Í Eiríks sögu rauða er Bjarni Herjólfsson ekki nefndur, en sagt að Leifur Eiríksson hafi rekist á land, þar sem voru hveitiakrar sjálfsánir og vínviður vaxinn, á leið sinni frá Noregi til Grænlands. Hann kannaði landið en hélt svo til Grænlands og átti ekki aftukvæmt til Vínlands. Lengi var talið að Eiríks saga rauða væri áreiðanlegri en Grænlendinga saga, enda hefur Leifur fengið alla frægðina af fundi Ameríku. En árið 1956 færði Jón Jóhannesson prófessor rök að því í grein að Grænlendinga saga væri eldri og áreiðanlegri. Síðan hefur Ólafur Halldórsson kannað þetta mál mest, og er niðurstaða hans sú að ekki sé hægt að gera upp á milli sagnanna sem slíkra. Hvorug þeirra styðjist við hina, og séu þær líklega skrifaðar um svipað leyti eftir sögusögnum, að hluta til ólíkum. Meiri líkur verða að teljast á að sögusagnir einfaldist í meðförum en að þær verði flóknari. Líklegra er að Bjarni Herjólfsson hafi gleymst í sögnunum sem liggja að baki Eiríks sögu en að honum hafi verið bætt við í sögnunum sem Grænlendinga saga hefur notað. Líklegra er að verk tveggja manna, Bjarna og Leifs, hafi orðið að verki eins, Leifs, þegar sögunar gengust í munni, en öfugt. Því finnst mér sennilegra að Bjarni hafi fundið landið sem seinna var kallað Ameríka en Leifur. En það er hreint ekki öruggt og hverjum manni leyfilegt að halda því fram um þetta efni sem honum finnst líklegast. Það eina sem er vitað með fullri vissu er að norrænir menn hafa byggt hús á Nýfundnalandi einhvern tímann kringum aldamótin 1000. Það sanna fornleifar sem hafa verið grafnar upp í L’Anse aux Meadows þar í landi. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver er sönnun þess að Leifur heppni fann Ameríku? eftir UÁ
- Af hverju er sagt að Leifur heppni hafi fundið Ameríku þegar Indíánar voru þar langt á undan? eftir ÞV
- Hvers vegna er heiminum kennt að Kólumbus hafi fundið Ameríku þegar Leifur Eiríksson kom þangað fyrstur? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Wikipedia.com. Sótt 16.6.2010.