Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna er ekki hægt að stöðva öldrun í fólki?

Pálmi V. Jónsson

Spurning Atla var því sem næst eins og hér er tilgreint en spurning Hannesar og Margrétar var þessi:
Hvað veldur því að líkaminn hrörnar, er ekki hægt að gera neitt til að breyta því? Hvers vegna getum við ekki lifað endalaust?
Sami höfundur hefur áður svarað spurningunni Af hverju eldumst við? hér á Vísindavefnum. Lesandi sem hefur ekki séð svarið við henni kann að vilja lesa það fyrst og nota svo vafraforritið til að koma aftur hingað.

Nútíma læknisfræði getur lagt margt af mörkum til að draga úr hinum óhagstæðu áhrifum á heilsufar, sem sjást með hækkandi aldri og kunna að vera þróunarlegar aukaverkanir eins og getið var um í svari við fyrri spurningu sem vísað var í hér á undan. Meðalævilíkur við fæðingu hafa vaxið alla öldina og á síðustu 25 árum um eitt ár á hverjum fimm árum. Ævilíkur kvenna eru nú um 80.4 ár en karla um 77 ár. Ýmsir af þeim hrörnunarsjúkdómum sem sjást með vaxandi aldri hafa greinanlega áhættuþætti, sem má hafa áhrif á.

Rannsókn Hjartaverndar leiddi í ljós að á fyrstu 25 árum hennar hefur orðið mikil lækkun á blóðþrýstingi og kólesteróli og minnkun á reykingum. Einnig er nú minni slitgigt, æðakölkun, heilabilun, háþrýstingur, heilaáföll og lungnaþemba hjá körlum og konum á aldrinum 50-69 ára en í upphafi rannsóknarinnar. Þá er tannheilsa bætt og færri með gervitennur. Þessar breytingar á heilsufari sýna að yngri árgangar fólks skila sér nú á efri ár við betri heilsu.

Nýleg rannsókn frá Bandaríkjunum sýndi að á tímabilinu 1982 til 1994 fækkaði fötluðu fólks eldra en 65 ára úr 24,9% í 21,3%. Þeir sem ná eftirlaunaaldri í Bandaríkjunum búa við góða heilbrigðisþjónustu og því líklegt að svipaðar breytingar hafi orðið hér á landi. Það mundi þýða að á Íslandi væru 1400 færri fatlaðir aldraðir en spár hefðu gert ráð fyrir árið 1982.

Þá er eftirtektarvert hversu margir aldraðir meta heilsu sína á jákvæðan hátt. Rannsókn frá 1994 sýndi að 39% eldri en 65 ára töldu sig hafa góða eða ágæta heilsu, en 29% sæmilega eða lélega. Af þeim sem voru eldri en 85 ára töldu 31% sig hafa góða eða ágæta heilsu, en 36% sæmilega eða lélega. Ekki var munur milli kynja í þessari afstöðu. Nú getur 65 ára maður átt von á því að eyða að meðaltali 6 árum af 20-25 árum ólifuðum með einhvers konar fötlun, en 85 ára maður getur átt von á því að eyða um það bil 60% af ólifuðum tíma með einhvers konar fötlun. Það er verðugt markmið að stytta þennan tíma sem mest.

Erfðaefnið segir minna til um ellina en ætla mætti við fyrstu sýn. Þannig hafa tvíburarannsóknir sýnt að minna en 30% af líkamlegri elli skýrist af erfðum en um að bil 50% af vitrænni getu áttræðra tvíbura skýrist af erfðum. Þannig má segja að einstaklingurinn, í góðri samvinnu við vandvirkan lækni, geti haft mest um það að segja hvernig honum reiðir af á efstu árum. Það er líka aldrei of seint að hætta því sem er óhollt og taka upp holla lifnaðarhætti. Hvenær sem leitað er að jákvæðum þáttum varðandi meðferð sjúkdóma og fyrirbyggingu þeirra, skýtur líkamsræktin upp kollinum. Þannig hafa rannsóknir sýnt fram á jákvæð áhrif líkamsræktar á kransæðasjúkdóm, háþrýsting, sykursýki og beinþynningu. Líkamsrækt vinnur einnig gegn ristilkrabbameini, bætir jafnvægi og dregur úr byltum.

Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að flestir langvinnir sjúkdómar tvöfaldast á fimm ára fresti eftir 70 ára aldurinn. Með því að seinka sjúkdómi um 5 ár má draga úr fjölda þeirra sem hafa einkenni um 50%. Ef algengi sjúkdóms við 70 ára aldur er 2% í stað 4%, þá verður fjöldi þeirra sem hafa sjúkdóminn 16% í stað 32% við 85 ára aldur. Að óbreyttum ævilíkum myndi þetta draga verulega úr kostnaði, svo að ekki sé talað um gildi bættrar heilsu fyrir einstaklingana, fjölskyldur þeirra og samfélagið í heild.

Er raunhæft að ætla að fresta megi framkomu hinna ýmsu sjúkdóma, sem eru velþekktir fylgifiskar hækkandi aldurs? Svarið er já. Margvíslegar rannsóknir hafa leitt í ljós að meðhöndlun áhættuþátta skilar árangri. Nægir að nefna meðferð við háþrýstingi, kólesteróllækkandi meðferð, blóðþynningu við gáttatifi og meðferð sem miðar að því að auka beinmassa. Þannig má fækka hjartaáföllum, hjartabilunartilfellum, heilaáföllum og beinbrotum svo um munar.

Kvenhormón draga úr hjartasjúkdómum kvenna eftir tíðarhvörf um 44% og bæta þremur árum við lífið. Mikilvægt er að átta sig á því að eitt lyf getur haft margfeldisáhrif á mörg sjúkdómsferli. Þannig geta kvenhormónin til dæmis bæði dregið úr hjarta- og æðasjúkdómum og fækkað beinbrotum með því að viðhalda eða auka beinmassa. ACE-hamlandi blóðþrýstingslyf geta dregið úr heilaáföllum, kransæðastíflum og hjarta- og nýrnabilunum og bætt horfur gagnvart sykursýki. Sú fjárfesting sem leggja þarf í til þess að bæta heilsufar er því ekki eins mikil og ætla mætti að óathuguðu máli. Bólusetningar hafa sannað gildi sitt bæði í vörnum gegn inflúensu og lungnabólgubakteríunni. Gildi kalks (1000-1500 mg á dag) og D-vítamíns (600-800 alþjóðlegar eininga á dag) er gamalt vín á nýjum belgjum.Ýmsar rannsóknir eru í farvatninu svo sem um gildi fólínsýru í forvörnum hjarta- og æðasjúkdóma og gildi E-vítamíns í forvörnum sömu sjúkdóma og í forvörnum gegn vitrænni skerðingu, svo aðeins sé drepið á tvö dæmi. Rannsóknum á meingerð Alzheimer´s sjúkdóms fleygir fram og gefa þær vonir um að fyrirbyggjandi meðferð finnist er hindri amyloid-prótín útfellingar í heilavef áður en áratugir líða.

Mikilvægt er að afla nýrrar þekkingar. Hitt er ekki síður mikilvægt að nýta til fullnustu þá þekkingu sem þegar hefur verið aflað. Það sýnir sig að þekking skilar sér ekki fullkomlega til sjúklinganna og að bætt þekking er ekki nýtt fullkomlega til bættrar heilsu sjúklinga. Fjölmörg dæmi eru um þetta til að mynda hvað varðar blóðþynningu við gáttatifi og blóðþrýstingsmeðferð. Sjúkdómsgreining er réttilega gerð og meðferð hafin, en ákafi meðferðar er ekki slíkur að hámarksárangur náist eins og efni gætu staðið til. Klínískar leiðbeiningar fyrir lækna geta stuðlað að bættri nýtingu þekkingar sjúklingum til hagsbóta.

Hamingja á efri árum tengist litlum líkum á sjúkdómum og fötlun, mikilli vitrænni getu og líkamlegri færni og umfram allt virkri þátttöku í lífinu. Nú geta bæði einstaklingarnir sjálfir og læknar ásamt öðrum heilbrigðisstéttum gert mikið til þess að draga úr þeirri hrörnun sem við kennum við ellina enda þótt við stöðvum hana auðvitað ekki. Líkaminn lifir ekki að eilífu en tillegg okkar til eilífðarinnar er annars vegar það erfðaefni sem við gefum til barnanna okkar og hins vegar það efni sem við höfum haft að láni og skilum aftur til jarðarinnar að jarðvistinni lokinni. Og það getur nýst nýju lífi.

Höfundur

dósent í læknisfræði við HÍ

Útgáfudagur

29.3.2000

Spyrjandi

Atli Guðvarðsson; Hannes og Margrét í MA

Tilvísun

Pálmi V. Jónsson. „Hvers vegna er ekki hægt að stöðva öldrun í fólki?“ Vísindavefurinn, 29. mars 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=303.

Pálmi V. Jónsson. (2000, 29. mars). Hvers vegna er ekki hægt að stöðva öldrun í fólki? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=303

Pálmi V. Jónsson. „Hvers vegna er ekki hægt að stöðva öldrun í fólki?“ Vísindavefurinn. 29. mar. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=303>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna er ekki hægt að stöðva öldrun í fólki?
Spurning Atla var því sem næst eins og hér er tilgreint en spurning Hannesar og Margrétar var þessi:

Hvað veldur því að líkaminn hrörnar, er ekki hægt að gera neitt til að breyta því? Hvers vegna getum við ekki lifað endalaust?
Sami höfundur hefur áður svarað spurningunni Af hverju eldumst við? hér á Vísindavefnum. Lesandi sem hefur ekki séð svarið við henni kann að vilja lesa það fyrst og nota svo vafraforritið til að koma aftur hingað.

Nútíma læknisfræði getur lagt margt af mörkum til að draga úr hinum óhagstæðu áhrifum á heilsufar, sem sjást með hækkandi aldri og kunna að vera þróunarlegar aukaverkanir eins og getið var um í svari við fyrri spurningu sem vísað var í hér á undan. Meðalævilíkur við fæðingu hafa vaxið alla öldina og á síðustu 25 árum um eitt ár á hverjum fimm árum. Ævilíkur kvenna eru nú um 80.4 ár en karla um 77 ár. Ýmsir af þeim hrörnunarsjúkdómum sem sjást með vaxandi aldri hafa greinanlega áhættuþætti, sem má hafa áhrif á.

Rannsókn Hjartaverndar leiddi í ljós að á fyrstu 25 árum hennar hefur orðið mikil lækkun á blóðþrýstingi og kólesteróli og minnkun á reykingum. Einnig er nú minni slitgigt, æðakölkun, heilabilun, háþrýstingur, heilaáföll og lungnaþemba hjá körlum og konum á aldrinum 50-69 ára en í upphafi rannsóknarinnar. Þá er tannheilsa bætt og færri með gervitennur. Þessar breytingar á heilsufari sýna að yngri árgangar fólks skila sér nú á efri ár við betri heilsu.

Nýleg rannsókn frá Bandaríkjunum sýndi að á tímabilinu 1982 til 1994 fækkaði fötluðu fólks eldra en 65 ára úr 24,9% í 21,3%. Þeir sem ná eftirlaunaaldri í Bandaríkjunum búa við góða heilbrigðisþjónustu og því líklegt að svipaðar breytingar hafi orðið hér á landi. Það mundi þýða að á Íslandi væru 1400 færri fatlaðir aldraðir en spár hefðu gert ráð fyrir árið 1982.

Þá er eftirtektarvert hversu margir aldraðir meta heilsu sína á jákvæðan hátt. Rannsókn frá 1994 sýndi að 39% eldri en 65 ára töldu sig hafa góða eða ágæta heilsu, en 29% sæmilega eða lélega. Af þeim sem voru eldri en 85 ára töldu 31% sig hafa góða eða ágæta heilsu, en 36% sæmilega eða lélega. Ekki var munur milli kynja í þessari afstöðu. Nú getur 65 ára maður átt von á því að eyða að meðaltali 6 árum af 20-25 árum ólifuðum með einhvers konar fötlun, en 85 ára maður getur átt von á því að eyða um það bil 60% af ólifuðum tíma með einhvers konar fötlun. Það er verðugt markmið að stytta þennan tíma sem mest.

Erfðaefnið segir minna til um ellina en ætla mætti við fyrstu sýn. Þannig hafa tvíburarannsóknir sýnt að minna en 30% af líkamlegri elli skýrist af erfðum en um að bil 50% af vitrænni getu áttræðra tvíbura skýrist af erfðum. Þannig má segja að einstaklingurinn, í góðri samvinnu við vandvirkan lækni, geti haft mest um það að segja hvernig honum reiðir af á efstu árum. Það er líka aldrei of seint að hætta því sem er óhollt og taka upp holla lifnaðarhætti. Hvenær sem leitað er að jákvæðum þáttum varðandi meðferð sjúkdóma og fyrirbyggingu þeirra, skýtur líkamsræktin upp kollinum. Þannig hafa rannsóknir sýnt fram á jákvæð áhrif líkamsræktar á kransæðasjúkdóm, háþrýsting, sykursýki og beinþynningu. Líkamsrækt vinnur einnig gegn ristilkrabbameini, bætir jafnvægi og dregur úr byltum.

Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að flestir langvinnir sjúkdómar tvöfaldast á fimm ára fresti eftir 70 ára aldurinn. Með því að seinka sjúkdómi um 5 ár má draga úr fjölda þeirra sem hafa einkenni um 50%. Ef algengi sjúkdóms við 70 ára aldur er 2% í stað 4%, þá verður fjöldi þeirra sem hafa sjúkdóminn 16% í stað 32% við 85 ára aldur. Að óbreyttum ævilíkum myndi þetta draga verulega úr kostnaði, svo að ekki sé talað um gildi bættrar heilsu fyrir einstaklingana, fjölskyldur þeirra og samfélagið í heild.

Er raunhæft að ætla að fresta megi framkomu hinna ýmsu sjúkdóma, sem eru velþekktir fylgifiskar hækkandi aldurs? Svarið er já. Margvíslegar rannsóknir hafa leitt í ljós að meðhöndlun áhættuþátta skilar árangri. Nægir að nefna meðferð við háþrýstingi, kólesteróllækkandi meðferð, blóðþynningu við gáttatifi og meðferð sem miðar að því að auka beinmassa. Þannig má fækka hjartaáföllum, hjartabilunartilfellum, heilaáföllum og beinbrotum svo um munar.

Kvenhormón draga úr hjartasjúkdómum kvenna eftir tíðarhvörf um 44% og bæta þremur árum við lífið. Mikilvægt er að átta sig á því að eitt lyf getur haft margfeldisáhrif á mörg sjúkdómsferli. Þannig geta kvenhormónin til dæmis bæði dregið úr hjarta- og æðasjúkdómum og fækkað beinbrotum með því að viðhalda eða auka beinmassa. ACE-hamlandi blóðþrýstingslyf geta dregið úr heilaáföllum, kransæðastíflum og hjarta- og nýrnabilunum og bætt horfur gagnvart sykursýki. Sú fjárfesting sem leggja þarf í til þess að bæta heilsufar er því ekki eins mikil og ætla mætti að óathuguðu máli. Bólusetningar hafa sannað gildi sitt bæði í vörnum gegn inflúensu og lungnabólgubakteríunni. Gildi kalks (1000-1500 mg á dag) og D-vítamíns (600-800 alþjóðlegar eininga á dag) er gamalt vín á nýjum belgjum.Ýmsar rannsóknir eru í farvatninu svo sem um gildi fólínsýru í forvörnum hjarta- og æðasjúkdóma og gildi E-vítamíns í forvörnum sömu sjúkdóma og í forvörnum gegn vitrænni skerðingu, svo aðeins sé drepið á tvö dæmi. Rannsóknum á meingerð Alzheimer´s sjúkdóms fleygir fram og gefa þær vonir um að fyrirbyggjandi meðferð finnist er hindri amyloid-prótín útfellingar í heilavef áður en áratugir líða.

Mikilvægt er að afla nýrrar þekkingar. Hitt er ekki síður mikilvægt að nýta til fullnustu þá þekkingu sem þegar hefur verið aflað. Það sýnir sig að þekking skilar sér ekki fullkomlega til sjúklinganna og að bætt þekking er ekki nýtt fullkomlega til bættrar heilsu sjúklinga. Fjölmörg dæmi eru um þetta til að mynda hvað varðar blóðþynningu við gáttatifi og blóðþrýstingsmeðferð. Sjúkdómsgreining er réttilega gerð og meðferð hafin, en ákafi meðferðar er ekki slíkur að hámarksárangur náist eins og efni gætu staðið til. Klínískar leiðbeiningar fyrir lækna geta stuðlað að bættri nýtingu þekkingar sjúklingum til hagsbóta.

Hamingja á efri árum tengist litlum líkum á sjúkdómum og fötlun, mikilli vitrænni getu og líkamlegri færni og umfram allt virkri þátttöku í lífinu. Nú geta bæði einstaklingarnir sjálfir og læknar ásamt öðrum heilbrigðisstéttum gert mikið til þess að draga úr þeirri hrörnun sem við kennum við ellina enda þótt við stöðvum hana auðvitað ekki. Líkaminn lifir ekki að eilífu en tillegg okkar til eilífðarinnar er annars vegar það erfðaefni sem við gefum til barnanna okkar og hins vegar það efni sem við höfum haft að láni og skilum aftur til jarðarinnar að jarðvistinni lokinni. Og það getur nýst nýju lífi....