Í stuttu máli fara hreindýratalningar þannig fram í dag að í júlí er flogið yfir Snæfellsöræfi, hreindýrahjarðirnar myndaðar og síðan talið af myndunum. Þar má greina á milli fullorðinna dýra og kálfa. Náttúrustofa Austurlands skipuleggur síðan aðra talningu í mars, sendir völdum talningarmönnum eyðublöð til útfyllingar og upplýsingar um hvenær eigi að telja. Talningarmennirnir hafa viku til verksins og hafa þeir samráð sín á milli til að fyrirbyggja tvítalningu.Stofnstærð hreindýra er svo metin út frá niðurstöðum þessara talninga. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan hefur stærð hreindýrastofnsins í júlí mest verið áætluð rúmlega 4.000 dýr og var það í byrjun 8. áratugar síðust aldar og aftur í lok þess 9. Minnstur hefur stofninn verið í verið metinn um 2.500 dýr um miðjan 10. áratuginn. Undanfarin ár hefur stofninn farið vaxandi og er talið að sumarstofninn árið 2002 hafi verið hátt í 4.000 dýr.
Heimild: Náttúrustofa Austurlands Öll hreindýr á Íslandi eru villt nema dýrin sem höfð eru í haldi í Klausturseli á Jökuldal og í Húsdýragarðinum í Reykjavík. Áhugasamir lesendur geta nálgast meiri fróðleik um hreindýr á heimasíðu Náttúrustofu Austurlands.