Þessir steinar sem daglega ná til jarðar eru allir litlir og valda engum skaða. Það sem menn hafa hins vegar áhyggjur af eru stærstu steinar sólkerfisins sem gætu auðveldlega valdið miklum skaða ef þeir lentu á jörðinni. Það hefur vitanlega gerst í sögu jarðar og leifar eftir loftsteina í jarðmyndunum sýna það óumdeilanlega, sem og útdauði dýrategunda á sama tíma. Til dæmis var fyrirbærið sem rakst á jörðina fyrir um 65 milljónum ára og átti þátt í að risaeðlurnar dóu út annað hvort smástirni eða halastjörnukjarni um 10 km í þvermál. Talið er að fyrirbæra með um 100 metra í þvermál eða á stærð við fótboltavöll rekist á jörðina um það bil einu sinni á öld, en síðast gerðist það árið 1909 í Tunguska í Síberíu. Líklega verður jörðin fyrir halastjörnu eða smástirni sem er nokkur hundruð metra í þvermál á nokkurra tuga þúsunda ára fresti. Ef til vill má búast við árekstri halastjörnu eða smástirni um kílómetra í þvermál á nokkur hundruð þúsund ára fresti. Árekstur halastjörnu eða smástirni sem er nokkrir kílómetra að stærð gæti hugsanlega orðið á um milljón ára fresti þó margt sé óljóst í sambandi við það. Árekstrar enn stærri fyrirbæra verða svo kannski á um 100 millljón ára fresti. Það sem hér hefur komið fram er unnið upp úr áðurnefndu svari. Lesendur ættu að kynna sér svarið í heild, þar sem meðal annars er skoðað hvaða áhrif árekstrar misstórra fyrirbæra kunna að hafa á jörðina. Á Vísindavefnum eru fjölmörg önnur svör þar sem loftsteinar koma við sögu, til dæmis:
- Hvað er nú vitað um loftsteininn frá Suðurskautslandinu sem talinn var bera merki um líf á Mars?
- Er vitað hversu margir loftsteinar hafa fallið á jörðina?
- Hver er munurinn á gígum eftir sprengigos og gígum eftir árekstur við stóran loftstein?
- Er vitað hvers vegna risaeðlur dóu út?
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.