Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Tvö ríki í Mið-Asíu eiga land að Aralvatni, Kasakstan og Úsbekistan, en vatnasvið þess nær til þriggja annarra ríkja, Túrkmenistan, Tadsjikistan og Kirgistan. Áður tilheyrði þetta svæði Sovétríkjunum. Aralvatn var fjórða stærsta stöðuvatn jarðar, 68.320 km2. Svo háttar til um Aralvatn að frá því rennur ekkert vatn en tvö meginfljót falla í það, Syr-Darja í Kasakstan og Amu-Darja í Úsbekistan. Þess vegna ræðst vatnsborðshæðin í Aralvatni og vatnsmagnið í því af tvennu:
Mismun á úrkomu sem á vatnið fellur (P) og uppgufun af því (E). Þetta er almennt táknað sem P-E. Við Aralvatn er uppgufum miklu meiri en úrkoma.
Vatnsmagni sem berst með fljótum í vatnið, almennt táknað sem R.
Til þess að vatnsborðið haldist stöðugt þurfa aðstæður að jafnaði að vera þannig að mismunur úrkomu og uppgufunar vegi upp á móti írennslinu eða að (P-E)+R=0. Aralvatn hefur minnkað vegna breytinga bæði á R og (P-E).
Fram yfir miðja síðustu öld háttaði svo til að vatnsborðssveiflur í Aralvatni voru einkum vegna misjafns árferðis, veðurfars og úrkomu við vatnið og á vatnasvæðum fljótanna tveggja. En þar sem ekkert rann úr vatninu þá höfðu í tímans rás safnast í vatnið uppleyst efni sem fljótin báru með sér vegna veðrunar og seltan í vatninu, eða magn uppleystra efna, var um 10 g/l sem er um þriðjungur þess sem er í venjulegum sjó.
Á sjötta áratug síðustu aldar ákváðu stjórnvöld í Sovétríkjunum að nýta fljótin tvö til áveitu og ræktunar á baðmull og hrísgrjónum í stórum stíl, en þessar tegundir eru mjög vatnsfrekar. Stíflur voru gerðar og áveituskurðir sem voru orðnir samtals 700.000 km að lengd árið 1988. Mikið af áveituvatninu gufaði upp og náði aldrei til Aralvatns, rennslið í það (R) minnkaði og þar sem uppgufun var meiri en úrkoma á vatnið, tók það að minnka um 1960.
Árið 1998 hafði ströndin færst fram allt að 75 km, flatarmál vatnsins minnkað um 60%, vatnsborðið lækkað um 18 m og seltan í vatninu var orðin um 45 g/l. Vatnið skiptist í tvennt.
Áhrif breytinganna á náttúrufar og mannlíf voru geysileg. Eitt af því sem gerst hefur er að loftslag við vatnið hefur breyst. Það dró úr temprandi áhrifum vatnsins um leið og yfirborð þess minnkaði. Hitinn vor og sumar hefur því hækkað en vetrarkuldar aukist. Uppgufun af vatninu hefur aukist og mismunur úrkomu og uppgufunar, sem var um 830 mm á ári, er orðinn um 980 mm á ári. Þetta eykur enn á vandann við mótvægisaðgerðir sem hafa vafist fyrir mönnum. Þó er verið að hrinda af stað verkefni sem miðast við að einangra norðurhluta vatnsins með stíflugörðum frá suðurhlutanum og haga rennsli Syr-Darja fljótsins þannig að á tíu árum hækki vatnsborðið um tíu metra. Suðurhluta vatnsins verður sennilega ekki hægt að bjarga þar eð rennsli Amu-Darja í vatnið er lítið nú orðið. Kostnaður við þetta verk er áætlaður um 85 milljónir dollara og leggur Alþjóðabankinn fram 64 milljónir.
Frá þessu er greint í tímaritinu New Scientist 3. janúar 2003 í greininni „Long time no sea“.
Myndir:
Jón Ólafsson. „Hverjar eru orsakir þess að Aralvatn minnkar svona mikið?“ Vísindavefurinn, 29. apríl 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3372.
Jón Ólafsson. (2003, 29. apríl). Hverjar eru orsakir þess að Aralvatn minnkar svona mikið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3372
Jón Ólafsson. „Hverjar eru orsakir þess að Aralvatn minnkar svona mikið?“ Vísindavefurinn. 29. apr. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3372>.