Stöðuvatn | Heimsálfa | Stærð (km2) |
Kaspíahaf | Asía - Evrópa | 386.400 |
Superiorvatn | Norður-Ameríka | 82.100 |
Viktoríuvatn | Afríka | 69.500 |
Huronvatn | Norður-Ameríka | 59.600 |
Michiganvatn | Norður-Ameríka | 57.800 |
Tanganyikavatn | Afríka | 32.900 |
Baykalvatn | Asía | 31.500 |
Stóra-Bjarnarvatn | Norður-Ameríka | 31.300 |
Aralvatn | Asía | 30.700 |
Malawívatn | Afríka | 29.600 |
Einhverjir vilja sjálfsagt frekar kalla Kaspíahaf landlukt haf en stöðuvatn þar sem það er salt. Ef svo er þá ætti Aralvatn að tilheyra þeim flokki líka. Yfirleitt eru þau þó talin til vatna. Listinn yfir 10 stærstu vötn heims leit aðeins öðruvísi út fyrir nokkrum áratugum síðan þar sem Aralvatn var áður fyrr fjórða stærsta stöðuvatn í heimi, alls 68.320 km2. Eins og lesa má í svari Jóns Ólafssonar við spurningunni Hverjar eru orsakir þess að Aralvatn minnkar svona mikið? tók vatnið að minnka í kringum 1960 með þeim afleiðingum að í dag er flatarmál þess innan við helmingur af því sem það var um miðja síðustu öld. Að Kaspíahafi undanskildu (sem liggur á mörkum Evrópu og Asíu) er ekkert stöðuvatn sem tilheyrir Evrópu á listanum yfir 10 stærstu vötn jarðar. Af stærstu stöðuvötnum Evrópu eru 5 í Rússlandi og eitt á mörkum Rússlands og Eistlands, 3 í Svíþjóð og 1 í Finnlandi. Í samanburði við helstu stöðuvötn heims eru stærstu vötn Evrópu flest frekar lítil eins og sjá má í eftirfarandi töflu:
Stöðuvatn | Land | Stærð (km2) |
Ladogavatn | Rússland | 17.700 |
Onegavatn | Rússland | 9.720 |
Vänern | Svíþjóð | 5.585 |
Rybinskvatn | Rússland | 4.580 |
Peipusvatn | Eistland - Rússland | 3.550 |
Vättern | Svíþjóð | 1.912 |
Vyg | Rússland | 1.340 |
Saimaavatn | Finnland | 1.147 |
Mälären | Svíþjóð | 1.140 |
Hvítavatn | Rússland | 1.125 |
Annað sem rétt er að taka fram er að Saimaavatn í Finnlandi er stundum sagt stærra að flatarmáli en hér er gefið upp, allt að 4.400 km2. Ástæðan er sú að það er hluti af kerfi vatna sem öll tengjast og stundum virðist vera miðað við að allt kerfið sé eitt vatn (e. Great Saimaa lake system eða Greater Saimaa). Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um stöðuvötn, til dæmis: Heimildir og mynd: