Eru dæmi um að refir og kettir eignist afkvæmi saman? Ef svo er hvað heita þau þá?Samkvæmt þjóðtrú eru skoffín afkvæmi refs og kattar, þar sem kötturinn er móðirin. Orðið er einnig notað í merkingunni 'fífl', 'kjáni', 'stelputrippi' og stundum sem gæluorð um börn. Skuggabaldur er afkvæmi sömu dýra en kemur úr móðurkviði refsins. Skuggabaldur er einnig notað yfir 'illan anda', 'myrkramann' og 'læðupoka'. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að lítil hætta stafi af skoffínum þar sem þau séu ætíð drepin áður en þau komast upp, enda hægt um heimatök þar sem móðirin er heimilisköttur. Skuggabaldurinn er hins vegar öllu viðsjárverðara dýr og samkvæmt þjóðsögum gerast þeir dýrbítar og verða ekki skotnir með byssum. Samkvæmt einni sögn náðu Húnvetningar að króa skuggabaldur af og drepa. Áður en hann var stunginn mælti hann áhrínisorð. Banamaðurinn hermdi orð skuggabaldurs í baðstofu um kvöld og stökk þá gamall fressköttur á manninn:
Hljóp kötturinn á hann og læsti hann í hálsinn með klóm og kjafti, og náðist kötturinn ekki fyrr en höfuðið var stýft af honum, en þá var maðurinn dauður.Við þorum að fullyrða að kettir og refir geti ekki, og hafi aldrei, átt saman afkvæmi. Þó að þetta séu tvö rándýr (carnivora) þá eru þau tiltölulega fjarskyld innan ættbálksins. Ennfremur er það svo að kettir og refir hafa ekki sama litningafjölda. Kettir eru með 19 litningapör (2n=38 litninga) en refir eru með 25 pör (2n=50 litninga). Það eru þess vegna engar erfðafræðilegar forsendur fyrir því að þessar tegundir geti af sér afkvæmi. Það er því uppspuni að kvikindin skoffín og skuggabaldur hafi herjað á húnvetnska bændur, sem og aðra Íslendinga, fyrr á öldum. Heimild og mynd:
- Jón Árnason, Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I, 612-13.
- EBGames (Myndin hér að ofan er úr 3. myndinni í Alien-seríunni en þar spratt upp einkennileg hundategund eftir 'æxlun' hunds og skrímslis.)