Niðurstöðurnar úr öllum þessum rannsóknum, óháð því hvernig þær voru framkvæmdar, hafa nær alltaf verið þær sömu, það er að því meira sem börn og unglingar horfi á ofbeldi í sjónvarpi, því árásarhneigðari séu þau. Sem dæmi má nefna að rannsókn á þriggja til fjögurra ára gömlum börnum í Bandaríkjunum sýndi að því meira ofbeldi sem börnin horfðu á, því líklegri voru þau til að beita ofbeldi þegar þau léku sér við önnur börn. Jafnframt benda niðurstöður þekktrar langtímarannsóknar til að eftir því sem börn á aldrinum sex til níu ára horfi meira á ofbeldi, því meiri líkur séu á að þau beiti aðra ofbeldi þegar þau komast á fullorðinsár og fremji jafnvel glæpi. Niðurstöður íslenskrar rannsóknar á áhrifum ofbeldis í myndmiðlum á árásarhneigð unglinga á aldrinum 13 til 15 ára, eru í fullu samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna, það er að segja þeir unglingar sem horfa mikið á ofbeldisefni, beita oftar aðra ofbeldi en jafnaldrar þeirra sem horfa minna á ofbeldisefni. Talið er að áhrif ofbeldis í sjónvarpi séu mest á börn undir sex ára aldri en því hefur einnig verið haldið fram að börn á aldrinum átta til níu ára séu í sérstökum áhættuhópi. Einnig verða börn fyrir meiri áhrifum ef að þau finna til samkenndar með þeim sem beita ofbeldi í sjónvarpsþáttum, ef þeim finnst ofbeldið vera réttlætanlegt og ef þeim þykir ofbeldið vera raunverulegt. Sjónvarpsefni hefur ekki eingöngu áhrif á árásarhneigð barna heldur er einnig vitað að þau börn sem horfa mikið á sjónvarp séu líklegri til að þjást af þunglyndi, streitu, áfallastreituröskun og andlegri vanlíðan. Í rannsókn, sem framkvæmd var í Miðvesturríkjum Bandaríkjanna, kom fram að sex af hverjum tíu foreldrum barna á aldrinum tveggja til sautján ára sem þátt tóku í rannsókninni, sögðu að börn þeirra óttuðust að það sem þau hefðu séð í sjónvarpi gæti komið fyrir þau sjálf. Í annarri rannsókn á áhrifum sjónvarpsefnis á börn sögðust 75% barnanna sem spurð voru, hafa orðið verulega skelkuð eftir að hafa séð eitthvað óhugnanlegt í sjónvarpi. Erfitt hefur reynst að mæla nákvæmlega hversu mikið börn og unglingar hlusta á tónlist en áætlað er þau hlusti á tónlist í um það bil þrjár til fjórar klukkustundir á dag og horfi auk þess á tónlistarmyndbönd í hálftíma til viðbótar. Áratugum saman hafa foreldrar talið að tónlist gæti haft slæm áhrif á börn og unglinga. Árið 1985, til dæmis, barðist Tipper Gore, eiginkona fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, fyrir því ásamt öðrum bandarískum foreldrum að viðvörunarmerki yrðu sett á tónlistarefni sem innihélt klúra texta. Spjótin hafa aðallega beinst að þungarokki og svokölluðu „gangsterrappi“, sérstaklega vegna þess að þeir unglingar sem drepið hafa skólafélaga sína hafa margir hverjir hlustað á slíka tónlist. Þessa umræðu ber á góma í þekktri heimildamynd, Bowling for Columbine eftir kvikmyndagerðarmanninn Michael Moore, þar sem meðal annars er fjallað um meint áhrif tónlistar Marilyns Mansons á ofbeldishneigð ungmenni og rætt við Manson sjálfan. Á undanförnum árum hafa rannsóknir ítrektað sýnt að unglingar sem hlusta mikið á þungarokk, fá lægri einkunnir í skóla en jafnaldrar þeirra. Þeir eru einnig iðulega upp á kant við foreldra sína, eru líklegir til að nota fíkniefni, keyra undir áhrifum áfengis eða lyfja og stunda óábyrgt kynlíf. Hegðun stráka sem hlusta mikið á þungarokk einkennist oft af hegðun kennd við „macho“og kvenfyrirlitningu. Í rannsókn sem gerð var á rúmlega 200 áströlskum ungmennum kom fram að meðal þungarokksaðdáenda höfðu 20% pilta og 60% stúlkna reynt að stytta sér aldur eða reynt að meiða sig. Þessar tölur voru mun lægri fyrir þau ungmenni sem hlustuðu á popptónlist. Varast ber að draga þá ályktun út frá niðurstöðum þessara rannsókna að allir unglingar sem hlusta á þungarokk verði fyrir slæmum áhrifum. Svo er alls ekki. Líklegra er talið að þungarokkið veiti þeim unglingum sem til dæmis gengur illa í skóla, staðfestingu á viðhorfum sínum til heimsins og umhverfis síns. Þar sem tónlist hefur töluverð áhrif á skap unglinga og tilfinningar þeirra, getur þungarokk og aðrar óhefðbundnari tegundir rokktónlistar (til dæmis dauðarokk) aukið á þunglyndi þeirra sem þegar þjást af þunglyndi og þannig óbeint valdið sjálfsvígum. Áður hefur höfundur fjallað um áhrif tónlistarmyndbanda á börn hér á Vísindavefnum, en því er við að bæta að niðurstöður tilrauna hafa sýnt að piltar sem horfa á tónlistarmyndbönd sem sýna ofbeldi, verða jákvæðari gagnvart beitingu ofbeldis. Einnig höfðu myndböndin slæm áhrif á viðhorf piltanna í garð kvenna enda eru konur oft hlutgerðar eða í hlutverki fórnarlamba í tónlistarmyndböndum.
Svör eftir sama höfund á Vísindavefnum um tengt efni:
- Hvaða áhrif hafa tölvuleikir sem innihalda klám og ofbeldi á börn?
- Hvaða áhrif hafa hálfnaktar poppstjörnur á 8-12 ára stelpur?
- Er hægt að greina bein áhrif fjölmiðla á hegðun fólks?
Myndir: