Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Við erum ekki alveg viss, hvort spyrjandi átti við 'fljúga' eða 'fjúka'. Síðari spurningin, með 'fjúka', er einföld. Ef það er rétt að spörfuglar fjúki ekki í fárviðrum er það auðvitað vegna þess að þeir leita sér skjóls og halda sér í það sem þeir standa eða sitja á, en fuglsfætur eru vel lagaðir til þess eins og kunnugt er.
Hin spurningin, af hverju fljúga þeir ekki, er miklu skemmtilegri og fróðlegri! Hún tengist flughraða fuglanna. Ef hann er minni en vindhraðinn hrekur fuglinn óhjákvæmilega undan vindinum. Jafnvel þótt vindur væri fullkomlega stöðugur er því allsendis óvíst að fuglinn geti lent eðlilega. Landfugl gæti þannig hæglega hrakist til dæmis á haf út og fuglar yfirleitt gætu borist langar leiðir frá heimkynnum sínum. Og þó að fuglinn hefði við vindinum gæti honum reynst erfitt að lenda ef vindhraðinn er mjög breytilegur með stað og tíma eins og oft er í hvassviðri (en hann flygi þá að sjálfsögðu upp í vindinn).
Hér má einnig hafa í huga að fuglar nota mikla orku til flugs og þurfa að nýta vel þá orku sem þeir afla með fæðunni. Flug í hvassviðri þýðir yfirleitt að mikil orka fer til spillis, nema þá að fuglinn sé beinlínis að nýta sér meðvind í langflugi með tilteknu markmiði, til dæmis í farflugi.
Hugsum okkur að fugl vilji fara frá stað A til B og til baka í ákveðnum tilgangi, til dæmis til fæðuöflunar. Ef mótvindur er mikill aðra hvora leiðina, en þó ekki meiri en svo að fuglinn hefur við vindinum, þá er þessi ferð samt miklu dýrari í orku en sama ferð í logni eða hægviðri.
Fuglar hafa því ýmsar gildar ástæður til að spara sér flug í roki!
Mikilvægt er að gera sér vel ljóst að flug fuglsins af eigin rammleik miðast við loftið í kring og hraði þess "bætist við" hraða fuglsins miðað við loftið. Þá er átt við samlagningu vigra (vektora) en það þýðir að hraðatölurnar leggjast til dæmis saman ef bæði vindur og fugl stefna í sömu átt en dragast hvor frá annarri ef stefnan er gagnstæð. Þetta er alveg eins og hjá flugvélum en um þær hefur verið fjallað í öðrum svörum á Vísindavefnum.
Vindhraði í aftakaveðri er oft um og yfir 30 m/s (metrar á sekúndu) eða yfir 110 km/h (kílómetrar á klukkustund). Flughraði fugla er breytilegur eftir tegundum og aðstæðum og auk þess er nokkuð erfitt að mæla hann, til dæmis einmitt vegna áhrifa frá vindi. Endur og gæsir fara 60-80 km á klukkustund í langflugi en smáfuglar fara mun hægar eða 30-45 km/h og sumir spörfuglar jafnvel ekki nema 15-25 km/h. Við sjáum af þessu að fuglar komast ekki móti vindi í ofsaveðri og því fer fjarri um smáfugla.
Á farflugi fara fuglar umtalsverðar vegalengdir á sólarhring. Endur og gæsir geta þannig farið 6-800 km með því að fljúga í 10 tíma á dag án meðvinds, en smáfuglar fara hægar. Auk þess er talið að farfuglar reyni eftir föngum að nýta sér meðvind þegar þeir velja sér flughæð og tíma til ferðar. Þessi hraði þýðir að farfuglar á leið til eða frá Íslandi þurfa ekki að fljúga látlaust nema 1-3 sólarhringa í senn og sumir ef til vill skemur en sólarhring.
Höfundur þakkar Arnþóri Garðarssyni yfirlestur.
Aðalheimild: Northern Prairie Wildlife Research Center.
Þessu tengt á Vísindavefnum: Hvernig getur sviffluga haldist á lofti og flogið?
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig stendur á því að spörfuglar fljúga ekki svo neinu nemi í aftakaveðrum?“ Vísindavefurinn, 3. apríl 2001, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1455.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2001, 3. apríl). Hvernig stendur á því að spörfuglar fljúga ekki svo neinu nemi í aftakaveðrum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1455
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig stendur á því að spörfuglar fljúga ekki svo neinu nemi í aftakaveðrum?“ Vísindavefurinn. 3. apr. 2001. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1455>.