Dragár eru bundnar við svæði með fremur þéttum berggrunni ... Dragár eiga sér tíðum engin glögg upptök. Þær verða til úr sytrum og dældum og daladrögum og stækka smám saman er neðar dregur í farveginum. Rennsli dragáa er mjög háð veðurfari. Lindár eiga sér upptök í lindum á hrauna-, móbergs- og grágrýtissvæðum. Gagnstætt dragám eiga lindár sér glögg upptök, oft í ólgandi lindum, og ná þær stundum nær fullri stærð skammt frá upptökum. Vatnsrennsli lindáa er jafnt árið um kring og sama máli gegnir um hitastig vatnsins. Jökulár koma undan jöklum og verða til við leysingu jökulíss. Vatnsmagn jökuláa er mjög háð lofthita og eru þær því margfalt vatnsmeiri að sumri en að vetrarlagi.
Margar ár eru þó blanda þessara flokka þegar nær dregur ósum þeirra og er Þjórsá þar á meðal þó að hún sé að drjúgum hluta jökulá. Ástæðan er sú að margar þverár af mismunandi uppruna falla í Þjórsá á þeirri löngu leið sem áin fer til sjávar. Eins og lesa má um í svari saman höfundar við spurningu um lengsta fljót á Íslandi hefur Þjórsá þá nafnbót en alls eru hún um 230 km frá upptökum til ósa. Þjórsá á upptök sín við norðanverðan Sprengisand í Þjórsárdrögum og kallast þar Bergvatnskvísl Þjórsár eða aðeins Bergvatnskvísl. Eins og nafnið gefur til kynna er þarna ekki um jökulvatn að ræða. Eftir um 20 km rennsli fellur Háöldukvísl í ána, en það er nyrsta jökulkvíslin sem í hana rennur frá Hofsjökli. Þjórsárnafnið fær áin hins vegar aðeins neðar eftir að Háöldukvísl og Fjórðungskvísl frá Tungnafellsjökli mætast. Fyrir utan Fjórðungskvísl frá Tungnafellsjökli og Háöldukvísl frá Hofsjökli er jökulvatnið í efsta hluta Þjórsár komið úr svonefndum Þjórsárkvíslum sem eru fjöldi kvísla undan austur- og suðausturhorni Hofsjökuls. Meðal annarra jökuláa sem eiga upptök í Hofsjökli og renna í Þjórsá er Blautakvísl.
- Jóhann Ísak Pétursson og Jón Gauti Jónsson, 2001. Jarðfræði. Reykjavík, Iðnú.
- Þorleifur Einarsson, 1991. Myndun og mótun lands. Reykjavík, Mál og menning.
- Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson, 1984. Landið þitt Ísland. Reykjavík, Örn og Örlygur.
- A Gallery of 19th Century Icelandic Landscape Art.
- Ferðamálafélagið Hekla.