Efri og neðri loftstraumurinn fara framhjá vængnum á sama tíma og því má sjá að loftið sem fer yfir hann þarf að ferðast með meiri hraða. Það er grundvallaratriði vegna þess að þrýstingur lofts minnkar með auknum hraða þess. Þetta náttúrulögmál, sem er kennt við Svisslendinginn Daniel Bernoulli (1700-1782), má sannreyna með einfaldri tilraun: Haldið tveimur blaðsíðum fyrir framan ykkur og blásið á milli; við það fellur þrýstingurinn á milli blaðanna og þau færast saman. Til þess að loftfar haldist á lofti þarf að sjá til þess að nægur loftstraumur sé um vænginn til þess að þrýstingsmunurinn vegi upp á móti þyngd loftfarsins. “Venjulegar” flugvélar eru knúnar áfram í gegnum loftið með skrúfu- eða þotuhreyflum. Þyrlur hreyfa einfaldlega vænginn sjálfan, en hver þyrluspaði verkar í grundvallaratriðum eins og flugvélarvængur.
Svifflugur þarf hins vegar að draga á loft. Til að tryggja nægilegt loftstreymi um vænginn eftir það verða þær að lækka flugið í sífellu, miðað við loftið, og breyta þannig stöðuorku sinni í hreyfiorku. Til þess að bæta þetta upp og geta verið lengur á lofti leitast menn við að fljúga svifflugum þar sem vænta má uppstreymis í lofti, til dæmis í fjalllendi. Í slíkum tilfellum lyftist allur loftmassinn umhverfis sviffluguna og hún með og þannig má svífa án vélar klukkustundum saman. Þrátt fyrir að grundvallaratriðin í svifflugi séu þau sömu og í vélflugi eru þó ýmis sérkenni í hönnun sviffluga. Ekki verður farið nákvæmlega út í þau hér, en sem dæmi má nefna að svifflugur eru mun léttari en vélknúnar flugvélar sömu stærðar, en mikil þyngd sparast við það að sleppa hreyfli, eldsneytistönkum, eldsneyti og svo framvegis. Einnig eru vængirnir óvenjustórir og gefa því hámarkslyftikraft við þann lága hraða sem svifflugur fljúga á. Slíkir vængir mundu hins vegar verða til óþurftar á hraðskreiðari flugvélum vegna þess að þeir veita þá mun meira viðnám gegn hreyfingu vélarinnar fram á við. Mynd af svifflugu:
- Wikipedia. Sótt 12. 7. 2011.