Til að segja fyrir um eldgos þarf að leggja mat á hugsanlega forboða. Þeim má skipta í langtíma- og skammtímaforboða. Langtímaforboðarnir tengjast oft og tíðum kvikusöfnun grunnt í jarðskorpunni, sem leiðir til jarðskjálfta, landriss, aukins jarðhita og breytinga á efnainnihaldi vatns. Langtímaforboðar sýna að eldfjall sé líklegt til að gjósa á næstu árum en erfitt getur verið að segja til um nákvæmlega hvenær það verður. Af íslenskum eldfjöllum hafa bæði Grímsvötn og Katla sýnt hegðun sem túlka má sem langtímaforboða eldgosa og því verður að hafa vara á vegna hugsanlegra eldgosa þar. Skammtímaforboðar eru hins vegar þegar kvika byrjar að brjóta sér leið til yfirborðs með krafti. Aðfærsluæð kviku síðustu kílómetrana í átt að yfirborði verður til og kvika streymir upp, oft hálfum til nokkrum klukkutímum áður en til goss kemur. Tíðir smáir jarðskjálftar verða og síritandi mælitæki geta numið skyndilegar jarðskorpuhreyfingar ef slík tæki eru til staðar. Ef þessir fyrirboðar eru greindir rétt nógu snemma þá má gefa út viðvörun um yfirvofandi eldgos. Þetta var til dæmis raunin í síðasta Heklugosi árið 2000. Þá greindu Páll Einarsson á Raunvísindastofnun Háskólans og jarðskjálftafræðingar Veðurstofunnar merki þess að kvika hefði byrjað að brjóta sér leið til yfirborðs og út frá því var metið að eldgos væri yfirvofandi. Almannavörnum ríkisins var gert viðvart og almenningur heyrði í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að eldgos yrði í Heklu innan hálftíma.
Mælanlegur aðdragandi gossins árið 2000 var 79 mínútur. Von jarðvísindamanna er sú að hægt verði að gefa út aðvaranir um yfirvofandi eldgos á sama hátt í framtíðinni. Á Vísindavefnum er að finna fleiri áhugaverð svör um eldgos, til dæmis:
- Hverjir rannsaka eldgos? eftir Freystein Sigmundsson
- Hvað er eldgos? eftir Ármann Höskuldsson
- Hvað er megineldstöð? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvaða eldfjall hefur gosið mest? eftir Sigurð Steinþórsson
- U.S. Geological Survey - ljósmynd: Dave McGarvie
- Hannes Mattsson