Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þetta gerist þegar glerið er kaldara en loftið í herberginu og nægilegur raki er í loftinu til að hann þéttist í kalda loftinu við glerið.
Í loftinu kringum okkur er oftast eitthvað af vatnsgufu eða raka, mismikið eftir atvikum. Loft við tilteknar aðstæður getur tekið upp ákveðið magn af raka. Þegar komið er að því marki mettast það og rakinn sem reynt er að bæta við þéttist og birtist okkur sem fljótandi vatn. Hlutfallið milli rakamagns í lofti og þess magns sem þarf til að að það mettist við sama hita og þrýsting nefnist rakastig. Það er 100% ef loftið er mettað, 0% ef það er alveg þurrt og annars einhver tala þarna á milli.
Því heitara sem loftið er þeim mun meiri raki getur verið í því án þess að það mettist. Ef við tökum tiltekinn loftmassa með tilteknu rakamagni í sér og hitum hann, þá lækkar rakastigið vegna þess að mettunarmarkið hækkar. Á sama hátt hækkar rakastig lofts við kælingu af því að mettunarmagnið minnkar. Ef nægilegur raki er í lofti sem kólnar kemur að því að mettunarmarkið hefur lækkað niður í það rakamagn sem er í loftinu og þá byrjar rakinn að þéttast, til dæmis sem regndropar eða þoka í loftinu eða þá að hann sest á hluti í kring.
Það er einmitt þetta sem gerist til dæmis við kalda rúðu í upphituðu herbergi þar sem loftið er nokkurn veginn kyrrstætt: Rakinn í loftinu við rúðuna þéttist og sest á glerið. Við getum líka séð þetta gerast við köld ílát sem standa nokkra stund. Sömuleiðis gerist það þegar kalt vatn rennur um málmrör í herbergi sem er heitara en vatnið. Þá sest þéttivatn á rörið og má að sjálfsögðu ekki rugla því saman við leka!
Yfirleitt má segja að þéttivatn geti myndast við hvers konar kuldafleti sem svo eru kallaðir, það er að segja fleti sem eru kaldari en loftið kringum þá. Þetta skiptir miklu máli þegar byggingar eru hannaðar því að þéttivatn getur valdið ýmiss konar tjóni á húsum og óæskilegum fyrirbærum ef ekki er hugsað fyrir þessu.
Um veðurfræðilegar hliðar þessara mála má lesa nánar í svari Haraldar Ólafssonar veðurfræðings við spurningunni 1) Af hverju myndast ský og 2) af hverju falla þau ekki til jarðar?Frekara lesefni af Vîsindavefnum:
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig og við hvaða aðstæður myndast móða á gleri?“ Vísindavefurinn, 13. maí 2002, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2375.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2002, 13. maí). Hvernig og við hvaða aðstæður myndast móða á gleri? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2375
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig og við hvaða aðstæður myndast móða á gleri?“ Vísindavefurinn. 13. maí. 2002. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2375>.