Hvaða dýrategundum hefur maðurinn útrýmt og hverjar hafa bara bókstaflega dáið út? Vegna breytts loftslags til dæmis?Þessari spurningu er ekki auðsvarað því að margir þættir geta legið að baki útrýmingu dýrategunda. Þó má ætla að sú útrýmingaralda sem við upplifum nú um stundir megi rekja beint eða óbeint til athafna mannsins. Í þessu tilliti hafa menn best rannsakað spendýr (Mammalia) og er staðreyndin sú að á undanförnum öldum hefur tíðni útrýmingar aukist stórkostlega meðal þeirra. Auk þess hefur einstaklingum af langflestum eftirlifandi tegundum fækkað ótrúlega. Einstaka spendýr virðast þó hafa aðlagast lífi með manninum, tegundir eins og húsamús (Mus musculus), rauðrefur (Vulpes vulpes) og brúnrotta (Rattus norvegicus), svo einstaka dæmi séu tekin. Stór spendýr sem þurfa stórt búsvæði, hafa þurft að láta undan ágangi mannsins, til dæmis fílar og nashyrningar. Undantekningarlaust má sama segja um stórar kjötætur sem þurfa mikla fæðu eins og úlfa (Canis lupus), brúnbirni (skógarbirni, Ursus arctos), ljón og tígrisdýr (Panthera tigris).
Fræðimenn eru nokkuð sammála um það að þær breytingar á loftslagi jarðar sem við erum að upplifa nú um stundir, séu fyrst og fremst af völdum mannsins. Þannig höfum við stuðlað beint og óbeint að útrýmingu dýrategunda, fyrst og fremst með breytingum á búsvæðum þeirra. Samkvæmt rannsóknum á steingervingafánu spendýra, teldist eðlilegt að ein spendýrategund dæi út á hverjum 200 árum. Síðastliðin 400 ár hafa hins vegar horfið 89 spendýrategundir eða 45 sinnum fleiri en eðlilegt getur talist. Tíðnin virðist vera að aukast mikið nú um stundir því áætlað er að á síðastliðinni öld hafi 50 tegundir af þessum 89 hafi dáið út, sem jafngildir hundraðfaldri aukningu á tíðni útrýmingar.
- Steele, P and Kline M. 2002. Extinct Land Mammals: And Those in Danger of Extinction.
- Recently Extinct Animals.
- University of Alaska: Some Mammals of the World.
- North Pacific Marine Research Program.
Í svarinu er að finna hlekki á svör um tegundir sem koma við sögu. Lesendum skal bent á leitarvél Vísindavefsins en finna má þannig svör um þær dýrategundir sem ekki fengu sérstakan hlekk. Á Vísindavefnum má einnig finna mörg svör um útrýmingu dýrategunda og útrýmingarhættu. Hér eru nokkur eftir höfund þessa svars en auk þess skal minnt aftur á leitarvélina, sem og efnisorðin neðst við svarið:
- Hversu margar tegundir af dýrum eru í útrýmingarhættu í dag og af hverju?
- Hvaða dýr eru í allra mestri útrýmingarhættu?
- Hvað eru margar fuglategundir í útrýmingarhættu hér á landi?
- Eru hvalir í útrýmingarhættu í dag?
- Eru mörgæsir í útrýmingarhættu?
- Hvaða sjávardýr er í mestri útrýmingarhættu?
- Hvað er hægt að gera til að bjarga tígrisdýrum frá útrýmingarhættu?
- Hvert er sjaldgæfasta spendýr í heimi?
- Hvaða fugl er sjaldgæfastur?
- Af hverju dó geirfuglinn út? Hve stór var stofninn við Ísland?