Þetta nefnist litskekkja (e. chromatic aberration) og var til dæmis lengi vel talsvert vandamál í ljósmyndun. Þegar fjarlægð er stillt á myndavél er ætlunin að ljós frá punktum í ákveðinni fjarlægð komi saman á filmunni. Ef ljósið er mislitt og sjóngler vélarinnar með litskekkju er þetta ógerningur og það kemur sérlega skýrt fram í bláu og rauðu. Nú á dögum er reynt að mæta litskekkju í myndavélum með því að hafa nokkrar linsur úr mismunandi glertegundum í sjónglerjakerfinu þannig að kerfið í heild brjóti alla liti því sem næst eins. Slík kerfi eru kölluð litvís (e. achromatic), samanber mynd hér fyrir neðan:
Augasteinninn í okkur hefur nokkra litskekkju eins og aðrar linsur en mannsaugað vinnur gegn henni með sérstökum búnaði í augnbotninum. Engu að síður skiptir litskekkjan nokkru máli og því er spurningin til komin. Meðal annars getur þetta getur magnast upp hjá fólki með sumar tegundir gleraugna, sérstaklega ef litið er til hliðar í nærsýnisgleraugum.
Sem dæmi um það sem fjallað er um í svarinu birtum við þennan texta hér með rauðum stöfum á bláum grunni. Lesandinn getur þá áttað sig betur á þessu í reynd. Við höfum prófað að birta allt svarið með þessum litum en með því hefðum við lagt of mikið á lesandann! |
- Háskólinn í York. Mynd sem sýnir litskekkju. Sótt 27. 6. 2011.
- Háskólinn í York. Mynd sem sýnir litvísa linsu. Sótt 27. 6. 2011.