Önnur tegund sem sennilega dó út af sömu orsökum er ný-sjálenski rindillinn sem kallast runnaprílari (Xenicus longipes). Hann var mjög viðkvæmur fyrir afráni rotta sem áttu auðvelt með að komast í jarðlæg hreiður hans og éta þar bæði unga og egg. Tegundin var úrskurðuð útdauð árið 1988. Sennilega hafa tugir tegunda í Eyjaálfu og á fleiri stöðum víða um heim hlotið sömu örlög, sérstaklega á afskekktum eyjum í suðurhöfum þar sem sérstætt dýralíf hafði fengið að þróast í friði í milljónir ára. Oft er það einnig svo að þegar fækkar mjög mikið í einhverjum stofni, til dæmis sökum ofveiði, aukast líkur á skyldleikaæxlun sem getur haft ýmsar neikvæðar afleiðingar. Hlutfall ófrjósemi meðal einstaklinga getur til dæmis hækkað og það aukið líkurnar á afkomubresti sem getur að lokum leitt til útdauða tegundarinnar. Nú er svo komið að ástand fjölmargra dýrategunda er það bágborið, vegna ofveiði og búsvæðaröskunar, að heildarstofnstærð þeirra telur aðeins nokkra tugi einstaklinga og því nær útilokað annað en þessar tegundir deyi út. Rannsóknir hafa sýnt að ófrjósemi og fósturlát eru óvenju tíð meðal nokkurra tegunda sem eru í slíkri útrýmingarhættu, svo sem hjá jövu-nashyrningnum, asíska blettatígrinum og nokkrum öðrum tegundum sem rannsakaðar hafa verið. Af fuglum sem dáið hafa út vegna ofnýtingar mannsins má nefna Labradoröndina (Camptorhynchus labradoricus). Sennilega hafa bæði veiðar og eggjataka að sumarlagi og veiðar á vetrarstöðvum valdið því að tegundin dó út seint á 19. öld. Talið er að síðasti fuglinn hafi verið skotinn árið 1875 en aðal varpsvæði þessarar andar var við St. Lawrence flóa í Kanada.
Annar andfugl sem veiddur var með slíku offorsi að hann dó út var Máritíusaröndin (Anas theodori) sem var eftir því sem best er vitað einlend á eyjunni Máritíus í Indlandshafi. Sæfarar sem komu við á eyjunni á ferðum sínum veiddu ógrynni af öndinni sem var berskjölduð fyrir innrás vestrænna veiðimanna. Talið er að hún hafi verið orðin aldauða í kringum árið 1710. Þriðji dæmið um andfugl sem dó af svipuðum ástæðum er hin ófleyga Amsterdameyjaönd (Anas marecula). Amsterdameyja er í suður Indlandshafi og komu hvalveiðimenn þar við fyrr á öldum og veiddu öndina sér til matar. Hún varð sennilega aldauða undir lok 18. aldar. Fuglar hafa einnig horfið úr íslensku fánunni og er geirfuglinn vel þekkt dæmi. Telja má víst að ofveiði hafi verið helsta orsök þess að hann dó út en síðasti geirfuglinn var veiddur í Eldey árið 1844. Fleiri fuglar hafa horfið úr íslensku fánunni svo sem keldusvín (Rallus aquaticus), en í þeim tilfellum eru orsakirnar aðrar, svo sem hlýnandi veðurfar, búsvæðaskerðing og tilkoma minksins. Eitt af skýrasta dæmið um hvernig fyrirhyggjuleysi mannskepnunnar hefur valdið útdauða tegunda eru örlög hinnar risavöxnu Stellars-sækýr (Hydrodamalis gigas) sem lifði í Beringshafi. Það liðu einungis 27 ár frá því að Evrópumenn komust fyrst í kynni við hana og þar til tegundin var útdauð. Nánar er fjallað um það í svari sama höfundar við spurningunni Hvers vegna dó Steller-sækýrin út? Af landdýrum sem maðurinn hefur útrýmt með veiðum má nefna bláa bukka (Hippotragus leucophaeus), antilóputegund sem hafði mjög takmarkaða útbreiðslu syðst í Suður-Afríku. Blái bukki var veiddur grimmt af fyrstu evrópsku landnemunum á 18. öld og er talið að síðasta dýrið hafi verið drepið í kringum árið 1800. Fleiri antilópur hafa orðið veiði manna að bráð og má þar nefna sverðantilópuna (Oryx dammah) en henni var útrýmt úr náttúrunni á síðustu öld. Það þótti góð æfing fyrir franska hermenn í útlendingahersveitinni að veiða antilópurnar og keyrðu þeir þær uppi og drápu tugum saman. Búsvæðaröskun og ófriðarástand í þeim löndum sem heimkynni hennar spönnuðu gerðu svo endanlega út af við stofninn. Tegundin varðveittist þó í dýragörðum og einkasöfnum víða um heim og hafa tilraunir til að koma upp nýjum stofnum í náttúrunni gengið ágætlega. Tasmaníutígurinn(Thylacinus cynocephalus) er annað dæmi um tegund sem athafnir mannsins gerðu út af við. Talið er að hann hafi dáið út upp úr 1930 vegna ofveiði og ofsókna mannsins, en til dæmis var eitrað fyrir honum. Nánar má lesa um tasmaníutígurinn í svari sama höfundar við spurningunni Getur þú sagt mér allt um tasmaníutígurinn og sýnt mér mynd af honum og afkvæmi?.
Falklandseyja-úlfurinn (Dusicyon australis) hlaut sömu örlög, en þessi sérstæða tegund úlfs lifði einungis á Falklandseyjum í Suður-Atlantshafi. Evrópumenn uppgötvuðu Falklandseyja-úlfinn árið 1690 en talið er að hann hafi dáið út á seinni hluta 19. aldar, bæði vegna veiða bandarískra loðdýraveiðimanna og vegna aðgerða skoskra landnema sem gengu hart fram í að verja sauðfé sitt fyrir honum. Hér hafa aðeins verði nefndar örfáar tegundir sem maðurinn hefur að öllum líkindum veitt þar til þær dóu út. Listinn er mjög langt frá því að vera tæmandi en ógerningur er að fjalla á þessum vettvangi um allar þær tegundir sem dáið hafa út beint eða óbeint fyrir tilstilli mannsins. Á Vísindavefnum er að finna mörg svör um tegundir sem dáið hafa út, ýmist af mannavöldum eða náttúrulegum orsökum. Eins eru þar svör um útrýmingarhættu. Hægt er að nálgast þessi svör með því að smella á efnisorðin. Meðal svara eftir sama höfund má benda á:
- Hvers vegna dó flökkudúfan út?
- Hvers vegna dó sverðkötturinn út?
- Af hverju dó dódó-fuglinn út?
- Hvernig voru loðfílar?
- Hversu margar tegundir af dýrum eru í útrýmingarhættu í dag og af hverju?
- Hvaða dýr eru í allra mestri útrýmingarhættu?
- Er útrýming dýrategunda alltaf manninum að kenna?
- Hvaða dýr í Afríku eru í útrýmingarhættu?
- Hvað getið þið sagt mér um dúfnategundina Ptilinopus arcanus?