Hvenær lauk borgarastríðinu í Mósambík?Grunnupplýsingar
Mósambík er sjálfstætt lýðveldi í Suðaustur-Afríku og liggur austurströnd þess að Indlandshafi. Landamæri Mósambíkur liggja að Tansaníu norðan megin, Suður-Afríku og Svasílandi sunnan og suðvestan megin, og að Simbabve, Sambíu og Malaví að vestan. Mósambík öðlaðist sjálfstæði frá Portúgal árið 1975. Landið er 801.590 ferkílómetrar að stærð, höfuðborgin, sem jafnframt er stærsta borg landsins, heitir Mapútó. Íbúafjöldi er ríflega 15,7 milljónir (samkvæmt síðasta manntali frá árinu 1997) og portúgalska er opinbert tungumál. Til helstu trúarbragða teljast trú af afrískum uppruna, kristni og íslam.

Saga Mósambík
Fyrstu rituðu heimildirnar um Mósambík má rekja aftur til 10. aldar. Í þeim minnist arabíski ferðalangurinn og sagnaritarinn al-Mas’udi á bæinn Sofala, sem var staðsettur suður af nútímahafnarborginni Beira. Löngu fyrir þann tíma, eða á 3. öld, fluttist bantúmælandi fólk frá Mið-Afríku til svæðisins þar sem Mósambík er í dag og hóf ræktun og hjarðmennsku. Fljótlega varð samfélagsmótunin örari og á 10. öld voru íbúar svæðisins orðnir mikilvægir þátttakendur í verslunarkerfi álfunnar. Næstu aldirnar tóku kaupmenn að flykkjast sjóleiðina til Mósambíkur hvaðanæva að, til dæmis frá Norðaustur-Afríku og seinna frá Mið-Austurlöndum og Asíu. Hafnir risu meðfram strandlengjunni, þeirra á meðal við Sofala, og Mósambík varð miðstöð gullverslunar í Afríku. Hafnarborgirnar voru undir miklum arabískum áhrifum og verslun fór aðallega fram á svahílí, bantúmáli sem er ríkt af arabískum orðum.


Eftir að Portúgalir hurfu á braut, nánast á einni nóttu, ríkti mikil upplausn í Mósambík. Fáir voru undir það búnir að fylla í skörð þeirra embættismanna sem farnir voru og innviðir landsins stóðu á veikum fótum. Innan skamms hrundi efnahagskerfið og Frelimo þurfti að snúa sér til Sovétríkjanna og Austur-Þýskalands í leit eftir aðstoð. Snemma á níunda áratugnum var landið á barmi gjaldþrots. Peningar voru einskis virði og búðir tómar. Í ofanálag jókst spennan á milli Mósambíkur og Suður-Afríku og Ródesíu. Það sem fylgdi þessum átökum hefur yfirleitt verið lýst sem borgarastyrjöld, en mitt í átökunum var skæruliðahreyfingin Renamo (Resistência Nacional Moçambicana) stofnuð, studd af yfirvöldum í Suður-Afríku. Helsta markmið hennar var að eyðileggja félagslega innviði landsins og að endingu velta hinni marxísku stjórn úr sessi. Árið 1983 komu þurrkar og örbirgð í kjölfarið Mósambík á kné. Renamo réðst á matvælasendingar og brenndi korngeymslur. Frelimo lét að lokum undan mikilli pressu og hóf að taka við aðstoð frá Vesturlöndum. Samband Mósambíkur við Suður-Afríku hefur lagast í dag eftir að Frelimo lagði marxíska hugmyndafræði sína til hliðar, og Frelimo og Renamo undirrituðu friðarsamkomulag árið 1992. Forsetakosningar 1994 þóttu ganga vonum framar og lauk þeim með sigri Joaquim Chissano. Mikið uppbyggingarstarf hefur átt sér stað í Mósambík síðan þá, þrátt fyrir að jarðsprengjur, þurrkar og fellibyljir haldi áfram að hrjá landið, sem enn er eitt það fátækasta í heimi. Menning Mósambík
Menning í Mósambík er fjölbreytt og lifandi, þar sem ólík tungumál og trú setja svip sinn á mannlífið. Þar eru um 16 þjóðernishópar sem mynda litríkan samruna við portúgalska, arabíska og asíska menningu. Portúgalska er opinbert tungumál Mósambík en meirihluti íbúanna talar tungumál sem telst til níger-kongótungumálaflokksins, svokölluð bantúmál sem ríkjandi eru í Mið- og Suður-Afríku. Innan þessa hóps eru Makua-Lomwe, Tsonga og Shona útbreiddust, en í Mósambík er að finna afar mikinn fjölbreytileika í tungumálum og menningu.


- Margrét Einarsdóttir (ritstj.). (2001). Mósambík (smárit nr. 3). Reykjavík: Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Með því að smella á titilinn má nálgast smáritið á pdf-formi en til þess þarf Adobe Acrobat forritið
- MapZones
- Lonely Planet
- Á vefsetri Encyclopædia Britannica má nálgast greinar (á ensku) um Mósambík, meðal annars um sögu Mósambíkur, svahílí, Frelimo og Renamo
- People of Action during the Renaissance and Reformation
- Fáni Mósambíkur
- Instituto Camões
- www.revuenoirecom