Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Orðið urðarköttur er stundum notað sem samheiti fyrir útigangskött eða villikött en í raun – eða samkvæmt þjóðtrúnni – er hann miklu hræðilegri skepna. Þar tilheyrir urðarköttur hópi óvættadýra á borð við skoffín, finngálkn, skuggabaldur og moðorm. Flest þessi furðudýr eru talin hafa orðið til á einhvern ónáttúrulegan hátt. Oft eru þau sögð afkvæmi ólíkra dýrategunda, svo sem katta, hunda og refa eða jafnvel koma þau úr hanaeggi eða verða til ef tík étur ósoðið hanaegg.
Skoffín – afkvæmi kattar og refs, eða refs og tíkur, eða úr hanaeggi.
Finngálkn – úr hanaeggi, eða afkvæmi refs og kattar.
Skuggabaldur – afkvæmi refs og kattar, eða hunds og kattar, eða úr hanaeggi.
Moðormur – hvolpur þar sem tíkin hefur étið ósoðið hanaegg.
Urðarköttur er líka stundum talinn vera einhvers konar kynblendingur en oftast er talið að hann hafi verið venjulegur köttur sem hafi náð að éta bita af mannslíki. Þá grefur hann sig í jörð, oft í kirkjugarði, í þrjú ár en kemur síðan upp sem hræðilega grimm og jafnvel mannskæð skepna.
Flest þessara óvættadýra eiga það sameiginlegt að geta drepið skepnur og fólk með augnaráðinu. Þau þola heldur ekki sitt eigið augnaráð þannig að til að ráða niðurlögum þeirra er nóg að beina að þeim spegli þannig að þau sjái sig sjálf. Annað ráð er að skjóta þau en þá er nauðsynlegt að byssukúlan sé úr silfri.
Hægt er að lesa sagnir af þessum dýrum í þjóðsagnasöfnum Jóns Árnasonar (1. bindi, bls. 610–611) og Sigfúsar Sigfússonar (4. bindi, bls. 233–238).
Heimildir og mynd:
Jón Árnason. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Ný útg. 6 bindi. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson sáu um útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954–61.
Sigfús Sigfússon. Íslenskar þjóðsögur og sagnir. 11 bindi. Óskar Halldórsson, Grímur M. Helgason og Helgi Grímsson bjuggu til prentunar. Reykjavík: Þjóðsaga, 1982–93.