Sólin Sólin Rís 11:22 • sest 15:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:29 • Sest 12:42 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:13 • Síðdegis: 15:25 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:29 • Síðdegis: 21:40 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:22 • sest 15:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:29 • Sest 12:42 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:13 • Síðdegis: 15:25 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:29 • Síðdegis: 21:40 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um orrustuna við Midway?

Skúli Sæland

Orrustan við Midway var ein örlagaríkasta sjóorrusta seinni heimsstyrjaldarinnar. Hún var háð milli japanska flotans annars vegar og bandaríska flotans hins vegar við kóraleyjuna Midway í norðurhluta Kyrrahafsins dagana 3.-6. júní 1942.

Það þótti mjög sérstakt að orrustan var nær eingöngu háð með flugvélum frá flugmóðurskipum stríðandi aðila. Með þessari orrustu sönnuðu flugmóðurskipin endanlega gildi sitt og ruddu orrustuskipunum úr sessi sem mikilvægustu herskipum stríðsins. Bandaríkjamönnum tókst loks að binda endi á nær óslitna sigurgöngu Japana síðan þeir réðust á flotahöfn Bandaríkjamanna við Perluhöfn (Pearl harbor) 7. desember 1941.

Fyrstu sex mánuði stríðsins á Kyrrahafi höfðu Japanir náð að vinna hreint ótrúlega sigra. Tvennt skyggði þó á sigurgleði þeirra. Loftárás flugforingjans Doolittle á Japan sýndi þeim fram á hversu berskjaldaðar eyjarnar voru fyrir árásum og með orrustunni á Kóralhafi tókst bandamönnum að hindra fyrirhugaða innrás Japana á Nýju-Gíneu. Flotaforingjar Japana ákváðu því að reyna að eyða flugmóðurskipaflota Bandaríkjamanna. Japanir höfðu fleiri flugmóðurskip en Bandaríkjamenn og sömuleiðis þótti Japönum það nauðsynlegt að ná flugbækistöðvum á Midway og Aleutian-eyjaklasanum við Alaska til að geta myndað framvarðstöðvar gegn Bandaríkjamönnum. Herforingjar Japana töldu að ef þessi áætlun heppnaðist þá myndi líða að minnsta kosti eitt ár þar til bandaríski flotinn næði upp styrk til að ógna þeim japanska.

Jafnvel þótt tvö af flugmóðurskipunum sem áttu upphaflega að taka þátt í árásinni væru löskuð eftir orrustuna á Kóralhafi ákvað yfirmaður japanska flotans, Isoroku Yamamoto aðmíráll, að flýta áætlunum um innrás á eyjarnar. Yamamoto hafði yfir að ráða öflugasta árásarflota sögunnar, alls 200 skip og 700 flugvélar. Hann ákvað að deila flotastyrknum upp í fimm flotadeildir. Markmið hans var að blekkja Bandaríkjamenn og egna þá til viðbragða við fyrirhuguðum árásum á Midway og Aleutia-eyjaklasanum.

Japanir töldu flotadeildir Bandaríkjamanna vera staðsettar við Perluhöfn í Hawaii og því staðsetti Yamamoto kafbáta á milli Perluhafnar og Midway til að frétta af ferðum þeirra. Öflugustu flugmóðurskip Japana, Akagi, Kaga, Hiryu og Soryu, mynduðu eina flotadeild. Þau áttu að tryggja yfirráð í lofti við Midway og lama varnir eyjarinnar. Tvær aðrar flotadeildir innihéldu liðsflutningaskip ásamt herskipum þeim til varnar. Þeim var ætlað annars vegar að ráðast á Midway og hins vegar að ráðast gegn Aleutia-eyjunum. Þegar Bandaríkjamenn fregnuðu af árásunum og sendu herskip sín til aðstoðar átti öflugasta flotadeild Yamamotos, sem hélt sig afsíðis í töluverðri fjarlægð, að sigla hraðbyri á vettvang til að gjöreyða óvininum. Þessi meginfloti aðmírálsins innihélt flest öflugustu orrustuskip Japana og þar á meðal bryntröllið Yamamoto, flaggskip aðmírálsins sjálfs.



Chuichi Nagumo (1887-1944) aðmíráll stýrði flugmóðurskipaflota Japana við Midway. Hann var gagnrýndur harðlega heima fyrir eftir orrustuna við Midway og töldu margir að hann hefði átt að standa sig betur. Undir lok stríðsins kaus hann frekar að fremja sjálfsmorð en að gefast upp fyrir Bandaríkjamönnum.

Leyniþjónustum bandamanna tókst hins vegar að ráða dulmálslykil japanska flotans um þetta leyti og var því ljós öll hernaðaráætlun Japana. Þeir vissu því um allan flotastyrk þeirra og hvar herskip þeirra voru staðsett á hverju augnabliki. Bandaríkjamenn höfðu þó átt erfitt með að ákvarða hvort Midway eða Aleutia-eyjarnar væru aðalskotmarkið. Ungum liðsforingja, Jasper Holmes, datt þá það snjallræði í hug að láta yfirmenn hersins á Midway kalla eftir aðstoð við vatnsöflun og segja á óbrenglaðri ensku að vatnshreinsibúnaðurinn væri bilaður. Stuttu síðar sendi japanski kafbáturinn I-168 tilkynningu um að skotmarkið ætti við vatnsskort að etja. Þetta gerði Bandaríkjamönnum kleift að safna flotastyrk sínum saman og ráðast á flugmóðurskipaflota Japana á meðan mestallur floti þeirra, þar á meðal þrjú flugmóðurskip, var of fjarri til að geta veitt aðstoð. Chester Nimitz aðmíráll hafði þá einungis flugmóðurskipin Hornet og Enterprise en með ótrúlegu harðfylgi tókst viðgerðarliði flotans að gera flugmóðurskipið Yorktown bardagahæft, rúmum tveimur dögum eftir að það hafði nánast verið gereyðilagt í orrustunni á Kóralhafi.

Nimitz sendi þá bandaríska flotann um 350 mílur norðaustur við Midway þar sem hann átti að bíða færis. Þetta gátu þeir gert það snemma að kafbátar Japana náðu ekki að komast í varðstöður sínar á milli Perluhafnar og Midway. Það er athyglisvert að njósnastöðvar Japana urðu varar við það að flugmóðurskip þeirra höfðu haldið á haf út frá Perluhöfn en þeim upplýsingum var ekki komið áleiðis til Yamamotos aðmíráls vegna strangs loftskeytabanns vegna flotaleiðangursins!

Sjóorrustan hófst svo 3. júní með því að sprengjuflugvélar frá Midway gerðu misheppnaða árás á japanska flotann sem var þá staddur um 220 mílum suðvestan við þann bandaríska. Árla næsta morgunn svöruðu japönsku flugvélarnar heiftarlega fyrir sig og nánast eyðilögðu öll hernaðarmannvirkin á eyjunum á meðan sprengjuvélar Bandaríkjamanna gerðu enn og aftur misheppnaðar árásir á japanska flotann.

Japönsku flugmóðurskipin voru í þann mund að senda sprengjuvélar sínar í síðari árás sína á Midway þegar þeir áttuðu sig á nærveru óvinaflotans. Chuichi Nagumo varaaðmíráll fyrirskipaði að hætt skyldi við að senda vélarnar til árása á Midway en beina þeim heldur gegn óvinaflotanum. Japanir hófu í óða önn að reyna að útbúa flugvélar sínar með sprengjum, tundurskeytum og eldsneyti en nú var orðið allt of seint að bregðast við. Frank Fletcher aðmíráll hafði gefið fyrirskipun um árás frá flaggskipi sínu Yorktown. Japönsku orrustuvélunum „Zeke” tókst þó nærri að gereyða bandarísku „Devastator” tundurskeytavélunum sem gerðu fyrstar árás klukkan 9:20, en við það höfðu þær orðið að elta flugvélarnar niður að haffletinum. Þetta varð til þess að „Dauntless” steypiflugvélar flotans sem komu í kjölfar tundurskeytavélanna þurftu ekki að kljást við neinar orrustuvélar. Steypivélarnar höfðu nánast villst af leið en tókst fyrir heppni að finna flota Japana. Flugmóðurskipin urðu nú stöðugt að reyna að víkja sér undan aðvífandi sprengjum á sama tíma og þau reyndu að koma flugvélum sínum í loftið. Afleiðingin varð sú að flugmóðurskipin Akagi, Kaga og Soryu eyðilögðust.


Raymond Ames Spruance (1886-1969) varaaðmíráll tók við stjórn herskipa Bandaríkjamanna í miðri orrustu, þegar flaggskipi yfirmanns hans var sökkt. Spruance hlaut mestan heiðurinn af sigri Bandaríkjamanna, en margir hafa þó síðar bent á að úrslit orrustunnar voru þegar ráðin þegar Spruance tók við stjórn.

Síðar sama dag skaddaðist fjórða flugmóðurskipið Hiryu svo mikið að það sökk daginn eftir. Óförum Japana við Midway var þó ekki lokið því sama dag var Mikuma, þungu beitiskipi þeirra, sökkt.

Flugvélum Hiryu hafði þó tekist að laska bandaríska flugmóðurskipið Yorktown svo mikið að áhöfn þess yfirgaf það. Við það tók aðmírállinn Raymond Spruance, á flugmóðurskipinu Enterprise, við stjórn flotans og hlaut síðar mestan heiðurinn af sigri Bandaríkjamanna við Midway. Það kom í hlut japanska kafbátsins I-168 undir stjórn kafbátaforingjans Yahachi Tanabe að sökkva flugmóðurskipinu og tundurspillinum Hamman sem gætti þess. Þetta gerðist 6. júní.

Það var gráglettni örlaganna því það var loftskeyti frá þessum sama kafbáti sem gerði Bandaríkjamönnum kleift að ráða endanlega í dulmál Japana. En með því að sökkva hinu 19.875 tonna Yorktown hafði kafbátnum tekist að sökkva stærsta feng japanskra kafbáta til þessa. Raunar urðu þetta einu skipin sem kafbátnum tókst að sökkva í stríðinu.



Bandaríska flugmóðurskipið Yorktown verður fyrir sprengju í árás flugvéla frá japanska flugmóðurskipinu Hiryu við Midway.

Missir flugmóðurskipanna var Japönum þvílíkt áfall að þeir gáfu strax öll áform um innrás á Midway upp á bátinn og héldu á brott með leifarnar af flotanum aðfaranótt 5. júní. Bandaríkjamenn máttu þakka þessum sigri að miklu leyti áræðni, góðum upplýsingum dulmálsbrjóta sinna og töluverðri heppni. Vert er að geta þess að árangur japönsku flugmannanna við árásina á Yorktown sýndi hversu langtum framar þeir stóðu Bandaríkjamönnum við lofthernað gegn skipum um þetta leyti. Þrátt fyrir skipulagðar varnir og vitandi af komu japönsku árásarvélanna mistókst Bandaríkjamönnum að verjast árásinni. Í raun féll allt með bandarísku flugmönnunum þegar þeir náðu að koma japönsku skipunum að óvörum.

Vatnaskil urðu í stríðinu á Kyrrahafi við þessa sjóorrustu. Sókn Japana hafði verið stöðvuð og þeir beðið hroðalegan ósigur. Þeir náðu aldrei að bæta sér upp missi flugmóðurskipanna né hundrað þrautþjálfaðra flugmannanna. Þótt nú væri jafnræði í flotastyrk þjóðanna þá voru efnahagslegir yfirburðir Bandaríkjanna margfaldir á við Japani. Því voru þeir fljótir að ná yfirburðastöðu á Kyrrahafi og hefja sókn til Japans. Það skipti líka sköpum að Bandaríkjamenn höfðu náð að brjóta dulmálslykil Japana. Þó að Japanir skiptu reglulega um dulmálslykil í stríðinu þá var hann byggður að hluta til á Enigma-dulmálsvél Þjóðverja sem bandamenn höfðu komist yfir og gátu þannig ávallt lesið dulmál andstæðingsins.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Höfundur

Skúli Sæland

sagnfræðingur

Útgáfudagur

13.9.2004

Spyrjandi

Elliði Jónsson, f. 1989

Tilvísun

Skúli Sæland. „Hvað getið þið sagt mér um orrustuna við Midway?“ Vísindavefurinn, 13. september 2004, sótt 26. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4508.

Skúli Sæland. (2004, 13. september). Hvað getið þið sagt mér um orrustuna við Midway? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4508

Skúli Sæland. „Hvað getið þið sagt mér um orrustuna við Midway?“ Vísindavefurinn. 13. sep. 2004. Vefsíða. 26. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4508>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um orrustuna við Midway?
Orrustan við Midway var ein örlagaríkasta sjóorrusta seinni heimsstyrjaldarinnar. Hún var háð milli japanska flotans annars vegar og bandaríska flotans hins vegar við kóraleyjuna Midway í norðurhluta Kyrrahafsins dagana 3.-6. júní 1942.

Það þótti mjög sérstakt að orrustan var nær eingöngu háð með flugvélum frá flugmóðurskipum stríðandi aðila. Með þessari orrustu sönnuðu flugmóðurskipin endanlega gildi sitt og ruddu orrustuskipunum úr sessi sem mikilvægustu herskipum stríðsins. Bandaríkjamönnum tókst loks að binda endi á nær óslitna sigurgöngu Japana síðan þeir réðust á flotahöfn Bandaríkjamanna við Perluhöfn (Pearl harbor) 7. desember 1941.

Fyrstu sex mánuði stríðsins á Kyrrahafi höfðu Japanir náð að vinna hreint ótrúlega sigra. Tvennt skyggði þó á sigurgleði þeirra. Loftárás flugforingjans Doolittle á Japan sýndi þeim fram á hversu berskjaldaðar eyjarnar voru fyrir árásum og með orrustunni á Kóralhafi tókst bandamönnum að hindra fyrirhugaða innrás Japana á Nýju-Gíneu. Flotaforingjar Japana ákváðu því að reyna að eyða flugmóðurskipaflota Bandaríkjamanna. Japanir höfðu fleiri flugmóðurskip en Bandaríkjamenn og sömuleiðis þótti Japönum það nauðsynlegt að ná flugbækistöðvum á Midway og Aleutian-eyjaklasanum við Alaska til að geta myndað framvarðstöðvar gegn Bandaríkjamönnum. Herforingjar Japana töldu að ef þessi áætlun heppnaðist þá myndi líða að minnsta kosti eitt ár þar til bandaríski flotinn næði upp styrk til að ógna þeim japanska.

Jafnvel þótt tvö af flugmóðurskipunum sem áttu upphaflega að taka þátt í árásinni væru löskuð eftir orrustuna á Kóralhafi ákvað yfirmaður japanska flotans, Isoroku Yamamoto aðmíráll, að flýta áætlunum um innrás á eyjarnar. Yamamoto hafði yfir að ráða öflugasta árásarflota sögunnar, alls 200 skip og 700 flugvélar. Hann ákvað að deila flotastyrknum upp í fimm flotadeildir. Markmið hans var að blekkja Bandaríkjamenn og egna þá til viðbragða við fyrirhuguðum árásum á Midway og Aleutia-eyjaklasanum.

Japanir töldu flotadeildir Bandaríkjamanna vera staðsettar við Perluhöfn í Hawaii og því staðsetti Yamamoto kafbáta á milli Perluhafnar og Midway til að frétta af ferðum þeirra. Öflugustu flugmóðurskip Japana, Akagi, Kaga, Hiryu og Soryu, mynduðu eina flotadeild. Þau áttu að tryggja yfirráð í lofti við Midway og lama varnir eyjarinnar. Tvær aðrar flotadeildir innihéldu liðsflutningaskip ásamt herskipum þeim til varnar. Þeim var ætlað annars vegar að ráðast á Midway og hins vegar að ráðast gegn Aleutia-eyjunum. Þegar Bandaríkjamenn fregnuðu af árásunum og sendu herskip sín til aðstoðar átti öflugasta flotadeild Yamamotos, sem hélt sig afsíðis í töluverðri fjarlægð, að sigla hraðbyri á vettvang til að gjöreyða óvininum. Þessi meginfloti aðmírálsins innihélt flest öflugustu orrustuskip Japana og þar á meðal bryntröllið Yamamoto, flaggskip aðmírálsins sjálfs.



Chuichi Nagumo (1887-1944) aðmíráll stýrði flugmóðurskipaflota Japana við Midway. Hann var gagnrýndur harðlega heima fyrir eftir orrustuna við Midway og töldu margir að hann hefði átt að standa sig betur. Undir lok stríðsins kaus hann frekar að fremja sjálfsmorð en að gefast upp fyrir Bandaríkjamönnum.

Leyniþjónustum bandamanna tókst hins vegar að ráða dulmálslykil japanska flotans um þetta leyti og var því ljós öll hernaðaráætlun Japana. Þeir vissu því um allan flotastyrk þeirra og hvar herskip þeirra voru staðsett á hverju augnabliki. Bandaríkjamenn höfðu þó átt erfitt með að ákvarða hvort Midway eða Aleutia-eyjarnar væru aðalskotmarkið. Ungum liðsforingja, Jasper Holmes, datt þá það snjallræði í hug að láta yfirmenn hersins á Midway kalla eftir aðstoð við vatnsöflun og segja á óbrenglaðri ensku að vatnshreinsibúnaðurinn væri bilaður. Stuttu síðar sendi japanski kafbáturinn I-168 tilkynningu um að skotmarkið ætti við vatnsskort að etja. Þetta gerði Bandaríkjamönnum kleift að safna flotastyrk sínum saman og ráðast á flugmóðurskipaflota Japana á meðan mestallur floti þeirra, þar á meðal þrjú flugmóðurskip, var of fjarri til að geta veitt aðstoð. Chester Nimitz aðmíráll hafði þá einungis flugmóðurskipin Hornet og Enterprise en með ótrúlegu harðfylgi tókst viðgerðarliði flotans að gera flugmóðurskipið Yorktown bardagahæft, rúmum tveimur dögum eftir að það hafði nánast verið gereyðilagt í orrustunni á Kóralhafi.

Nimitz sendi þá bandaríska flotann um 350 mílur norðaustur við Midway þar sem hann átti að bíða færis. Þetta gátu þeir gert það snemma að kafbátar Japana náðu ekki að komast í varðstöður sínar á milli Perluhafnar og Midway. Það er athyglisvert að njósnastöðvar Japana urðu varar við það að flugmóðurskip þeirra höfðu haldið á haf út frá Perluhöfn en þeim upplýsingum var ekki komið áleiðis til Yamamotos aðmíráls vegna strangs loftskeytabanns vegna flotaleiðangursins!

Sjóorrustan hófst svo 3. júní með því að sprengjuflugvélar frá Midway gerðu misheppnaða árás á japanska flotann sem var þá staddur um 220 mílum suðvestan við þann bandaríska. Árla næsta morgunn svöruðu japönsku flugvélarnar heiftarlega fyrir sig og nánast eyðilögðu öll hernaðarmannvirkin á eyjunum á meðan sprengjuvélar Bandaríkjamanna gerðu enn og aftur misheppnaðar árásir á japanska flotann.

Japönsku flugmóðurskipin voru í þann mund að senda sprengjuvélar sínar í síðari árás sína á Midway þegar þeir áttuðu sig á nærveru óvinaflotans. Chuichi Nagumo varaaðmíráll fyrirskipaði að hætt skyldi við að senda vélarnar til árása á Midway en beina þeim heldur gegn óvinaflotanum. Japanir hófu í óða önn að reyna að útbúa flugvélar sínar með sprengjum, tundurskeytum og eldsneyti en nú var orðið allt of seint að bregðast við. Frank Fletcher aðmíráll hafði gefið fyrirskipun um árás frá flaggskipi sínu Yorktown. Japönsku orrustuvélunum „Zeke” tókst þó nærri að gereyða bandarísku „Devastator” tundurskeytavélunum sem gerðu fyrstar árás klukkan 9:20, en við það höfðu þær orðið að elta flugvélarnar niður að haffletinum. Þetta varð til þess að „Dauntless” steypiflugvélar flotans sem komu í kjölfar tundurskeytavélanna þurftu ekki að kljást við neinar orrustuvélar. Steypivélarnar höfðu nánast villst af leið en tókst fyrir heppni að finna flota Japana. Flugmóðurskipin urðu nú stöðugt að reyna að víkja sér undan aðvífandi sprengjum á sama tíma og þau reyndu að koma flugvélum sínum í loftið. Afleiðingin varð sú að flugmóðurskipin Akagi, Kaga og Soryu eyðilögðust.


Raymond Ames Spruance (1886-1969) varaaðmíráll tók við stjórn herskipa Bandaríkjamanna í miðri orrustu, þegar flaggskipi yfirmanns hans var sökkt. Spruance hlaut mestan heiðurinn af sigri Bandaríkjamanna, en margir hafa þó síðar bent á að úrslit orrustunnar voru þegar ráðin þegar Spruance tók við stjórn.

Síðar sama dag skaddaðist fjórða flugmóðurskipið Hiryu svo mikið að það sökk daginn eftir. Óförum Japana við Midway var þó ekki lokið því sama dag var Mikuma, þungu beitiskipi þeirra, sökkt.

Flugvélum Hiryu hafði þó tekist að laska bandaríska flugmóðurskipið Yorktown svo mikið að áhöfn þess yfirgaf það. Við það tók aðmírállinn Raymond Spruance, á flugmóðurskipinu Enterprise, við stjórn flotans og hlaut síðar mestan heiðurinn af sigri Bandaríkjamanna við Midway. Það kom í hlut japanska kafbátsins I-168 undir stjórn kafbátaforingjans Yahachi Tanabe að sökkva flugmóðurskipinu og tundurspillinum Hamman sem gætti þess. Þetta gerðist 6. júní.

Það var gráglettni örlaganna því það var loftskeyti frá þessum sama kafbáti sem gerði Bandaríkjamönnum kleift að ráða endanlega í dulmál Japana. En með því að sökkva hinu 19.875 tonna Yorktown hafði kafbátnum tekist að sökkva stærsta feng japanskra kafbáta til þessa. Raunar urðu þetta einu skipin sem kafbátnum tókst að sökkva í stríðinu.



Bandaríska flugmóðurskipið Yorktown verður fyrir sprengju í árás flugvéla frá japanska flugmóðurskipinu Hiryu við Midway.

Missir flugmóðurskipanna var Japönum þvílíkt áfall að þeir gáfu strax öll áform um innrás á Midway upp á bátinn og héldu á brott með leifarnar af flotanum aðfaranótt 5. júní. Bandaríkjamenn máttu þakka þessum sigri að miklu leyti áræðni, góðum upplýsingum dulmálsbrjóta sinna og töluverðri heppni. Vert er að geta þess að árangur japönsku flugmannanna við árásina á Yorktown sýndi hversu langtum framar þeir stóðu Bandaríkjamönnum við lofthernað gegn skipum um þetta leyti. Þrátt fyrir skipulagðar varnir og vitandi af komu japönsku árásarvélanna mistókst Bandaríkjamönnum að verjast árásinni. Í raun féll allt með bandarísku flugmönnunum þegar þeir náðu að koma japönsku skipunum að óvörum.

Vatnaskil urðu í stríðinu á Kyrrahafi við þessa sjóorrustu. Sókn Japana hafði verið stöðvuð og þeir beðið hroðalegan ósigur. Þeir náðu aldrei að bæta sér upp missi flugmóðurskipanna né hundrað þrautþjálfaðra flugmannanna. Þótt nú væri jafnræði í flotastyrk þjóðanna þá voru efnahagslegir yfirburðir Bandaríkjanna margfaldir á við Japani. Því voru þeir fljótir að ná yfirburðastöðu á Kyrrahafi og hefja sókn til Japans. Það skipti líka sköpum að Bandaríkjamenn höfðu náð að brjóta dulmálslykil Japana. Þó að Japanir skiptu reglulega um dulmálslykil í stríðinu þá var hann byggður að hluta til á Enigma-dulmálsvél Þjóðverja sem bandamenn höfðu komist yfir og gátu þannig ávallt lesið dulmál andstæðingsins.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir: