Sólin Sólin Rís 10:20 • sest 16:07 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 15:40 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:11 • Síðdegis: 23:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:43 • Síðdegis: 17:39 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:20 • sest 16:07 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 15:40 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:11 • Síðdegis: 23:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:43 • Síðdegis: 17:39 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað var endurreisnartímabilið og hvað var svona merkilegt við það í myndlist?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Orðið endurreisn er haft um það tímabil í mannkynssögunni sem tekur við af miðöldum.

Á ýmsum erlendum tungumálum er notast við orðið 'renaissance' en það merkir bókstaflega „endurfæðing“ og vísar til þess að endurreisnarmenn vildu margir endurvekja klassíska menningu Forngrikkja og Rómverja sem hafði fallið í gleymsku á miðöldum.

Sú venja að nota hugtakið endurreisn um sérstakt tímabil komst fyrst á um miðja 19. öld með verki franska sagnfræðingsins Jules Michelet (1798–1874) um sögu Frakklands. Áður höfðu menn talað um endurreisn einstakra sviða, til að mynda endurreisn í fræðum eða listum. Á 16. öldinni skrifaði ítalski málarinn Giorgio Vasari (1511–1574) um endurfæðingu listarinnar og notaði þá ítalska orðið rinascita.

Nú á dögum er oft miðað við að endurreisnin eigi rætur að rekja til Ítalíu en hafi síðan skotið rótum annars staðar í Evrópu. Vanalega er miðað við að þetta tímabil mannkynssögunnar hafi staðið frá 14. öld fram til síðari hluta þeirrar 16. Ítalska skáldið Dante (1265–1321), sem er kunnastur fyrir að hafa ort Gleðileikinn guðdómlega, er oft talinn standa á mörkum miðalda og endurreisnar og skáldbróðir hans, Petrarka (1304–1374), hefur verið kallaður fyrsti endurreisnarmaðurinn. Petrarka var þekktur fyrir andúð sína á miðöldum og hugtakið hinar myrku miðaldir er að nokkru leyti frá honum komið.

Hefðbundin aðgreining á list miðalda og endurreisnarinnar er á þann veg að með endurreisn hafi málarar og listamenn sagt skilið við innri sýn miðalda sem miðaði að einingu við guðdóminn, og þess í stað farið að líta út á við. Veraldleg ytri sýn tók þannig við af trúarlegri innri leit.

Þessi menningarsögulegu skil miðalda og endurreisnar eru þó ekki eins glögg og oft er látið í veðri vaka. Trúarleg verk miðalda víkja til að mynda alls ekki alfarið fyrir veraldlegri sýn endurreisnarinnar. Könnun á ítölskum málverkum sem máluð voru á árunum 1420–1520 sýnir að veraldleg viðfangsefni jukust eingöngu úr 5% í 20%. Það gæti þó skekkt niðurstöðu athugunarinnar að verk af trúarlegum toga eru líklegri til að varðveitast í kirkjum og klaustrum, heldur en veraldleg verk í eigu einstaklinga.

Í raun er þó margt sem bendir til þess að myndlistarmenn á Ítalíu hafi sýnt hinum ytri veruleika aukinn áhuga. Sumir endurreisnarmálarar tóku til dæmis upp á því að kryfja lík til að geta dregið upp nákvæmari mynd af mannslíkamanum. Antonio Pollaiuolo (um 1432–1498) er talinn vera fyrsti myndlistarmaðurinn sem gerði slíkt. Leonardo da Vinci (1452–1519), sem málaði Mónu Lísu, og Michelangelo Buonarroti (1475–1564), sem skreytti hvolfþak Sixtínsku kapellunnar í Vatíkaninu, fengust einnig við krufningar.

Koparstunga eftir Pollaiuolo frá því um 1475 sem sýnir nakta menn berjast.

Í myndlist á endurreisnartímanum einkenndist ýmislegt af nýjungum sem oft áttu sér þó fornar rætur. Endurreisnin er tími olíumálverka en áður hafði litduftið verið bundið með eggjum. Endurreisnin var einnig tími tréristumynda sem voru prentaðar á pappír og koparstunga var enn ein nýjung í myndlist endurreisnartímans.

Endurreisnarmálarar fóru einnig að mála óhefðbundin myndefni, nýjar tegundir af myndverkum koma fram. Á Ítalíu taka menn að mála mannamyndir, landslagsmyndir og kyrralífsmyndir.

Hægt er að lesa meira um þetta í bókinni Þættir úr menningarsögu, Nýja bókafélagið, Reykjavík 2004. Kaflinn "Endurreisn og miðaldir" eftir höfund þessa svars fjallar um sömu hluti. Texti svarsins fer nærri því sem þar stendur á bls. 97 og 106-7.

Mynd: Northwestern University

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

24.9.2004

Síðast uppfært

3.6.2021

Spyrjandi

Ásta Björg, f. 1986

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað var endurreisnartímabilið og hvað var svona merkilegt við það í myndlist?“ Vísindavefurinn, 24. september 2004, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4529.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2004, 24. september). Hvað var endurreisnartímabilið og hvað var svona merkilegt við það í myndlist? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4529

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað var endurreisnartímabilið og hvað var svona merkilegt við það í myndlist?“ Vísindavefurinn. 24. sep. 2004. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4529>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað var endurreisnartímabilið og hvað var svona merkilegt við það í myndlist?
Orðið endurreisn er haft um það tímabil í mannkynssögunni sem tekur við af miðöldum.

Á ýmsum erlendum tungumálum er notast við orðið 'renaissance' en það merkir bókstaflega „endurfæðing“ og vísar til þess að endurreisnarmenn vildu margir endurvekja klassíska menningu Forngrikkja og Rómverja sem hafði fallið í gleymsku á miðöldum.

Sú venja að nota hugtakið endurreisn um sérstakt tímabil komst fyrst á um miðja 19. öld með verki franska sagnfræðingsins Jules Michelet (1798–1874) um sögu Frakklands. Áður höfðu menn talað um endurreisn einstakra sviða, til að mynda endurreisn í fræðum eða listum. Á 16. öldinni skrifaði ítalski málarinn Giorgio Vasari (1511–1574) um endurfæðingu listarinnar og notaði þá ítalska orðið rinascita.

Nú á dögum er oft miðað við að endurreisnin eigi rætur að rekja til Ítalíu en hafi síðan skotið rótum annars staðar í Evrópu. Vanalega er miðað við að þetta tímabil mannkynssögunnar hafi staðið frá 14. öld fram til síðari hluta þeirrar 16. Ítalska skáldið Dante (1265–1321), sem er kunnastur fyrir að hafa ort Gleðileikinn guðdómlega, er oft talinn standa á mörkum miðalda og endurreisnar og skáldbróðir hans, Petrarka (1304–1374), hefur verið kallaður fyrsti endurreisnarmaðurinn. Petrarka var þekktur fyrir andúð sína á miðöldum og hugtakið hinar myrku miðaldir er að nokkru leyti frá honum komið.

Hefðbundin aðgreining á list miðalda og endurreisnarinnar er á þann veg að með endurreisn hafi málarar og listamenn sagt skilið við innri sýn miðalda sem miðaði að einingu við guðdóminn, og þess í stað farið að líta út á við. Veraldleg ytri sýn tók þannig við af trúarlegri innri leit.

Þessi menningarsögulegu skil miðalda og endurreisnar eru þó ekki eins glögg og oft er látið í veðri vaka. Trúarleg verk miðalda víkja til að mynda alls ekki alfarið fyrir veraldlegri sýn endurreisnarinnar. Könnun á ítölskum málverkum sem máluð voru á árunum 1420–1520 sýnir að veraldleg viðfangsefni jukust eingöngu úr 5% í 20%. Það gæti þó skekkt niðurstöðu athugunarinnar að verk af trúarlegum toga eru líklegri til að varðveitast í kirkjum og klaustrum, heldur en veraldleg verk í eigu einstaklinga.

Í raun er þó margt sem bendir til þess að myndlistarmenn á Ítalíu hafi sýnt hinum ytri veruleika aukinn áhuga. Sumir endurreisnarmálarar tóku til dæmis upp á því að kryfja lík til að geta dregið upp nákvæmari mynd af mannslíkamanum. Antonio Pollaiuolo (um 1432–1498) er talinn vera fyrsti myndlistarmaðurinn sem gerði slíkt. Leonardo da Vinci (1452–1519), sem málaði Mónu Lísu, og Michelangelo Buonarroti (1475–1564), sem skreytti hvolfþak Sixtínsku kapellunnar í Vatíkaninu, fengust einnig við krufningar.

Koparstunga eftir Pollaiuolo frá því um 1475 sem sýnir nakta menn berjast.

Í myndlist á endurreisnartímanum einkenndist ýmislegt af nýjungum sem oft áttu sér þó fornar rætur. Endurreisnin er tími olíumálverka en áður hafði litduftið verið bundið með eggjum. Endurreisnin var einnig tími tréristumynda sem voru prentaðar á pappír og koparstunga var enn ein nýjung í myndlist endurreisnartímans.

Endurreisnarmálarar fóru einnig að mála óhefðbundin myndefni, nýjar tegundir af myndverkum koma fram. Á Ítalíu taka menn að mála mannamyndir, landslagsmyndir og kyrralífsmyndir.

Hægt er að lesa meira um þetta í bókinni Þættir úr menningarsögu, Nýja bókafélagið, Reykjavík 2004. Kaflinn "Endurreisn og miðaldir" eftir höfund þessa svars fjallar um sömu hluti. Texti svarsins fer nærri því sem þar stendur á bls. 97 og 106-7.

Mynd: Northwestern University...