Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Útfjólublá geislun er rafsegulgeislun með styttri bylgjulengd og hærri orku en sýnilegt ljós. Við sjáum ekki útfjólubláa geisla með berum augum en sumir fuglar, fiskar og skordýr geta greint þessa geislun.
Í rófi rafsegulbylgna er útfjólublá geislun milli sýnilegs ljóss og röntgengeislunar. Bylgjulengd útfjólublás ljóss er frá 400 nm (1 nm = 10-9m) og niður í 100 nm, en samkvæmt sumum skilgreiningum nær hún allt niður í 4 nm.
Sólin sendir frá sér breitt róf rafsegulgeislunar. Útfjólubláa geislunin veldur sólbruna og eykur líkur á húðkrabbameini. Hér til hliðar sést mynd af sólinni, tekin með útfjólubláu ljósi.
Áhrif útfjólublárrar geislunar á mannslíkamann eru þó ekki eingöngu skaðleg. Útfjólublá geislun örvar framleiðslu D-vítamíns í húðinni. Geislunin getur einnig haft læknandi áhrif á húðsjúkdóma svo sem sóra (psóríasis) og exem. Útfjólublá geislun er þar að auki notuð til að sótthreinsa loft og vatn, þar sem hún drepur ýmsar óæskilegar örverur.
Aðeins lítill hluti þeirrar útfjólubláu geislunar sem fellur á hnöttinn okkar kemst í gegnum lofthjúpinn og niður á jörðina. Mestur hluti geislunarinnar er gleyptur í efri hlutum lofthjúpsins af sérstökum sameindum súrefnis sem mynda ósonlagið. Þótt það komi sér vel fyrir okkur að hafa þessa vörn gegn skaðlegum áhrifum útfjólublárra geisla kemur hún sér illa fyrir stjarnvísindamenn. Erfitt er að mæla útfjólublátt ljós frá stjörnum og vetrarbrautum niðri á jörðinni. Sjónaukar sem nema útfjólublátt ljós hafa því verið festir á gervitungl og einnig hafa verið teknar myndir frá tunglinu.
Heimild og mynd: Heimasíða NASA.
Hildur Guðmundsdóttir. „Hvað eru útfjólubláir geislar?“ Vísindavefurinn, 3. júní 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5033.
Hildur Guðmundsdóttir. (2005, 3. júní). Hvað eru útfjólubláir geislar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5033