Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaMið-AusturlöndEru al-Kaeda skipulögð samtök eða bara samheiti sem er notað yfir íslamska hryðjuverkamenn?
Al-Kaeda eru svo sannarlega skipulögð alþjóðleg hryðjuverkasamtök undir forystu Osama bin Ladens. Hins vegar hefur borið á því að undanförnu að nafnið sé einnig notað yfir nánast öll íslömsk hryðjuverkasamtök sem starfa eftir svipaðri hugmyndafræði, jafnvel þótt þau tengist al-Kaeda ekki beint.
Á þessu er sú skýring að al-Kaeda hreyfingin hefur mikið breyst og þróast á síðustu misserum. Í grófum dráttum má lýsa þessari breytingu þannig að forsvarsmenn al-Kaeda eru nú að mestu hættir að koma sjálfir beint að skipulagningu hryðjuverka. Í staðinn hafa samtökin tekið nokkurs konar hugmyndafræðilega forystu meðal þeirra hryðjuverkasamtaka sem berjast í nafni íslam. Forystumenn al-Kaeda senda frá sér almennt orðaðar yfirlýsingar og leggja línurnar um hver sé helsti óvinurinn á hverjum tíma, hvernig haga skuli baráttunni og hvar best sé að ráðast til atlögu.
Af þessu leiðir að sumir fræðimenn eru að nokkru hættir að tala eingöngu um al-Kaeda í merkingunni „hryðjuverkasamtökin al-Kaeda“ og farnir að ræða um samtökin sem eins konar hugmyndafræði- eða hugmyndabanka fyrir hina nýju kynslóð íslamskra hryðjuverkasamtaka. Að þessu leyti má því kannski segja að al-Kaeda sé farið að standa undir nafni því að heitið er arabískt orð sem mætti þýða sem 'grunnurinn' eða 'undirstaðan'.
Al-Kaeda samtökin spruttu upp úr starfi Osama bin Ladens í Afganistan á níunda áratug tuttugustu aldar en hann annaðist þar nýliðun og þjálfun þeirra útlendinga sem tóku þátt í baráttu heimamanna gegn innrásarliði Sovétríkjanna. Þessir erlendu málaliðar eða mujahedínar voru mörg þúsund talsins og komu frá ríflega 50 löndum.
Talið er að bin Laden hafi stofnað al-Kaeda um 1988 í þeim tilgangi að fá þessa menn til að halda baráttunni áfram í sínum heimalöndum. Það gekk eftir þegar Sovétmenn hrökkluðust burt frá Afganistan því að þá héldu margir þessara erlendu málaliða til síns heima, vopnaðir boðskap Osama bin Ladens. Sumir mynduðu litlar al-Kaeda sellur og biðu fyrirmæla bin Ladens en margir gengu inn í önnur samtök og hleyptu þá annaðhvort nýju lífi í gömul hryðjuverkasamtök eða hreinlega settu ný samtök á laggirnar.
Baráttumálin voru mörg og mismunandi, allt eftir pólitísku landslagi heima fyrir, en veigamikill þáttur var andstaða gegn vestrænum áhrifum og spillingu eða mengun hins íslamska heims sem er einmitt rauði þráðurinn í boðskap Osama bin Ladens.
Innan þessa fjölmenna hóps málaliða, sem allir höfðu sótt innblástur á sama stað og bundist órofa böndum, myndaðist afar víðfeðmt tengslanet manna með svipaðar hugsjónir og hugmyndir. Þannig er ekki talið að Osama bin Laden hafi nokkurn tíma haft óskorað vald yfir þessum mönnum eða þeim ýmsu hryðjuverkasamtökum sem þeir tengdust heldur hafi aðeins verið um að ræða nokkurs konar pólitíska samstöðu og samhug. Þó er vitað að samvinnan var oft náin og stundum voru menn eða „sérfræðingar“ lánaðir til starfa á milli samtaka og stundum fjármagnaði al-Kaeda aðgerðir annarra samtaka.
Sjálf al-Kaeda samtökin höfðu bækistöðvar sínar í Súdan á árunum 1991 til 1996 þegar þau fluttu sig um set til Afganistans. Samtökin starfræktu einnig sellur í um það bil hundrað löndum, þar á meðal mörgum Evrópulöndum.
Segja má að fyrrnefnd breyting á starfsháttum al-Kaeda, frá því að skipuleggja og framkvæma sín eigin hryðjuverk og yfir í það hugmyndafræðilega forystuhlutverk sem samtökin hafa í dag, hafi orðið í kjölfar árásar Bandaríkjamanna á Afganistan 2001. Þá tvístruðust leiðtogar al-Kaeda á flótta og hafa æ síðan þurft að treysta meira á ítök sín og áhrif á önnur hryðjuverkasamtök til að koma hryðjuverkum í framkvæmd.
Oft er sagt í fréttum að samtök tengd al-Kaeda hafi gert hitt eða þetta og víst er að mörg af stærstu hryðjuverkum síðari ára hafa verið framin af samtökum sem vitað er að tengjast al-Kaeda á einhvern hátt. Hins vegar hefur reynst ómögulegt að sannreyna hversu mikil áhrif Osama bin Laden og aðrir forystumenn al-Kaeda hafa á önnur hryðjuverkasamtök múslima. Deilt er um hvort þessi tengsl séu eingöngu hugmyndafræðilegs eðlis og gegnum kunningsskap manna eða hvort hægt sé að halda því fram að leiðtogar al-Kaeda fjarstýri öðrum samtökum til að vinna sín verk.
Um eitt eru þó flestir fræðimenn sammála og það er að þó að Bandaríkjastjórn hafi tekist að kippa fótunum undan getu al-Kaeda samtakanna sjálfra til að framkvæma hryðjuverk þá hafi innrásin í Afganistan og Írak haft þau áhrif að æ fleiri öfgasinnaðir múslimar hafa snúist til trúar á boðskap og hugmyndafræði al-Kaeda. Af því leiðir að samtökin þurfa ekki lengur á því að halda að skipuleggja sjálf hryðjuverk fyrir málstaðinn, því að svo margir aðrir eru um hituna og þeim virðist aðeins fara fjölgandi.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Brynhildur Ólafsdóttir. „Eru al-Kaeda skipulögð samtök eða bara samheiti sem er notað yfir íslamska hryðjuverkamenn?“ Vísindavefurinn, 3. ágúst 2004, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4439.
Brynhildur Ólafsdóttir. (2004, 3. ágúst). Eru al-Kaeda skipulögð samtök eða bara samheiti sem er notað yfir íslamska hryðjuverkamenn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4439
Brynhildur Ólafsdóttir. „Eru al-Kaeda skipulögð samtök eða bara samheiti sem er notað yfir íslamska hryðjuverkamenn?“ Vísindavefurinn. 3. ágú. 2004. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4439>.