Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Samkvæmt nýjustu upplýsingum (í mars 2021) ganga að minnsta kosti 79 þekkt tungl umhverfis stærstu reikistjörnu sólkerfisins, Júpíter. Af þeim hafa 53 fengið opinber nöfn en hin ekki.
Tungl Júpíters skiptast í tvo hópa, óregluleg og regluleg. Reglulegu tunglin eru átta talsins. Þau sveima öll á reglulegum sporbrautum umhverfis Júpíter sem halla lítið. Öll eru þau í innan við tveggja milljón km fjarlægð frá plánetunni og hafa líklega myndast á svipuðum tíma og plánetan sjálf.
Fjögur innstu tunglin - Metís, Adrastea, Amalþea og Þeba - eru lítil og hafa því veikt þyngdarsvið. Þau missa þess vegna frá sér efni þegar litlir loftsteinar rekast á þau. Efnið sem þannig fellur til fer í þunna hringinn umhverfis Júpíter.
Fjögur ytri tunglin í hópi reglulegu tunglanna eru kennd við Galíleó. Þau eru langstærstu tungl Júpíters. Um Galíleótunglin og fleiri tungl má lesa nánar í svari sama höfundar við spurningunni: Hvað er einkennandi fyrir tungl Júpíters, sérstaklega Kallistó, Ganýmedes, Íó og Evrópu?
Galíleótunglin fundust í janúar 1610 þegar ítalinn Galíleó Galílei beindi sjónauka sínum á Júpíter. Galíleó nefndi tunglin Medíci-stjörnurnar til heiðurs velunnurum sínum í Medíci stórhertogaættinni í Toskana á Ítalíu. Í dag eru Galíleótunglin nefnd Íó (Jó), Evrópu, Ganýmedes og Kallistó eftir fjórum af elskhugum Seifs.
Óreglulegu tunglin eru að minnsta kosti 71 talsins. Þau eru töluvert minni en reglulegu tunglin, auk þess að vera lengra í burtu frá Júpíter og á mjög sporöskjulaga sporbrautum.
Talið er líklegt að þessi tungl hafi upprunalega verið smástirni sem festust í þyngdarkrafti Júpíters. Sum tilheyra að öllum líkindum árekstrafjölskyldum, það er að segja urðu til þegar stærri móðurhnettir splundruðust í marga smærri við árekstra við aðra hnetti.
Óreglulegu tunglin skiptast í tvennt eftir snúningsátt í kringum Júpíter, annað hvort aftur á bak (réttsælis) eða áfram (rangsælis). Réttsælishreyfingunni mætti líkja við manneskju sem gengur á móti snúningsstefnu hringekju en rangsælis með snúningsstefnunni.
Óreglulegu tunglin mynda sömuleiðis nokkra undirhópa eða fjölskyldur sem kenndir eru við stærstu tunglin í hópunum: Þemistó, Himalía, Karme, Ananke og Pasífæ.
Milli Himalíu- og Ananke-hópsins eru tvö tungl, Karpó og Valetúdó, sem eru stök og tilheyra ekki formlegum fjölskyldum - að minnsta kosti hafa ekki fundist fleiri meðlimir til þessa.
Tæplega sextíu tungl eru í meira en tuttugu milljón kílómetra fjarlægð frá Júpíter. Sporbrautir þeirra halla nærri 150 til 160 gráður og ferðast þau því aftur á bak um Júpíter miðað við snúning plánetunnar.
Á vefsíðu Scott S. Sheppard hjá Carnegie Institution for Science má finna töflu yfir öll þekkt tungl Júpíters.
Heimildir og mynd:
Sævar Helgi Bragason. „Hvað heita tungl Júpíters, hvað eru þau þung, hvað eru þau stór og hvað eru þau mörg?“ Vísindavefurinn, 28. maí 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2428.
Sævar Helgi Bragason. (2002, 28. maí). Hvað heita tungl Júpíters, hvað eru þau þung, hvað eru þau stór og hvað eru þau mörg? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2428
Sævar Helgi Bragason. „Hvað heita tungl Júpíters, hvað eru þau þung, hvað eru þau stór og hvað eru þau mörg?“ Vísindavefurinn. 28. maí. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2428>.