Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Galllitarefni gefa bæði þvagi og hægðum lit.
Galllitarefni tengjast endurnýtingu rauðra blóðkorna eða rauðkorna. Rauðkorn lifa ekki nema í um það bil 120 daga. Þetta stafar af því að viðkvæmar frumuhimnur þeirra slitna og rifna smám saman þegar rauðkornin troða sér í gegnum háræðar. Slitin, útjöskuð rauðkorn eru innbyrt af átfrumum í lifur, milta og blóðmerg (rauðum beinmerg).
Blóðrauði (hemóglóbín), sem er helsta efnið í rauðkornum, er endurnýtt í kjölfar frumuátsins. Prótínhluti efnisins (glóbín) er klipptur frá þeim hluta þess sem inniheldur járn (hemi) og sundrað í stakar amínósýrur sem líkaminn getur nýtt aftur í myndun nýrra prótína.
Járnið í heminu er flutt til lifrar og geymt þar þangað til það er flutt til rauðmergs þar sem það er endurnýtt í myndun nýrra rauðkorna. Þeim hluta af heminu sem eftir er þegar járn hefur verið fjarlægt úr því er breytt í græna litarefnið gallgrænu (bílíverdín) sem er síðar breytt í gula litarefnið gallrauðu (bílírúbín). Þessi efni lita gall sem lifrarfrumurnar mynda og teljast því til galllitarefna.
Þvag er venjulega gult eða gulbrúnt að lit og má rekja lit þess til svokallaðra galllitarefna sem myndast í lifrinni.
Lifrin losar gallrauðu út í smáþarma. Þegar gallrauða berst í ristil er henni breytt af bakteríum í efni sem kallast úróbílónógen en sumt af því berst í þvag þar sem það oxast í úróbílín, en þessi tvö efni eru þvaglitarefnin. Mestu af úróbílínógeni er þó breytt í brúna litarefnið saurbrúnku í ristli (sterkóbílíni) sem gefur hægðum einkennandi lit sinn.
Eðlilegur litur þvags er gulur eða gulbrúnn en er breytilegur af ýmsum ástæðum. Rammt þvag er dekkra en þunnt, þannig að það hversu mikið við drekkum hefur áhrif á litinn. Ýmislegt sem við borðum hefur einnig áhrif. Sem dæmi má nefna að þvag verður rauðleitt eftir neyslu rauðrófna og skærgult ef teknar eru inn sterkar B-vítamíntöflur. Ástæðan fyrir því að B-vítamín litar þvag er sú að eitt þeirra (B2-vítamín eða ríbóflavín) er gult litarefni. B-vítamín eru vatnsleysanleg og verði ofgnótt af þeim í líkamanum skolast þau út með þvagi.
Ennfremur geta lyf og ýmsir sjúkdómar haft áhrif á litinn. Sem dæmi má nefna að ef blóð er í þvagi verður það dekkra á lit og minnir gjarnan á sterkt te. Blóð í þvagi getur bent til ýmissa sjúkdóma, til dæmis nýrnasteina, nýrnabólgu og sýkingar í þvagkerfi. Breytist þvaglitur að ráði er sjálfsagt að leita læknis til að ganga úr skugga um að ekkert óeðlilegt valdi því.
Heimild og mynd:
Gerard J. Tortora (1997). Introduction to the Human Body - The Essentials of Anatomy and Physiology. Menlo Park, California: Benjamin Cummings.
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað stjórnar lit á hægðum og þvagi fólks?“ Vísindavefurinn, 26. september 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2742.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2002, 26. september). Hvað stjórnar lit á hægðum og þvagi fólks? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2742
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað stjórnar lit á hægðum og þvagi fólks?“ Vísindavefurinn. 26. sep. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2742>.