Ætla má að þar sem Sturlubók og Melabók ber saman byggi þær báðar á sameiginlegri eldri gerð af Landnámu. Þar sem Melabók er illa varðveitt er hins vegar samanburður á þeim ekki auðveldur. Það er þó athyglisvert að frá móðurætt Leifs er sagt svo í Melabók:
Jörundur var annar son Úlfs. Hann átti Þorbjörgu knarrarbringu. Þeirra dóttir var Þjóðhildur, er átti Eiríkur hinn rauði, er nam Grænland.Í Sturlubók segir hins vegar:
Jörundur hét sonur Úlfs hins skjálga. Hann átti Þorbjörgu knarrarbringu. Þeirra dóttir var Þjóðhildur, er átti Eiríkur rauði, þeirra son Leifur hinn heppni á Grænlandi.Hér virðist upplýsingum um Leif vera bætt við yngri gerð (Sturlubók) og hafa þær þá ekki verið í frum-Landnámu. Frá Eiríki rauða segir bæði í Sturlubók (og síðar Hauksbók) Landnámu og Eiríks sögu og er sú frásögn samhljóða, svo að um rittengsl hlýtur að vera að ræða:
Þorvaldur hét maður. Hann var son Ásvalds Úlfssonar Yxna-Þórissonar. Eiríkur hét son hans. Þeir feðgar fóru af Jaðri til Íslands fyri víga sakir og námu land á Hornströndum og bjuggu að Dröngum. Þar andaðist Þorvaldur, en Eiríkur fékk þá Þjóðhildar, dóttur Jörundar Atlasonar og Þorbjargar knarrarbringu.Miðað við þetta var Eiríkur fæddur í Noregi en eiginkona hans, Þjóðhildur, var íslensk, og Leifur þar af leiðandi ekki fæddur fyrr en eftir að Eiríkur kom til Íslands. Samkvæmt þessari frásögn á Eiríkur að hafa gert bú í Haukadal, en þar bjó stjúpfaðir Þjóðhildar er nefndur var Þorbjörn. Ekki kemur beinlínis fram hvort Leifur hafi fæðst þar, eða eftir að Eiríkur flutti til Grænlands. En ef tímatal sagnanna, sem runnið er frá Ara fróða, á að ganga upp, er útilokað að Leifur hafi fæðst á Grænlandi, því að hann væri þá ekki eldri en tólf ára þegar hann fór á fund Ólafs konungs. Þessar heimildir eru að vísu allar unglegar en öðrum og betri heimildum um Leif er samt ekki til að dreifa. Út frá vitnisburði þessara sagna er sem sagt hægt að slá því föstu að Leifur hefur verið fæddur eftir að faðir hans fór frá Noregi en áður en hann flutti til Grænlands. Hann er því fæddur á Íslandi, einhvers staðar við Breiðafjörðinn og líklega í Haukadal. Ef marka má sömu sögur, er hann hins vegar norskur í aðra ætt, þar sem faðir hans átti ekki ættir að rekja til Íslands. Móðir hans á hins vegar að hafa verið komin af landnámsmanni og því eins rótgróinn Íslendingur og þá var hægt að vera. Leifur átti því ekki bara ættir að rekja til Íslands, hann var fæddur hér. Gefur þetta okkur heimild til að kalla Leif Íslending? Já, vissulega ef hann er skilgreindur á mælikvarða okkar daga. Það er hins vegar meira vafamál hvort Leifur hefði sjálfur kallað sig Íslending. Aftur verðum við að byggja á þeim sögnum sem til eru frá miðöldum, þótt þær séu ekki samtímaheimildir. Hvorki Eiríks saga né Grænlendinga saga gera mikið af því að draga þá sem fóru til Vínlands í dilka eftir þjóðerni. Í Grænlendinga sögu er tekið fram að meðal ferðafélaga Leifs til Vínlands var „suðurmaður einn“ (það er Þjóðverji), og í Eiríks sögu er sagt frá skosku fólki sem var með í för, en aðrir förunautar eru ekki flokkaðir eftir þjóðerni. Suðurmenn og Skotar eru hvorirtveggju ólíkir að uppruna þeim norrænu mönnum sem voru í meirihluta í þessum ferðum. Þeir eru aldrei flokkaðir. Lið Karlsefnis á Vínlandi er aldrei kallað annað en „þeir Karlsefni“ í Eiríks sögu, þegar verið er að kljást við Skrælingja þar en ekki norrænir menn, Íslendingar eða Grænlendingar. Einnig má telja athyglisvert að sá sem fyrst greinir frá Leifi og ættmennum hans, Ari fróði, skilgreinir ekki hvort Eiríkur rauði var talinn norskur eða íslenskur, hann kallar hann bara „Breiðfirðing". Kannski skipti það meira máli að geta þess hvaðan af landinu menn komu, heldur en að flokka þá í Norðmenn og Íslendinga. Að minnsta kosti kemur fram í frásögn Landnámu og öðrum sem byggja á henni að þeir sem fóru til Grænlands með Eiríki komu „úr Breiðafirði og Borgarfirði“. Í Eiríks sögu eru fylgdarmenn Þorfinns karlsefnis frá Íslandi til Grænlands „Bjarni Grímólfsson, breiðfirskur að ætt, annar hét Þórhallur Gamlason, austfirskur maður“. Í Grænlendinga sögu eru bræðurnir Helgi og Finnbogi, sem Freydís Eiríksdóttir lék grátt á Vínlandi, sagðir „íslenskir að kyni og úr Austfjörðum“. Þar er Þorsteinn Eiríksson, bróðir Leifs, látinn segja við Guðríði Þorbjarnardóttur, konu sína, „að þú munt gift vera íslenskum manni“ og er átt við að hún muni giftast Karlsefni. Ef til vill má skilja orð Þorsteins svo að hann hafi skilgreint sig sjálfan sem Grænlending en ekki Íslending. Einnig mætti ímynda sér að lögð sé áhersla á íslenskan uppruna Helga og Finnboga vegna þess að Freydís og hennar menn hafi litið á sig sem Grænlendinga, en ekki Íslendinga. Því má segja að í Grænlendinga sögu sé að finna örlitla vísbendingu um að höfundur sögunnar hafi skilgreint Eirík og fjölskyldu hans eftir búsetu, sem Grænlendinga. Hitt er fullvíst að á þeim tíma hefur mönnum ekki þótt jafnt brýnt og ýmsum virðist þykja nú, að skilgreina það hvort Leifur hafi verið Íslendingur, Grænlendingur eða norrænn maður, Breiðfirðingur eða kristniboði eða kannski allt þetta. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvor var á undan að finna Ameríku, Leifur heppni eða Bjarni Herjólfsson? eftir Gunnar Karlsson
- Af hverju er sagt að Leifur heppni hafi fundið Ameríku þegar Indíánar voru þar langt á undan? eftir ÞV
- Hvers vegna er heiminum kennt að Kólumbus hafi fundið Ameríku þegar Leifur Eiríksson kom þangað fyrstur? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Wikipedia.com. Sótt 5.8.2010.