Ekki bara eymd: Síerraleónskar konur.
Ýmsir efnahagsstaðlar hafa verið notaðir til að bera saman þjóðir og ríki. Slíkum stöðlum er ætlað að mæla þróun, en að baki hverjum liggur ólík skilgreining á því hvað þróun er. Tveir slíkir staðlar eru GNP (Gross National Product, ísl. vergar þjóðartekjur) og HDI (Human Development Index, ísl. vísitala um þróun lífsgæða). GNP er í stuttu máli heildarverðmæti allrar fullbúinnar vöru sem framleidd er í tilteknu landi. Þegar GNP er reiknað er miðað við markaðsverð vöru og þjónustu og þann kostnað sem fylgir því að búa vöruna til. Á GNP eru hins vegar annmarkar sem taka verður tillit til þegar heildarútkoman er skoðuð. GNP tekur til dæmis ekki mið af misskiptingu auðs. Land eða ríki getur haft háar þjóðartekjur, en bilið milli ríkra og fátækra getur verið breitt. Í annan stað fer ólaunuð vinna, sem er algeng í fátækari löndum heimsins, ekki inn í GNP og í þriðja lagi fer sá hluti framleiðslunnar sem neytt er innan veggja heimilisins, ekki inn í GNP. GNP-staðallinn er hins vegar ekki gagnslaus, ellegar væri hann líklega ekki notaður, hann hefur meðal annars sýnt fram á að staða fátækustu landa heimsins hefur versnað á undanförnum áratugum (HDR, 2003). GNP getur varpað ljósi á ákveðin mynstur út frá tilteknum forsendum, en segir ef til vill lítið um hvaða þýðingu þau hafa.
Innanlandsátök eru oft fylgifiskur fátæktar. Breskur hermaður heilsar börnum í höfuðborg Síerra Leóne, Freetown.
HDI-staðallinn tekur einkum mið af þremur þáttum: lífslíkum, menntun og kaupmætti. Hann er því ólíkur hinum að tekið er tillit til fleiri þátta en hagrænna. Hins vegar má gagnrýna HDI fyrir að ná ekki yfir vinnu sem unnin er inni á heimilum og fyrir að skipa þjóðum sem stunda viðskipti í formi peninga, í hærra sæti en hinum sem gera það ekki og leggja þannig ofuráherslu á peningahagkerfi. Eins og fram kemur hér að ofan gera staðlar á borð við HDI og GNP ráð fyrir einsleitni og stöðugleika innan þess lands eða ríkis sem verið er að mæla og því getur fjölbreyttur og flókinn veruleiki oft orðið undir í slíkum mælingum. Það sem svona staðlar geta hins vegar gert, er að gefa okkur hugmynd um hvernig lönd og ríki heimsins standa í samanburði við hvert annað, hvar þörfin er brýnust og hvort og hvernig aðstæður hafa breyst. Fátækustu og ríkustu lönd heims Í fyrrnefndri skýrslu Sameinuðu þjóðanna er hægt að nálgast upplýsingar um stöðu 175 ríkja og landa út frá stöðlum eins og þeim sem lýst var hér að ofan. Í fimm efstu sætunum eru: Noregur, Ísland, Svíþjóð, Ástralía og Holland (í þessari röð). Í fimm neðstu sætunum eru hins vegar Afríkuríkin Mósambík, Búrúndí, Malí, Búrkína Fasó, Níger og Síerra Leóne í því neðsta. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna. Í niðurstöðum skýrslunnar kemur eftirfarandi fram:
- Um milljarður manna lifir á minna en einum dollara á dag.
- Aðeins eitt barn af hverjum fimm lýkur grunnskóla.
- HIV/AIDS heldur áfram að breiðast út og meira en fjórtán milljónir barna misstu annað eða báða foreldra sína úr sjúkdómnum árið 2001. Talið er að fjöldi smitaðra eigi eftir að tvöfaldast fyrir árið 2010.
- Næstum áttahundruð milljónir manna, eða um 15% jarðarbúa þjáist af krónísku hungri dag hvern.
- Um hálf milljón kvenna deyr við barnsburð á hverju ári, eða ein á hverri mínútu. Konur sunnan Sahara eru eitthundrað sinnum líklegri til að látast í kjölfar barnsburðar en konur í Vestur-Evrópu.
- Crewe, E. og Harrison, E. (1998). Whose Development?: An Ethnography of Aid. London: Zed Books.
- Escobar, E. (1995). Encountering Development: The Making and Unmaking of the Third World. Princeton: Princeton University Press.
- Grillo, R. D. og Stirrat, R. L. (1997). Discourses of Development: Anthropological Perspectives. Oxford: Berg.
- Jón Ormur Halldórsson. (1992). Þróun og þróunaraðstoð. Reykjavík: Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.
- The Global Fund for Women
- The Human Development Report 2003
- Time Online Edition
Tengd svör á Vísindavefnum:
- Sveinn Eggertsson: Hvernig urðu þriðja heims ríkin til?
- Ólafur Páll Jónsson og Ulrika Andersson: Hvaða sjúkdómar eru algengastir í þróunarlöndunum?
- Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir: Hvað munu margir búa á jörðinni árið 2050?
- Guðmundur Pétursson: Hversu margir eru smitaðir af HIV-veirunni í heiminum?