Eru líkurnar á að eignast tvíbura meiri ef það eru margir tvíburar í ætt föðurins eða veltur það eingöngu á ætt móðurinnar?Tvíburar geta verið eineggja eða tvíeggja, sem er mun algengara. Eineggja tvíburar verða til úr nákvæmlega sama erfðaefninu, einu eggi og einni sæðisfrumu, og eru þess vegna að miklu leyti eins. Eins og Guðmundur Eggertsson bendir á í svari sínu við spurningunni Eru eineggja tvíburar með nákvæmlega eins erfðaefni? eru eineggja tvíburar samt aldrei alveg nákvæmlega eins sem sýnir og sannar að genin ein ráða ekki öllu um þroska einstaklingsins. Tvíeggja tvíburar verða hins vegar til úr tveimur eggjum og tveimur sæðisfrumum og eru ekki líkari erfðafræðilega en venjuleg systkini. Á bandaríska vefsetrinu ScientificAmerican.com er að finna umfjöllun um tvíbura og þá þætti sem auka líkur á tvíburafæðingum. Þar kemur fram að það að eignast tvíeggja tvíbura virðist bundið í erfðir að einhverju leyti þar sem rannsóknir sýna að þeir eru algengari í sumum fjölskyldum en öðrum. Að eignast eineggja tvíbura virðist aftur á móti ekki ganga í erfðir. Vissulega eru til fjölskyldur þar sem eineggja tvíburar skjóta oft upp kollinum en það eru tiltölulega fá dæmi og frekar litið á það sem ómarktæka undantekningu. Rannsóknir sýna að það er fyrst og fremst frá móðurinni komið ef um tvíeggja tvíbura er að ræða en faðirinn hefur ekki áhrif þar á. Þar kemur til að sumar konur eru líklegri til að losa fleiri en eitt egg við egglos og þar með aukast líkur á tvíeggja tvíburum. Aldur móður virðist einnig hafa nokkur áhrif á það hversu líkleg hún er til að eignast tvíeggja tvíbura en líkur á að eignast tvíbura aukast eftir að kona er komin á fertugsaldurinn. Sem dæmi má nefna að 37 ára kona er fjórum sinnum líklegri til þess að eignast tvíbura en 18 ára kona. Loks er nokkuð breytilegt eftir kynþáttum hversu algengir tvíeggja tvíburar eru. Það er til dæmis 10 sinnum algengara að kona í Vestur-Afríku eignist tvíbura en kona í Kína eða Japan en líkur á að kona af evrópskum uppruna eignist tvíbura liggja þar á milli. Áhugasömum er bent á að kynna sér áður nefnda grein á ScientificAmerican.com en þetta svar er byggt á upplýsingum þaðan.
Er arfgengt að eignast tvíbura?
Útgáfudagur
9.7.2003
Spyrjandi
Sólrún Ólafsdóttir
Sigríður Gísladóttir
Tilvísun
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Er arfgengt að eignast tvíbura?“ Vísindavefurinn, 9. júlí 2003, sótt 25. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3570.
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2003, 9. júlí). Er arfgengt að eignast tvíbura? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3570
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Er arfgengt að eignast tvíbura?“ Vísindavefurinn. 9. júl. 2003. Vefsíða. 25. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3570>.