Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eldmaurar eru meðal alræmdustu skordýra heims enda stinga þeir bráð sína og geta drepið hana. Ef búi þeirra er raskað hópast eldmaurarnir að innrásaraðilanum og geta valdið honum miklum ama og sársauka, jafnvel þó þar sé um að ræða stór spendýr á borð við menn. Ásamt hermaurum eru eldmaurar þeir maurar sem fólk óttast hvað mest, samanber ýmsar bókmenntir og kvikmyndir á borð við Legion of Fire: Killer Ants! og Fire Ants: The Invincible Army.[1]
Nokkrar tegundir maura ganga undir nafninu eldmaurar, meðal annars svartir eða rauðir eldmaurar. Einnig má nefna hina svokölluðu evrópsku eldmaura (Myrmica rubra) sem hafa fundist hérlendis eins og fjallað er um í svari sömu höfunda við spurningunni Hafa evrópskir eldmaurar fundist á Íslandi? Hér verður hins vegar fjallað sérstaklega um rauða eldmaurinn (Solenopsis invicta) sem er mjög skæður, meðal annars vegna þess að tegundin hefur dreifst frá upprunalegum heimkynnum sínum til annarra landa þar sem hann telst vera ágeng tegund.
Mynd 1. Rauðir eldmaurar (Solenopsis invicta) sem numið hafa land í Flórída.
Rauði eldmaurinn (einnig kallaður „eldmaurinn“) er tegund maura sem á uppruna sinn og finnst aðallega í Suður-Ameríku (einkum í Brasilíu, Bólivíu, Paragvæ, Úrúgvæ og Argentínu).[2] Fyrir slysni barst eldmaurinn til Bandaríkjanna einhvern tíma á árabilinu 1933-1945, líklega með fraktflutningum. Nú hefur hann nú breiðst um öll syðri ríki landsins.[3]
Mynd 2. Dreifing eldmaura um suðurríki Bandaríkjanna (auðkennd með tveggja stafa kóða). Rauður litur táknar staði þar sem eldmaurar hafa fundist.
Eldmaurar hafa einnig borist til og dreifst um Kína, Ástralíu, Nýja-Sjáland og Mexíkó, auk nokkurra fleiri svæða þar sem heitt loftslag ríkir. Merkilegt þykir að þessi mjög svo ágenga tegund hefur hvorki náð fótfestu í Afríku né Evrópu, að minnsta kosti enn sem komið er.[4] Rauði eldmaurinn er mjög skæð og ágeng tegund sem ræðst inn á svæði sem búið er að raska, byggir stór bú og hefur mikil áhrif á lífríki svæðanna.[5] Í Bandaríkjunum varð eldmaurinn snemma að alvarlegum vágesti sem herjaði sérstaklega á landbúnað. Um árið 1990 var áætlað tjón af völdum eldmaura á uppskeru sojabauna í Suðurríkjunum talið nema um 150 milljónum bandaríkjadala á ári.[6]
Maurar geta myndað ólík bú. Í búum sumra tegunda er ein drottning og allar þernurnar eru dætur hennar. Hjá öðrum tegundum eru tvær eða fleiri drottningar í búinu og vinna dætur þeirra beggja (eða allra) saman að því að tryggja viðgang þess. Í Argentínu mynda rauðir eldmaurar báðar gerðir búa, en í Bandaríkjunum mynda allir fjöldrottningabú. Það er talinn einn af þeim eiginleikum sem gerir tegundina þar svo ágenga.
Annar merkilegur eiginleiki rauðra eldmaura er þol þeirra gegn árstíðabundnum flóðum, sérstaklega á svokölluðum Pantanal-svæðum í Suður-Ameríku.[7] Til að lifa af flóð krækja maurarnir sig saman og mynda stóra fleka. Flekarnir geta hangið saman svo vikum eða jafnvel mánuðum skiptir. Þannig auka maurarnir líkurnar á að þeir lifi flóðin af.[8]
Mynd 3. Fleki sem rauðir eldmaurar hafa myndað.
Rauðir eldmaurar eru með brodd sem þeir nota sem vopn til sóknar og varnar. Þeir eru einnig búnir myndarlegum munnpörtum sem duga til að bíta húð árasaraðila, til að mynda hönd manneskju. Stunga eldmaura veldur mjög miklum sársauka, og degi síðar myndast iðulega graftarbólur á stungusvæðinu.[9] Eitraður lútur (e. venomous alkaloids) sem maurarnir framleiða, er orsök sársaukans og líklega graftarins. Stungan, bitið og lúturinn eru vopn mauranna gegn óvinum og verða að teljast ansi góð, samanber orðspor tegundarinnar.
Evrópsku eldmaurarnir valda sársauka á svipaðan hátt (með stungum og biti) og það er ástæða fyrir nafni þeirra. Rauðu eldmaurarnir valda meiri sársauka og eru illvígari. Þeir eru samt ekki þróunarfræðilega skyldir tegundunum í Suður-Ameríku heldur er um að ræða þróun svipaðra vopna hjá tveimur eða fleiri tegundum dýra.
Mynd 4. Afleiðingar stunga rauðra eldmaura á legg manneskju. Graftarbólur eru áberandi.
Tilvísanir:
^ Maurarnir sem afgreiða Antonin Dovchenko ofursta í fjórðu kvikmyndinni um Indiana Jones eiga líklega að vera hermaurar, samanber aðdáendasíðuna Indiana Jones Wiki.
^ Tschinkel, W. R. (2013). The fire ants. Belknap Press.
^ Klotz, J., Hansen, L., Pospischil, R. & Rust, M. (2008). Urban Ants of North America and Europe. Identification, Biology and Management. Cornell University Press.
^ Wetterer, J. K. (2013). Exotic spread of Solenopsis invicta Buren (Hymenoptera: Formicidae) beyond North America. Sociobiology, 60(1). 50-55.
Fire ants in the U.S.A. UC Museum of Paleontology Understanding Evolution. Mynd af höfði eldmaurs var fengin frá USDA APHIS PPQ, úr varðveislusafni á vefnum www.forestryimages.org. (Sótt 10.3.2023).
Marco Mancini og Arnar Pálsson. „Hvað eru rauðir eldmaurar?“ Vísindavefurinn, 22. mars 2023, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=84777.
Marco Mancini og Arnar Pálsson. (2023, 22. mars). Hvað eru rauðir eldmaurar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=84777
Marco Mancini og Arnar Pálsson. „Hvað eru rauðir eldmaurar?“ Vísindavefurinn. 22. mar. 2023. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=84777>.