Ilan Ramon fæddist 20. júní, 1954 í Tel Aviv í Ísrael. Hann lést um borð í Kólumbíu og lætur eftir sig konu og fjögur börn. Ramon útskrifaðist úr Tel Aviv-háskóla árið 1987 með B.Sc. gráðu í rafmagns- og tölvunarfræði. Hann var orrustuflugmaður ísraelska flughersins og barðist til að mynda í stríðinu í Líbanon 1982 og hlaut orðu fyrir. Ramon var mjög reyndur flugmaður með yfir 4000 flugstundir. Hann var valinn af NASA til geimfaraþjálfunar og fór í fyrsta sinn út í geiminn með Kólumbíu 16. janúar 2003.
Rick Douglas Husband fæddist 12. júlí, 1957 í Amarillo í Texas. Hann lést um borð í Kólumbíu og lætur eftir sig konu og tvo börn. Husband útskrifaðist úr tækniháskólanum í Texas árið 1980 með B.Sc gráðu í verkfræði og með meistaragráðu í verkfræði frá Kaliforníuháskóla í Fresno árið 1990. Hann var liðþjálfi í bandaríska flughernum og hafði rúmlega 3800 flugstundir á meira en 40 mismunandi flugvélum, ásamt því að hafa verið tilraunaflugmaður. Husband var valinn af NASA til geimferðarþjálfunar árið 1994 og hóf æfingar í mars árið 1995. Hann fór í sína fyrstu geimferð árið 1999, STS-96 Discovery, í tíu daga ferð sem hafði þann megintilgang að tengjast Alþjóðlegu geimstöðinni.
William C. McCool fæddist 23. september, 1961 í San Diego í Kaliforníu. Hann lést um borð í Kólumbíu og lætur eftir sig konu og barn. McCool útskrifaðist með meistaragráðu í tölvunarfræði frá Marylandháskóla árið 1985 og var einnig með meistaragráðu í flugverkfræði. McCool lauk flugþjálfun árið 1986 átti meira en 2800 flugstundir að baki í 24 flugvélategundum, ásamt því að vera reynsluflugmaður. McCool var valinn af NASA í apríl árið 1996 og kom til æfinga í ágúst sama ár. Hann lauk æfingum á tveimur árum en fór fyrst út í geiminn 16. janúar, 2003 um borð í Kólumbíu.
Michael P. Anderson fæddist 25. desember, 1959 í Plattsburgh í New York ríki. Hann lést um borð í Kólumbíu og lætur eftir sig konu og börn. Anderson útskrifaðist með B.Sc gráðu í eðlis- og stjörnufræði frá Washington háskóla árið 1981 og meistaragráðu í eðlisfræði frá Creighton-háskóla árið 1990. Anderson var einnig lærður flugmaður og hafði lokið meira en 3000 flugstundum. Hann var valinn af NASA í desember árið 1994 og kom til æfinga í mars árið 1995. Hann lauk ársþjálfun og flaug um borð í STS-89 Endeavour, 22.-31. janúar, 1998, en tilgangur þeirrar ferðar var að tengjast geimstöðinni Mír. Um borð í Kólumbíu hafði Anderson yfirumsjón með öllum tilraunum og meginviðfangsefni hans var að rannsaka ákveðna tegund krabbameins sem er algeng meðal blökkumanna í Bandaríkjunum.
Kalpana Chawla fæddist árið 1961 í Karnal á Indlandi. Hún lést um borð í Kólumbíu og lætur eftir sig eiginmann. Chawla útskrifaðist með B.Sc gráðu í flugverkfræði frá Punjab-verkfræðiskólanum á Indlandi árið 1982. Hún náði sér einnig í meistaragráðu í eldflaugaverkfræði frá Texas-háskóla árið 1984 og doktorsgráðu í sama fagi frá Colorado-háskóla árið 1988. Chawla var auk þess flugkennari. Hún hóf að starfa hjá NASA árið 1988 sem verkfræðingur en var í desember árið 1994 valin til geimfaraþjálfunar af NASA. Hún fór í sína fyrstu geimferð í nóvember árið 1997 um borð í STS-87 Kólumbíu og síðan aftur með Kólumbíu árið 2003.
Laurel Blair Salton Clark fæddist árið 1961 í Iowa. Hún lést um borð í Kólumbíu og lætur eftir sig eiginmann og eitt barn. Clark útskrifaðist með B.Sc. gráðu í líffræði frá Wisconsin-háskóla árið 1983 og doktorsgráðu í lyfjafræði frá sama skóla árið 1987. Á meðan hún var í námi í læknisfræði, stundaði hún köfunarþjálfun. Hún gekk í sjóherinn og var nokkrum sinnum um borð í kafbátum. Clark var valinn til geimfaraþjálfunar af NASA í apríl árið 1996. Hún var í þjálfun í tvö ár og fór loks út í geiminn um borð í Kólumbíu árið 2003.
David M. Brown fæddist 16. apríl 1956 í Arlington í Virginíu. Hann var einhleypur en eftirlifandi foreldrar hans eru Paul og Dorothy Brown. Brown var mikill íþróttamaður og tók meðal annars þátt í sirkussýningum. Hann útskrifaðist með B.Sc gráðu í líffræði frá William og Mary-háskóla árið 1978 og náði sér einnig í doktorsgráðu í lyfjafræði í Læknaskóla Austur-Virginíu árið 1982. Brown gekk í sjóherinn eftir háskólanám sitt. Hann átti að baki meira en 2700 flugstundir, ásamt því að vera reynsluflugmaður, meðal annars fyrir NASA. Brown var valinn af NASA í apríl 1996 og lauk tveggja ára þjálfun. Ferð hans með Kólumbíu í janúar 2003 var fyrsta ferð Browns út í geiminn þar sem hann vann að ýmsum líffræðitilraunum. Heimildir:
- Vefsíðan NASA Johnson Space Center.
- Vefsíðan NASA Human Space Flight.
- Vefsíðan Space.com.
- Vefsíða CNN.