Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Af hverju fær maður blöðrur við það að brenna sig og þegar maður sópar eða rakar?
Hér er einnig svarað spurningunni:
Af hverju kemur blóð úr blöðru þegar hún springur?
Flestar blöðrur myndast vegna þess að húðin verður fyrir ertingu eða skemmdum af völdum einhvers í umhverfinu. Blöðrur geta þó líka stafað af sjúkdómi eða kvilla.
Blöðrur myndast undir húðþekjunni (e. epidermis). Þær eru venjulega kringlóttar að lögun og allt frá því að vera á stærð við títuprjónshaus til þess að vera um eða yfir sentimetri í þvermál. Blöðrur myndast þegar blóðvökvi (e. serum – tær vökvi sem skilst frá blóði sem er að storkna) safnast undir húð sem orðið hefur fyrir ertingu og húðin lyftist upp í kjölfarið. Vökvafylltar blöðrurnar vernda í raun skemmda vefinn undir meðan hann er að jafna sig. Blöðrum geta fylgt sársauki, roði eða kláði, allt eftir því hver orsökin er.
Blöðrur myndast oft á tánum
Í flestum tilvikum er stök blaðra afleiðing núnings eða minni háttar bruna, oftast á höndum eða fótum. Þegar um er að ræða stöðugan núning á óvarinni húð yfir beini minnkar blóðflæði í vefi á svæðinu og þá bregst húðin við með því að mynda blöðru. Ef um bruna er að ræða fara vefjaskemmdir eftir því hversu djúpt bruninn nær ofan í húðina. Við fyrsta stigs bruna myndast ekki blöðrur, enda aðeins allra efstu lög húðarinnar sem skemmast.
Hins vegar geta blöðruklasar komið fram vegna alvarlegs bruna, snertihúðbólgu, skordýrabits, veirusýkinga, lyfja- eða efnaáhrifa eða sjálfsofnæmis.
Ef við lítum aðeins nánar á helstu orsakir blöðrumyndunar þá eru þær eftirfarandi:
Núningur: Ef óvarin húð verður fyrir núningi, til dæmis þegar haldið er um skaft á kústi eða hrífu eða gengið er í nýjum skóm er hætta á að blöðrur myndist. Blöðrur geta myndast eftir kröftugan núning í stuttan tíma, ólíkt siggi og líkþornum sem myndast eftir langvarandi núning.
Bruni: Logar, gufa, sjóðheitir vökvar, til dæmis í baði eða nuddpotti, eða snerting við heitt yfirborð, til dæmis hellu á eldavél, geta leitt til blöðrumyndunar. Sömu sögu er að segja um slæman sólbruna eða aðrar gerðir geislunar.
Snertihúðbólga: Blöðrur kunna að myndast þegar húð kemst í snertingu við ertandi efni, snyrtivörur eða eiturefni frá plöntum og dýrum, til dæmis brennimjólk, skordýra- og köngulóabit og skordýrastungur.
Lyfjaáhrif: Margri fá blöðrur í kjölfar lyfjatöku í töflu- eða áburðarformi. Ef slíkt gerist við lyfjatöku er nauðsynlegt að hafa samband við lækni.
Sjálfsofnæmi: Blöðrumyndun er þekkt einkenni nokkurra sjálfsofnæmiskvilla. Má þar nefna langvinna blöðrusótt (e. pemphitus vulgaris) sem getur orðið banvænn húðsjúkdómur. Sjúkdómurinn lýsir sér í fyrstu sem blöðrur í munni sem breiðast stundum út á höfuðið og aðra líkamshluta. Aumar blöðrurnar verða hráar og skorpnaðar áður en þær springa. Aðrir kvillar eru bólublöðrusótt (e. bullous pemphitus) og hringblöðrubóla (e. dermatitis herpetiformis).
Smitsjúkdómar: Blöðrur einkenna marga smitsjúkdóma. Þar á meðal eru hlaupabóla, frunsur, hrúðurgeit (kossageit) og sveppasjúkdómar eins og hringskyrfi.
Í flestum þeim tilfellum sem blöðrur stafa af núningi eða vægum bruna þarf ekki að leita læknis. Ný húð myndast undir þeim og vökvinn sogast smám saman í burtu. Gott er að bera krem með E-vítamíni eða alóvera á blöðrusvæðið til þess að sefa óþægindi sem stafa frá núningsblöðrum.
Ekki er ráðlegt að sprengja blöðrur nema þær séu stórar, valdi sársauka eða séu líklegar til að verða fyrir frekari ertingu. Í slíkum tilfellum verður að nota sótthreinsuð áhöld, til dæmis nál eða rakvélarblað. Komi hvítur, grænn eða gulur vökvi eða massi í staðinn fyrir glæran vökva úr blöðru er hún sýkt og ráðlegt að fá lækni til að kíkja á hana. Blöðrur sem stafa af sjúkdómum eða koma fram vegna áhrifa lyfja eða efna þurfa einnig skoðun læknis til þess að fá viðeigandi meðferð.
Ekki skal rífa húð af sprunginni blöðru, því að viðkvæm húðin sem er að vaxa undir þarf á vörn hennar að halda. Komi blóð úr blöðru þegar hún springur er trúlegt að húðin yfir svæðinu hafi rifnað frá þegar hún sprakk en nýja húðin undir ekki náð að gróa alveg áður.
Þegar unnin eru störf sem eru ekki vanaleg, til dæmis snjómokstur og rakstur í garðinum, er mikil hætta á blöðrumyndun í lófunum. Notkun vinnuhanska dregur mjög úr hættu á blöðrumyndun.
Margir kannast líka við að fá blöðrur eftir nýja skó. Skynsamlegt er að venjast nýjum skóm smátt og smátt, jafnvel að setja gel eða plástur á viðkvæm svæði áður en blaðra myndast, til dæmis ef ætlunin er að fara í langan göngutúr á nýjum skóm. Þá er einnig ráðlagt að vera í sokkum sem liggja þétt að fótunum í stað þess að krumpast og nuddast við þá, eins og hætta er á ef sokkar eru of stórir eða víðir.
Heimildir og mynd:
Gerard J. Tortora (1997): Introduction to the Human Body - The Essentials of Anatomy and Physiology. Menlo Park, California: Benjamin Cummings.
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Af hverju fær maður blöðrur?“ Vísindavefurinn, 18. mars 2004, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4074.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2004, 18. mars). Af hverju fær maður blöðrur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4074
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Af hverju fær maður blöðrur?“ Vísindavefurinn. 18. mar. 2004. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4074>.