Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvaða loftsteinar eru taldir þeir stærstu sem fallið hafa á jörðina og hvar féllu þeir? (Guðbjörg Bergsdóttir)
Hvað hafa margir loftsteinar rekist á jörðu? (Emil Gunnarsson, f. 1990)
Þegar loftsteinn skellur á jörðinni myndast gígur, en hvað verður um loftsteinin sem gerði gíginn? (Gezim Haziri, f. 1990)
Á hverjum degi verður jörðin fyrir milljónum loftsteina en ómögulegt er að segja til um nákvæman fjölda þeirra. Flestir eru meinlausir og brenna upp í lofthjúpi jarðar en þó kemur fyrir að stórir loftsteinar, smástirni eða jafnvel halastjörnur stefni á jörðina og rekist á yfirborð hennar með tilheyrandi hamförum. Orkan í árekstrum sem slíkum er svo gríðarleg að oftast nær bráðna steinarnir alveg og hverfa því, en skilja eftir sig stóra gíga.
Á öllum hnöttum innra sólkerfisins og á tunglunum í ytra sólkerfinu eru greinileg merki um miklar loftsteinahríðir. Á stöðum þar sem veðrun er hæg eða engin, eins og á tunglinu og Mars, varðveitast ummerkin sérstaklega vel. Flestir árekstrar á þessum hnöttum urðu mjög snemma í sögu sólkerfisins og því er gígótt yfirborð gamalt.
Jörðin okkar hefur orðið fyrir miklu harðari loftsteinahríð en tunglið vegna sterkara þyngdartogs. Yfirborð tunglsins er hins vegar miklu gígóttara. Hvers vegna? Á jörðinni hverfa gígarnir smám saman af völdum veðrunar og jarðhræringa sem endurmóta landslagið í sífellu. Þess vegna hverfa árekstrargígar tiltölulega hratt á jörðinni og fáir stórir gígar eru sýnilegir. Einungis um 160 árekstargígar hafa fundist á jörðinni og flestir þeirra á tiltölulega jarðfræðilega óvirkum svæðum, til dæmis í Norður-Ameríku, Evrópu, sunnanverðri Afríku og Ástralíu. Í Kanada er vitað um að minnsta kosti 25 árekstrargíga og 19 í Ástralíu svo dæmi séu tekin.
Enginn árekstrargígur þekkist hérlendis enda er landið okkar mjög ungt. Auk þess afmást öll ummerki um árekstra hér á landi mjög hratt vegna eldvirkni. Á ári hverju lenda þó líklega tveir loftsteinar á Íslandi sem skilja ekki eftir sig nein greinileg ummerki og enginn loftsteinn hefur hingað til fundist hér á landi, enda er erfitt að greina þá frá venjulegu grjóti á víðavangi.
Erfitt getur reynst að meta stærð árekstrargíga á jörðinni vegna veðrunar. Stærsta gíginn er þó líkast til að finna í Vredefort í Suður-Afríku. Sá er talinn um tveggja milljarða ára gamall og um 300 km í þvermál (þótt sumar áætlanir geri ráð fyrir að hann sé einungis 170 km í þvermál). Næstur í röðinni er Sudbury-gígurinn í Kanada en hann er talinn um 200 km í þvermál og 1,8 milljarða ára gamall. Þriðji stærsti gígurinn er Chicxulub-gígurinn á Yucatán-skaga í Mexíkó. Þvermál hans virðist vera um 180 km en gæti verið allt að 280 km. Líklega er Chicxulub-gígurinn frægasti gígurinn, þar sem hann er talinn hafa myndast fyrir um 65 milljónum ára þegar um 10 km breið halastjarna (eða smástirni) rakst á jörðina og olli miklum hamförum, sem meðal annars eru taldar hafa stuðlað að útdauða risaeðlanna og fjölda annarra dýrategunda.
Chicxulub-gígurinn á Yucatán-skaga í Mexíkó myndaðist fyrir um 65 milljónum ára og er þriðji stærsti gígur jarðar.
Sævar Helgi Bragason. „Er vitað hversu margir loftsteinar hafa fallið á jörðina?“ Vísindavefurinn, 12. ágúst 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5195.
Sævar Helgi Bragason. (2005, 12. ágúst). Er vitað hversu margir loftsteinar hafa fallið á jörðina? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5195
Sævar Helgi Bragason. „Er vitað hversu margir loftsteinar hafa fallið á jörðina?“ Vísindavefurinn. 12. ágú. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5195>.