endist lengi?“ Vísindavefurinn. 25. jún. 2002. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2529>.