Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er til flokkunarkerfi yfir hveri?

Kristján Sæmundsson



Ýmis orð eru höfð um jarðhita á yfirborði sem fram kemur sem vatn eða gufa. Aðalnöfnin eru hver, laug og volgra, sem öðrum er síðan skeytt við, allt eftir eðli og útliti. Safnheiti eða sameiginlegt orð um þetta hefur ekki náð festu í málinu, annað en jarðhiti. Orðið varmalind sem safnheiti hefur sést en er sjaldan notað. Það mun hugsað líkt og orkulind eða auðlind og því ekki einskorðað við að vatn sjáist renna.

Gunnar Böðvarsson, einn af frumkvöðlum jarðhitarannsókna á Íslandi, gerði greinarmun á lághita utan eldvirku svæðanna og háhita innan þeirra. Sama gerði Jón Jónsson jarðfræðingur þegar hann lagði til skiptingu í vatnshverasvæði og gufuhverasvæði, hvort tveggja ágæt orð og lýsandi. Þar stendur aðaleinkennið fyrir heildina.

Ýmsir hafa reynt að flokka jarðhitann hér á landi. Þar var Þorvaldur Thoroddsen líklega frumkvöðullinn. Hann setti mörkin milli hvera og lauga við 70°C, en þó voru hverir sjóðandi í hans skilgreiningu. Þar sem yfirborðshitinn var lægstur hugsaði hann sér suðuna niðri í jörðinni, en þar var hann oftar en ekki á villigötum. Mörkin milli lauga og volgra setti hann við 25°C.

Erlendir vísindamenn sem hér voru við rannsóknir fyrir um 60 árum hafa gengið manna lengst í flokkun jarðhitans . Meðal þeirra voru líffræðingar sem flokkuðu hveri og laugar eftir ýmsum ytri aðstæðum sem síðan réðu því hvað þreifst í vatninu úr þeim.

Guðmundur Kjartansson, jarðfræðingur, flokkaði jarðhitann á jarðfræðikortum sínum, sem út komu kringum 1960. Hann lagði fyrst og fremst efnainnihaldið til grundvallar, en einnig hitastigið. Hveri kallar hann einungis þá sem sýður í, en laugar allt sem er undir suðumarki, alveg niður undir hitastig kaldavermsla. Hverunum skipti hann síðan í súra og basíska, auk brennisteins- og kísilhvera. Þeir súru eru gufu- og leirhverir, en þeir basísku vatnshverir. Eflaust komu þar fram áhrif frá alþjóðlegri flokkun þar sem gerður er greinarmunur á acid og alkaline springs. Þriðji flokkurinn hjá Guðmundi einkennist af koldíoxíði. Þar undir heyra kolsýrulaugar, kalklaugar og ölkeldur.

Flokkun Guðmundar hefur ekki þótt ásættanleg að öllu leyti. Helst hefur verið fundið að því að laugarnar spanni of vítt hitasvið. Súr og basískur um jafnhversdagsleg fyrirbæri og hveri verður seint tamt í munni fólks, þótt vel eigi við í reynd.

Í þeirri flokkun sem nú er stuðst við er sem fyrr greint á milli háhita- og lághitasvæða. Á háhitasvæðunum stígur gufa og gas upp af sjóðandi grunnvatni niðri í jörðinni. Gufuhverir koma fram þar sem gufan blandast ekki við yfirborðsvatn, en gufuhitaðir vatnshverir og laugar þar sem mikið er af yfirborðsvatni. Leirhverir með gruggugu vatni eða leðju eru þar á milli, breytilegir eftir úrkomu eða leysingu, geta jafnvel þornað upp og breyst í gufuhveri. Brennisteinshverir kallast þar sem brennisteinn fellur út í gufuhverum. Þar sem mest er af honum verða til svokallaðar brennisteinsþúfur. Úr þeim var brennisteinn numinn fyrr á tíð. Grunnvatnið í háhitasvæðunum inniheldur mikið af uppleystum efnum, einkum kísil. Þar sem slíkt vatn kemur upp á yfirborð fellur kísillinn út og myndar bungur af kísilhrúðri. Hverirnir sjálfir kallast kísilhverir. Oft eru goshverir meðal þeirra, en þeir eru fremur skammlíf fyrirbæri.

Á lághitasvæðunum fer skiptingin fyrst og fremst eftir hitastigi. Á heitustu lághitasvæðunum er vatnið neðanjarðar 130-150°C og hefur þá í sér allmikinn kísil. Þar þekkjast því kísilhverir á einstaka stað og goshverir á sumum þeim heitustu. Þeir haldast lengi virkir því minni kísill er í vatninu en á háhitasvæðunum og hleðst því ekki eins í þá. Breitt bil er á milli hvera sem eru sjóðandi og lauga í þrengstu merkingu sem eru baðheitar, en málvenjan er allt önnur sem örnefni sýna.

Algengast er að talað sé um hver ef hitinn er kringum 90°C eða hærri. Nefna má Brautartunguhver og Englandshver í Lundarreykjadal, Reykhóla með sínum mörgu "-hverum" sem svo heita og Hverakot í Grímsnesi. Oft er talað um hveri alveg niður að 70°C. Dæmi eru Krossaneshverar, Hveravík, Hveratungur, Sléttafellshverir, Einifellshver, en í þeim er hitinn á bilinu 70-80°C. Dæmi eru um enn lægri hita svo sem Hveragil á Húsafelli og Hverhólar í Skagafirði.

Fyrir kemur að heiti laug þótt nærri suðumarki sé, til dæmis Veggjalaug í Stafholtstungum og Þóroddstaðalaugar í Ölfusi. Laugarnar í Laugarnesi voru um 89°C heitar og Bakkalaugar í Ölfusi yfir 90°C. Af dæmunum hér að ofan sést að málvenja gerir ekki skörp skil á hverum og laugum eftir hita, enda eru nöfnin gömul; fremur að horft hafi verið til þess hvort ólga var í þeim og þá af suðu, hveralofti eða gusugangi þar sem þeir bulla upp. Ákveðin hitastigsmörk eru engin í gildi milli hvera og lauga, og má vel una við skiptingu Þorvaldar Thoroddsen, sem miðaðist við 70°C og 25°C milli lauga og volgra. Þegar hitinn er kominn niður fyrir 10°C er venjulega talað um kaldar lindir og kaldavermsl.

Koldíoxíð er uppleyst í bergkviku og berst í grunnvatnið þegar hún storknar, og getur vatnið þá yfirmettast af kolsýru. Kalkhrúður fellur út þar sem heitasta vatnið kemur upp. Þar eru kallaðar kalklaugar. Kolsýrulaugar fella ekki út kalkhrúður að ráði. Ölkeldur eru kaldar eða rétt volgar, yfirleitt bragðvondar vegna járns sem kolsýran leysir upp. Þær köldustu bragðast best, og verða vart flokkaðar með jarðhita.



Mynd: eldey.de

Höfundur

Kristján Sæmundsson

jarðfræðingur og fyrrverandi deildarstjóri á Orkustofnun

Útgáfudagur

24.4.2002

Spyrjandi

Kristín Ingunnar

Tilvísun

Kristján Sæmundsson. „Er til flokkunarkerfi yfir hveri?“ Vísindavefurinn, 24. apríl 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2333.

Kristján Sæmundsson. (2002, 24. apríl). Er til flokkunarkerfi yfir hveri? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2333

Kristján Sæmundsson. „Er til flokkunarkerfi yfir hveri?“ Vísindavefurinn. 24. apr. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2333>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er til flokkunarkerfi yfir hveri?


Ýmis orð eru höfð um jarðhita á yfirborði sem fram kemur sem vatn eða gufa. Aðalnöfnin eru hver, laug og volgra, sem öðrum er síðan skeytt við, allt eftir eðli og útliti. Safnheiti eða sameiginlegt orð um þetta hefur ekki náð festu í málinu, annað en jarðhiti. Orðið varmalind sem safnheiti hefur sést en er sjaldan notað. Það mun hugsað líkt og orkulind eða auðlind og því ekki einskorðað við að vatn sjáist renna.

Gunnar Böðvarsson, einn af frumkvöðlum jarðhitarannsókna á Íslandi, gerði greinarmun á lághita utan eldvirku svæðanna og háhita innan þeirra. Sama gerði Jón Jónsson jarðfræðingur þegar hann lagði til skiptingu í vatnshverasvæði og gufuhverasvæði, hvort tveggja ágæt orð og lýsandi. Þar stendur aðaleinkennið fyrir heildina.

Ýmsir hafa reynt að flokka jarðhitann hér á landi. Þar var Þorvaldur Thoroddsen líklega frumkvöðullinn. Hann setti mörkin milli hvera og lauga við 70°C, en þó voru hverir sjóðandi í hans skilgreiningu. Þar sem yfirborðshitinn var lægstur hugsaði hann sér suðuna niðri í jörðinni, en þar var hann oftar en ekki á villigötum. Mörkin milli lauga og volgra setti hann við 25°C.

Erlendir vísindamenn sem hér voru við rannsóknir fyrir um 60 árum hafa gengið manna lengst í flokkun jarðhitans . Meðal þeirra voru líffræðingar sem flokkuðu hveri og laugar eftir ýmsum ytri aðstæðum sem síðan réðu því hvað þreifst í vatninu úr þeim.

Guðmundur Kjartansson, jarðfræðingur, flokkaði jarðhitann á jarðfræðikortum sínum, sem út komu kringum 1960. Hann lagði fyrst og fremst efnainnihaldið til grundvallar, en einnig hitastigið. Hveri kallar hann einungis þá sem sýður í, en laugar allt sem er undir suðumarki, alveg niður undir hitastig kaldavermsla. Hverunum skipti hann síðan í súra og basíska, auk brennisteins- og kísilhvera. Þeir súru eru gufu- og leirhverir, en þeir basísku vatnshverir. Eflaust komu þar fram áhrif frá alþjóðlegri flokkun þar sem gerður er greinarmunur á acid og alkaline springs. Þriðji flokkurinn hjá Guðmundi einkennist af koldíoxíði. Þar undir heyra kolsýrulaugar, kalklaugar og ölkeldur.

Flokkun Guðmundar hefur ekki þótt ásættanleg að öllu leyti. Helst hefur verið fundið að því að laugarnar spanni of vítt hitasvið. Súr og basískur um jafnhversdagsleg fyrirbæri og hveri verður seint tamt í munni fólks, þótt vel eigi við í reynd.

Í þeirri flokkun sem nú er stuðst við er sem fyrr greint á milli háhita- og lághitasvæða. Á háhitasvæðunum stígur gufa og gas upp af sjóðandi grunnvatni niðri í jörðinni. Gufuhverir koma fram þar sem gufan blandast ekki við yfirborðsvatn, en gufuhitaðir vatnshverir og laugar þar sem mikið er af yfirborðsvatni. Leirhverir með gruggugu vatni eða leðju eru þar á milli, breytilegir eftir úrkomu eða leysingu, geta jafnvel þornað upp og breyst í gufuhveri. Brennisteinshverir kallast þar sem brennisteinn fellur út í gufuhverum. Þar sem mest er af honum verða til svokallaðar brennisteinsþúfur. Úr þeim var brennisteinn numinn fyrr á tíð. Grunnvatnið í háhitasvæðunum inniheldur mikið af uppleystum efnum, einkum kísil. Þar sem slíkt vatn kemur upp á yfirborð fellur kísillinn út og myndar bungur af kísilhrúðri. Hverirnir sjálfir kallast kísilhverir. Oft eru goshverir meðal þeirra, en þeir eru fremur skammlíf fyrirbæri.

Á lághitasvæðunum fer skiptingin fyrst og fremst eftir hitastigi. Á heitustu lághitasvæðunum er vatnið neðanjarðar 130-150°C og hefur þá í sér allmikinn kísil. Þar þekkjast því kísilhverir á einstaka stað og goshverir á sumum þeim heitustu. Þeir haldast lengi virkir því minni kísill er í vatninu en á háhitasvæðunum og hleðst því ekki eins í þá. Breitt bil er á milli hvera sem eru sjóðandi og lauga í þrengstu merkingu sem eru baðheitar, en málvenjan er allt önnur sem örnefni sýna.

Algengast er að talað sé um hver ef hitinn er kringum 90°C eða hærri. Nefna má Brautartunguhver og Englandshver í Lundarreykjadal, Reykhóla með sínum mörgu "-hverum" sem svo heita og Hverakot í Grímsnesi. Oft er talað um hveri alveg niður að 70°C. Dæmi eru Krossaneshverar, Hveravík, Hveratungur, Sléttafellshverir, Einifellshver, en í þeim er hitinn á bilinu 70-80°C. Dæmi eru um enn lægri hita svo sem Hveragil á Húsafelli og Hverhólar í Skagafirði.

Fyrir kemur að heiti laug þótt nærri suðumarki sé, til dæmis Veggjalaug í Stafholtstungum og Þóroddstaðalaugar í Ölfusi. Laugarnar í Laugarnesi voru um 89°C heitar og Bakkalaugar í Ölfusi yfir 90°C. Af dæmunum hér að ofan sést að málvenja gerir ekki skörp skil á hverum og laugum eftir hita, enda eru nöfnin gömul; fremur að horft hafi verið til þess hvort ólga var í þeim og þá af suðu, hveralofti eða gusugangi þar sem þeir bulla upp. Ákveðin hitastigsmörk eru engin í gildi milli hvera og lauga, og má vel una við skiptingu Þorvaldar Thoroddsen, sem miðaðist við 70°C og 25°C milli lauga og volgra. Þegar hitinn er kominn niður fyrir 10°C er venjulega talað um kaldar lindir og kaldavermsl.

Koldíoxíð er uppleyst í bergkviku og berst í grunnvatnið þegar hún storknar, og getur vatnið þá yfirmettast af kolsýru. Kalkhrúður fellur út þar sem heitasta vatnið kemur upp. Þar eru kallaðar kalklaugar. Kolsýrulaugar fella ekki út kalkhrúður að ráði. Ölkeldur eru kaldar eða rétt volgar, yfirleitt bragðvondar vegna járns sem kolsýran leysir upp. Þær köldustu bragðast best, og verða vart flokkaðar með jarðhita.



Mynd: eldey.de...